Sigríður Á. Andersen, alþingismaður:
Ég hef veitt því athygli að helstu mælikvarðar vinstriflokkanna á árangur í loftslagsmálum eru annars vegar hve háir skattar eru lagðir á almenning í nafni andrúmsloftsins og hins vegar hve útgjöld ríkisins til málaflokksins eru mikil. Það er orðinn reglulegur viðburður í þinginu að vinstriflokkarnir metist um hver býður hæstu skattana og mestu eyðsluna í þessum efnum.
Þvert á það sem vinstriflokkarnir boða eigum við stefna að árangri á þessu sviði sem öðrum með sem lægstum sköttum og minnstum kostnaði. Vinstrimenn eru hins vegar staðráðnir í því að efna til loftslagsmála við almenning með sköttum, eyðslu, boðum og bönnum.
Sérstaða Íslands í orkumálum
Loftslagsmálin eru öðrum þræði orkumál. Íslendingar hafa auðvitað svo mikla sérstöðu í orkumálum að ef aðrar þjóðir væru eins og við væri enginn að tala um hamfarahlýnun. Við notum um 80% endurnýjanlega orku á meðan restin af veröldinni notar yfir 80% jarðefnaeldsneyti. Evrópusambandið er að basla við að koma sínu hlutfalli endurnýjanlegrar orku upp í 20% og notar til þess alls kyns vafasamar aðferðir eins og brennslu lífeldsneytis og lífmassa. ESB stefnir að því að koma hlutfallinu upp í 32% árið 2030.
Ef ekki koma fram hagkvæmar tækninýjungar í orkuframleiðslu mun heimurinn áfram ganga að mestu leyti fyrir olíu, kolum og gasi. Loftslagssamningar munu litlu breyta þar um. Fólk í fátækari ríkjum heims mun ekki afþakka raflýsingu úr kolaorkuveri, gas til eldunar eða bensín á bílinn. Ekki af því að það hafi það sem sérstakt markmið að nota þessa orkugjafa og vilji ekki skipta yfir í minna mengandi orkagjafa. Ástæðan er sú að aðrir hagkvæmari kostir standa þessu fólki ekki til boða. Það er mikilvægt að slíkir kostir komi fram og þróunin er í þá átt.
Sérstöðu Íslands ætti hins vegar að viðurkenna í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál eins og gert var fyrstu tvo áratugina. Vegna sérstöðu okkar er ekki sjálfgefið að við sætum sömu skilyrðum og þjóðir sem búa við allt aðrar aðstæður. Íslensku ákvæðin svonefndu í loftslagssamningunum voru felld á brott í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013.
Himinhá gjöld
Samkvæmt fjármálaáætlun sem samþykkt var á alþingi á dögunum verður samtals 60 milljörðum króna varið til loftslagsmála á árunum 2020-2024. Þessar miklu fjárhæðir verðskulda sérstaka athugun. Ekki síst nú þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla. Í hvað eru þessi fjármunir að fara og skila þeir ásættanlegum árangri?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.