Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Í dag stöndum við á tímamótum. Það eru fjórar vikur til kosninga. Við getum verið stolt af fjölda góðra verka sem komist hafa til leiðar og þeirri samstöðu sem ríkt hefur um aðgerðir til að bregðast við bæði heimsfaraldri og náttúruhamförum innanlands.
Kjörtímabilið hefur verið skeið framfara og betri kjara. Á vefnum tekjusagan.is sést svart á hvítu hvernig ráðstöfunartekjur allra hópa hafa stóraukist undanfarin ár, ekki síst hjá eldra fólki og þeim sem minnst hafa haft milli handanna. Þar hafa sérstakar áherslur ríkisstjórnarinnar í skatta- og félagsmálum ásamt áherslum vinnumarkaðar skipt sköpum. Í djúpri efnahagslægð tókst okkur ekki bara að verja kaupmátt heimilanna heldur fór hann upp á við. Allar forsendur eru til staðar til að halda áfram á þessari braut.
Vegna skattalækkana hefur meira setið eftir til heimilisrekstrar af launagreiðslum fólks. Launamaður með 400 þúsund króna mánaðarlaun hefur um 120 þúsund krónum meira milli handanna á ári vegna tekjuskattslækkana síðustu tveggja ára. Ef við lítum lengra aftur og skoðum uppsöfnuð áhrif af lækkun tekjuskatts frá 2013 kemur í ljós að það munar heimilin 35 milljörðum í lægri skattgreiðslur.
Á okkar vakt hefur tryggingagjaldið einnig lækkað þannig að árlegar álögur á fyrirtækin í landinu eru 26 milljörðum lægri. Það munar um minna.
Það sem skiptir raunverulegu máli
Fyrstu ár okkar í ríkisstjórn nýttust vel til að lækka skuldir sem þýddi að við gátum tekist á við Covid-samdráttinn af krafti. Betur en flest ríki heims, ef marka má úttektir alþjóðastofnana á borð við OECD og AGS. Úrræði stjórnvalda hafa nýst tugum þúsunda heimila og fyrirtækja, þar sem yfirgnæfandi meirihluti segist í viðhorfskönnunum vera ánægður með hvernig til tókst.
Atvinnuleysi dregst nú saman langt umfram spár, hagvöxtur eykst og afkoma ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins er tugmilljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Áhrifin sem öll þessi atriði hafa á okkar stöðu og kjör fólksins í landinu eru gríðarleg. Þetta eru hlutirnir sem skipta raunverulegu máli.
Það er mikilvægt að tala um það sem vel gengur, enda er enginn skortur á fólki sem vill skilgreina verk okkar og stefnu. Undanfarin ár hefur orðið til fjöldi smáflokka um afmörkuð stefnumál. Þau eru ólík og ná allt frá aðild að Evrópusambandinu yfir í að innleiða hér samfélag sósíalisma, í anda ríkja þar sem fólk keppist nú ýmist við að rísa upp gegn harðstjórninni eða neyðist jafnvel til að flýja.
Þrátt fyrir ólíkar áherslur eiga frambjóðendur hinna sundurleitu flokka þó margir sameiginlegt að keppast við að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn.
Eðli málsins samkvæmt bíta utanaðkomandi skilgreiningar okkur lítið. Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsta stjórnmálaafl landsins og eina breiðfylkingin sem eftir stendur. Við erum flokkur þar sem ólík sjónarmið og fjölbreyttar raddir komast að innan hóps sem trúir þó allur á sömu grundvallargildin. Jöfn tækifæri umfram jafna útkomu. Að vera áfram land tækifæranna þar sem frelsi, framfarir og trú á kraftinn í fólkinu ræður för. Þar slær okkar hjarta.
Þéttum raðirnar
Í dag koma hópar sjálfstæðisfólks af öllu landinu saman á fundi fyrir tilstilli tækninnar. Við horfum svo bjartsýn fram veginn til betri tíma, þar sem fjöldi sjálfstæðisfólks mun fyrr en síðar koma saman á eiginlegum landsfundi. Dagurinn í dag er hins vegar mikilvæg varða í baráttunni sem fram undan er. Þar þéttum við raðirnar, leggjum línurnar fyrir næstu vikur og ræðum málin sem verða sett á oddinn hjá öflugum og fjölbreyttum hópi frambjóðenda. Frambjóðenda sem á þriðja tug þúsunda sjálfstæðisfólks um allt land valdi í prófkjörum í vor.
Við munum ræða áframhaldandi lífskjarabætur, áskoranir á alþjóðavísu, loftslagsmál og grænu orkubyltinguna. Stöðugleika, sterkari innviði, samgöngur, skatta, betri ríkisrekstur, stafrænar lausnir og umbætur í lífeyris- og heilbrigðiskerfum okkar. Áfram mætti lengi telja. Áherslan er á raunhæfar lausnir, en ekki skýjaborgir og útgjaldaloforð á kostnað almennings.
Okkur eru allir vegir færir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.