„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Mæting í bólusetningu er framar björtustu vonum. Þess vegna erum við hér í dag,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra eftir að tilkynnt var um að allar takmarkanir sem gilda innanlands falli úr gildi frá og með morgundeginum (26. júní).
Í því felst m.a. fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Eru tillögurnar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Áslaug Arna segir að ferlið hafi verið mjög lærdómsríkt. Það hafi verið skynsamlegt skref að hleypa ferðamönnum sem eru bólusettir inn í landið og að vonandi verði hægt að aflétta meira á landamærunum innan tíðar.
Frá 1. júlí næstkomandi munu taka gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærunum. Þá verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu og þeim sem framvísa vottorðum um fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Sýnatöku verður einnig hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar.
Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottirði við byrðingu og á landamærum, að undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.