Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Óvenjuleg verslunarmannahelgi er að baki og vonandi hafa flestir átt gott frí síðustu daga og vikur – náð að hlaða rafhlöðurnar. Hvort sem kjósendum líkar betur eða verr er kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar 25. september að hefjast. Líklegt er að fyrst í stað fari baráttan rólega af stað en síðan eykst þunginn eftir því sem nær dregur kjördegi. Á þeim 52 dögum sem eru til kosninga verða mörg loforð gefin – flest um aukin ríkisútgjöld venju samkvæmt.
Þótt stjórnmálaflokkarnir eigi eftir að leggja flest spilin á borðið ættu kjósendur að geta gert sér þokkalega grein fyrir því við hverju má búast. Það liggur til dæmis fyrir að Samfylkingin og Píratar lofa að eiga ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Draumurinn er ríkisstjórn á grunni svokallaðs Reykjavíkurmódels vinstriflokkanna sem Viðreisn gerði mögulegt að smíða eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Eftir síðustu þingkosningar komu forystumenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar saman til fundar til að kanna grundvöll að samstarfi flokkanna í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, ef svo bæri undir. Formaður Samfylkingarinnar fullyrti í fjölmiðlum að á fundi þríflokksins væru „komin saman frjálslyndu öflin í íslenskum stjórnmálum“. Merkimiða-pólitík er þríflokknum eðlislæg.
Ekki er við öðru að búast en að þríflokkurinn komi saman til fundar eftir komandi kosningar (og sjálfsagt fyrir kosningar einnig) til að leggja drög að ríkisstjórn vinstriflokkanna.
Gangi draumur þríflokksins um ríkisstjórn eftir má ganga út frá því að skattar og álögur á launafólk og fyrirtæki hækki, ríkisútgjöld og skuldir aukist, atvinnuvegafjárfesting dragist saman og ríkisreksturinn verði óhagkvæmari og þjónustan verri. Þetta er ekki uppskrift að fjölbreyttara samfélagi eða bættum lífskjörum.
Virðing fyrir sjálfsaflafé
Þegar kolefnisgjöld voru hækkuð um 50% var það í huga frjálslyndra þingmanna Samfylkingarinnar eftirgjöf, þar sem þau hefðu ekki verið hækkuð um 100%. Ríkisstjórnin væri með því að afsala sér tekjum með því að ýta á „einn takka“. Hið sama á við um fjármagnstekjuskattinn, að ekki sé talað um loforðið um að leggja að nýju á eignarskatta, sem leggjast einna þyngst á eldri borgara. Þeir sem kappsamastir eru að líma á sig merkimiða frjálslyndis líta á það sem „eftirgjöf tekna“ og „afsal“ ef sæmilegrar hófsemdar er gætt í skattheimtu. Virðingin fyrir sjálfsaflafé og eignum einstaklinga þvælist ekki fyrir þeim sem líta á svo á að ríkið sé að veita „nettóeftirgjöf“ þegar einstaklingar „fá“ að halda einhverju eftir af því sem þeir afla og spara.
Þetta er hugmyndafræðin sem hugsanleg ríkisstjórn vinstriflokkanna mun byggja á. Og fyrir almenning en ekki síst ungt fólk hlýtur það að vera áhyggjuefni. Ungt fólk getur valið sér búsetu að mestu óháð landamærum. Það er alþjóðlega menntað og margtyngt. Það er auðvitað gleðileg hve unga kynslóðin er alþjóðlega samkeppnishæf – hæfileika- og hugmyndarík. Það skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni okkar Íslendinga og lífskjör almennt að gera það eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að setjast hér að. Þar skiptir skattbyrðin máli sem og hvernig opinber þjónusta á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfið er. Ísland er og verður í samkeppni við önnur lönd, ekki síst um ungt vel menntað fólk á öllum sviðum. Hugmyndafræði skattheimtuflokkanna leiðir óhjákvæmilega til verri stöðu okkar í þeirri keppni.
Fanga athygli fjölmiðla
Ég hef í gegnum árin reynt að vekja athygli á því að fjárstjórn ríkisins snúist ekki síst um að nýta takmarkaða fjármuni með skynsamlegum hætti. Forgangsröðun útgjalda, skipulag ríkisrekstrar og hvernig opinber þjónusta er skipulögð skiptir almenning æ meira máli. Hvernig sameiginlegir fjármunir og eignir eru nýtt í þau verkefni sem við höfum falið ríkinu að annast og/eða fjármagna er mikilvægara fyrir almenning en að hámarka tekjur sem renna í gegnum ríkiskassann.
Eitt mesta hagsmunamál skattgreiðenda á komandi árum er að innleiddir verði árangursmælikvarðar á öllum málasviðum ríkisútgjalda. Ríkissjóður – þingmenn og ráðherrar – á að gera skýrar og auknar kröfur til allrar opinberrar þjónustu – ekki síst á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu.
En það er borin von að þeir stjórnmálamenn sem eru sannfærðir um að flest vandamál verði leyst með auknum fjármunum hafi forystu um að auka kröfur til opinberra aðila. Kannski vita þeir hinir sömu (a.m.k. einhverjir þeirra] – innst inni – að þeir eru að blekkja sjálfa sig og aðra. Loforð um aukin útgjöld í allt milli hins og jarðar eru auðveldari en fyrirheit um betri nýtingu fjármuna og miklu líklegri til að fanga athygli fjölmiðla og öflugra þrýstihópa. Þannig þenst ríkið út og reksturinn verður óhagkvæmari og þjónustan verri.
Endar með ósköpum
Í kosningabaráttunni sem er fram undan verður ekki síður forvitnilegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla en stefnu og yfirlýsingum frambjóðenda. Fjölmiðlar eru gjarnir á að gefa stjórnmálamönnum tækifæri til að gefa hástemmd loforð óháð því hvort fyrir þeim séu innistæður. Sé loforðið hærri útgjöld, hærri skattar og aukin umsvif ríkisins fær stjórnmálamaðurinn greiðan aðgang að fjölmiðlum og getur þokkalega áhyggjulaus gefið út stórar yfirlýsingar án gagnrýnna spurninga. Þessu er öfugt farið hjá þeim sem berst fyrir lækkun skatta. Hann er krafinn svara við því hvernig hann ætli að „fjármagna“ lækkun skatta.
Það virðist flestum fjölmiðlungum í blóð borið að tortryggja fremur þá sem telja skynsamlegt að gæta hófsemdar í álögum en þá sem líta á það sem „afsal“ ríkisins á tekjum að létta byrðar launafólks og fyrirtækja. Hættan er sú að þetta viðhorf verði ríkjandi á komandi árum eftir því sem fjölmiðlar verða háðari ríkisvaldinu fjárhagslega. Þetta á einnig við um starfsemi stjórnmálaflokka – ríkisvæðing þeirra endar með ósköpum. En uppboðsmarkaður stjórnmálanna verður líklega líflegri. Allt á kostnað skattgreiðenda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. ágúst 2021.