Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:
Gleðilegt var að sjá tilkynningu Vegagerðarinnar í vikunni sem bar yfirskriftina „Loftbrú mikil búbót fyrir landsbyggðina“. Þar segir að fjöldi fólks hafi nýtt sér afsláttarkjör Loftbrúar frá því í september enda sé það mikil búbót fyrir landsbyggðarfólk. Markmiðið er að bæta aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni með lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40 prósenta afslátt af heildarfargjaldi fyrir áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Hver einstaklingur nýtur lægri fargjalda fyrir allt að þrjár ferðir árlega fram og til baka eða sex flugleggi.
Í áraraðir hef ég talað fyrir að jafna aðgengi landsbyggðar að þjónustu sem byggð hefur verið upp miðlægt í Reykjavík. Fyrst fór ég að tala fyrir þessu opinberlega fyrri hluta árs 2016, þá sem bæjarfulltrúi á Akureyri og í stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Eftir fjöldann allan af ræðum, viðtölum og greinaskrifum veitti ég forstöðu starfshópi skipuðum af Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra vorið 2017 um framtíð innanlandsflugs, sem lagði til að fargjöld landsbyggðar nytu allt að 50 prósenta niðurgreiðslu. Þar var byggt á hinni „skosku leið“ um að niðurgreiða flugferðir íbúa dreifðra svæða. Hin áralanga barátta fyrir hinni „skosku leið“ hefur skilað sér svo um munar.
Loftbrúin nýtist aðeins einstaklingi með lögheimili í skilgreindri fjarlægð frá höfuðborginni. Hún nær ekki til fyrirtækja, stofnana eða ferðamanna á landsbyggðinni. Gagnvart atvinnulífi er skýr aðstöðumunur gagnvart höfuðborgarsvæði. Þann aðstöðumun þarf að jafna, en með öðrum aðferðum en loftbrú. Ég hef margítrekað að það séu skýrustu rökin fyrir betra samgöngukerfi, ekki síst uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni.
Stundum er farið niðrandi orðum um störf þingmanna. Við umræður um „skosku leiðina“ fann maður mótvindinn. Tillögurnar ekki sagðar raunhæfar og vart hugsaðar til framtíðar. Það hefur reynst alrangt.
Í frétt Vegagerðar segir að ungt fólk 20-24 ára á landsbyggðinni sé hópurinn sem nýti þetta tækifæri öðrum fremur. – Til mikils var barist. Einmitt unga fólkið þarf hvað mesta hvatningu til að festa rætur í heimabyggð. Hjá þeim liggur blómleg framtíð landsbyggðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.