Ásmundur Friðriksson, alþingismaður:
Ekkert stjórnmálaafl á lengri sögu í náttúruvernd en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er óumdeilt. Rafvæðing þéttbýlis, hitaveita í stað kolakyndingar, uppbygging flutningskerfa raforku eru allt verkefni sem lutu stjórn eða voru ákveðin af sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og sveitarstjórnum. Á þeirri löngu vegferð leit Sjálfstæðisflokkurinn aldrei til baka og enn má setja stefnuna í eitt orð: ÁFRAM!
Ísland til fyrirmyndar
Engin verkefni í umhverfismálum hafa sett Ísland framar í loftslagsmálum en sjálfbær orkunotkun Íslendinga. Frá árinu 1990 hefur hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verið í kringum 85% en stefna Evrópusambandsins er að hlutfall endurnýjanlegrar orku í sambandinu, sem er 30%, hafi aukist um 5% árið 2050. Ísland er í öðru sæti þegar kemur að fjölda rafbíla miðað við höfðatölu. Þar er keppt við Evrópuþjóðir sem hlaða rafbíla með raforku sem framleidd er úr kolaorku. Fiskiskipafloti Íslendinga hefur farið á undan með góðu fordæmi og minnkað jarðefnaeldsneytisnotkun frá árinu 2005 um 40% miðað við útflutt verðmæti. Ef aðrar þjóðir í heiminum væru á sama stað og við Íslendingar í losun kolefnis væri engin umræða um loftslagsmál í heiminum. Við erum til fyrirmyndar en ætlum að gera betur.
Grænt atvinnulíf fyrir unga fólkið
Ábyrgð okkar í loftslagsmálum er að taka þátt með öðrum þjóðum í minni losun kolefnis. Að sama skapi er það mikilvægt framlag okkar til loftslagsmála í heiminum að nýta endurnýjanlega óbeislaða orku sem við höfum yfir að ráða. Í því felst ekki alhæfing að það eigi að virkja allt sem virkja má. Í þessum atriðum skiptir framlag Íslands miklu máli, þótt árangur þjóða heimsins velti ekki á framlagi Íslands. Atvinnutækifæri framtíðarinnar eiga að skapa fjölbreytt, vel launuð störf við framleiðslu í grænu atvinnulífi, eins og vetnisframleiðslu sem þarf mikla orku og þekkingu. Lífsgæði unga fólksins okkar byggjast á forystu Íslands í umhverfisvænni atvinnustarfsemi, hreinleika landsins, gjöfulum fiskimiðum og heilbrigðum landbúnaði.
Sköpum framtíð
Allt tal um að eina hlutverk Íslendinga sé að leggja okkar af mörkum til minni losunar er rangt. Hlutverk okkar er ekki síður mikilvægt í því að nýta endurnýjanlega orkugjafa til að skapa framtíð fyrir unga fólkið í landinu með fjölbreyttri grænni atvinnustarfsemi og fjölbreyttum störfum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2021.