Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn:
Tafatími í borginni hefur vaxið mikið undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Vinnuvikan hefur lengst fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu með bíl. Nú vill borgarstjóri lækka umferðarhraðann í borginni og þrengja að umferð fyrir milljarða króna.
Þessi auknu inngrip munu lengja ferðatíma fólks hvort sem ferðast er með einkabíl eða strætó. Umferðaröryggi verður ekki best mætt með þrengingum. Þvert á móti er hætta á að umferð fari af þrengingargötum og inn í íbúðagötur. Sú leið að hafa lágan hámarkshraða í íbúðagötum var mörkuð 1983 í tíð Davíðs Oddssonar borgarstjóra. Þá var 30 km hámarkshraði innleiddur í íbúðahverfum, en umferðargötum haldið greiðum. Þessi stefna Sjálfstæðisflokksins gafst vel og fækkaði umferðarslysum mikið.
Á síðustu árum hefur verið þrengt að umferð almennt, en útlit er fyrir að nú taki fyrst steininn úr. Ný áætlun um þrengingar gatna og lækkun hámarkshraða á borgargötum hefur nú verið lögð fram. Með samþykkt hennar mun afkastageta gatnakerfisins minnka. Á sama tíma er gert ráð fyrir talsverðri íbúafjölgun.
Í stað þess að innleiða snjalllausnir, bættar gangbrautir og ljósastýringu er fjármunum beint í að þrengja umferðina í Reykjavík. Í staðinn fyrir að að bæta gæði malbiks, þrífa betur götur og ná árangri í að nagladekk séu notuð minna, á nú að hægja á umferð einkabíla og strætó.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa lagt til aukið umferðaröryggi á þeim stöðum þar sem brýnast er að bæta það. Fækka hættulegum ljósastýrðum gatnamótum og bæta öryggi gangandi og hjólandi. Þrengingarstefnan hefur sannað það að hún leysir ekki umferðarvandann. Þvert á móti. Nútímalausnir með bættum vegtengingum myndu létta á umferðinni. Auka öryggi og stytta tafatíma í umferð. Meirihlutinn stendur fyrir háar álögur á fólk og fyrirtæki. Aðgerðir hans í umferðarmálum byggjast á því að þrengja að umferð. Slíkar aðgerðir eru ekki lausnir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2021.