Óli Björn Kárason, alþingismaður:
Fyrir fimm árum hóf hópur ungs hæfileikafólks nám í sjúkraþjálfun. Eftir að hafa lokið ströngu þriggja ára BS-námi, tóku flestir ákvörðun um að halda áfram og ljúka tveggja ára stífu mastersnámi sem gefur rétt „til að kalla sig sjúkraþjálfara og starfa sem slíkur hér á landi,“ eins og segir í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraþjálfara.
Ákvarðanir ungs fólks um að leggja á sig erfitt nám endurspegla löngun til að leggja hönd á plóginn við að bæta hreyfigetu, færni og heilsu okkar allra, en um leið koma í veg fyrir eða „draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma, öldrunar og lífsstíls,“ svo vitnað sé í lýsingu á náminu. Sem sagt: Auka lífsgæði og heilbrigði landsmanna.
Sjálfsagt hafa margir nemarnir stefnt að því í upphafi að vinna innan veggja ríkisrekna heilbrigðiskerfisins – á sjúkrahúsum, – aðrir horft til þess að ganga til liðs við sjálfstæðar endurhæfingarstofnanir og enn aðrir talið að þekking og kraftar þeirra nýtist best hjá sjálfstætt starfandi fyrirtækjum í sjúkraþjálfun. Að minnsta kosti einn átti sér þann draum og opna eigin stofu úti á landi og hafði þegar gert ráðstafanir í húsnæðismálum.
En svo var leikreglunum breytt.
Sviptir réttindum
Nokkrum mánuðum fyrir útskrift breyttu heilbrigðisyfirvöld reglugerð um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands vegna sjúkraþjálfunar. Endurgreiðslan er samkvæmt gjaldskrá sem stofnunin setur einhliða, en ekki hafa tekist samningar milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga. Breytingin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en gjörbreytir forsendum ungra sjúkraþjálfara. Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúklings er að sjúkraþjálfarinn hafi starfað í að minnsta kosti tvö ár sem sjúkraþjálfari, í að minnsta kosti 80% starfshlutfalli, eftir löggildingu.
Sem sagt: Enginn viðskiptavinur þeirra sjúkraþjálfara sem nýlega hafa lokið námi, á rétt á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum næstu tvö árin. Eða: Allir þeir sem ákveða að nýta sér þjónustu nýútskrifaðra, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara eru sviptir sjúkratryggingum.
Við getum einnig stillt þessu upp með eftirfarandi hætti: Með reglugerðinni er verið að skerða atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í tvö ár. Eftir langt og strangt fimm ára nám, þar sem gefin voru fyrirheit um full starfsréttindi – atvinnuréttindi – er jafnræðisreglan þverbrotin og reglan um meðalhóf í stjórnarathöfnum er rykfallið og merkingarlaust hugtak í djúpum skúffum kerfisins.
Staða talmeinafræðinga og skjólstæðinga þeirra er svipuð en er þó á grunni rammasamnings milli þeirra og Sjúkratrygginga. Spurning er hvort talmeinafræðingar hafi mátt sín mikils í þeim „samningaviðræðum“. Talmeinafræðingar eru fáliðaðir og hundruð barna og unglinga þurfa að bíða í 18 til 36 mánuði eftir að fá nauðsynlega þjónustu. Það er eitthvað galið við það að nýútskrifuðum talmeinafræðingi sem hefur fengið starfsleyfi Landlæknis, skuli meinað að vinna sjálfstætt og komið sé í veg fyrir að skjólstæðingar hans njóti réttinda til endurgreiðslu. Bíddu í tvö ár segir kerfið. Og svo eru einhverjir hissa ef endurnýjun á sér ekki stað.
Barátta að engu gerð
Því miður eru dæmin um sjúkraþjálfarana og talmeinafræðingana ekki þau einu um hvernig hægt og bítandi er verið að grafa undan sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum, takmarka atvinnufrelsi þeirra og hafa réttindi af sjúkratryggðum. Staða sjálfstætt starfandi sérfræðilækna er lítið skárri og hægt en örugglega er verið að hrekja þá út úr sameiginlegu tryggingakerfi okkar allra. Og þar með verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum.
Flest verðum við að sætta okkur við heilbrigðisþjónustu innan ríkisrekna tryggingakerfisins, með tilheyrandi biðlistum. Efnameira fólk kaupir þjónustuna beint eða í gegnum eigin tryggingar, af sérfræðilæknum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum. Áratuga barátta fyrir því að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, verður að engu gerð.
Ekki uppörvandi skilaboð
Engu er líkara en að heilbrigðisyfirvöld eigi erfitt með að skilja að heilbrigðisvísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki síst í rekstrarformi, nýliðun og framsækinni hugsun. Skilaboðin sem stjórnvöld senda ungu fólki, sem hugar að því að leggja fyrir sig langt og strangt nám og verða læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, líffræðingar, lyfjafræðingar, talmeinafræðingar eða sálfræðingar, eru ekki uppörvandi: Þið getið alltaf átt von á því að reglum verði breytt, athafnafrelsi ykkar skert og réttindi skjólstæðinga ykkar að engu höfð. Og allra síst höfum við sérstakan áhuga á að auka starfsmöguleika ykkar utan ríkisrekins heilbrigðiskerfisins.
En þetta unga fólk mun ekki láta hugfallast. Það veit sem er að heilbrigðisstarfsmenn eru alþjóðlegt vinnuafl. Heimurinn er þeirra starfsvettvangur. Þegar heilbrigðisyfirvöld átta sig á þessari einföldu staðreynd þá opnast vonandi augun fyrir því að við Íslendingar erum í harðri alþjóðlegri samkeppni um hæfileikaríkt og vel menntað starfsfólk. Þá er von til þess að hugað verði betur að atvinnufrelsi og jafnræði allra heilbrigðisstétta.
P.s.
Reglugerð um endurgreiðslu vegna þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara rennur út 31. ágúst næstkomandi. Ráðherra getur leiðrétt ranglætið með því að gera ekkert en senda Sjúkratryggingum skilaboð um að breyta rammasamningi talmeinafræðinga og afnema tveggja ára ranglætið sem þar ríkir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2021.