Þróunarsamvinna byggð á gagnsæi og ábyrgð
'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Und­an­farið ár hafa þjóðir heims staðið frammi fyr­ir ein­stök­um áskor­un­um vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru. Fá­tæk­ari ríki heims glíma við ný vanda­mál sem hafa bæst við þau sem fyr­ir voru – og voru þau þó ærin. Ísland held­ur áfram að leggja sitt af mörk­um til að styðja við þessi ríki með marg­vís­leg­um hætti. Sam­kvæmt nýj­um töl­um frá þró­un­ar­sam­vinnu­nefnd Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD DAC) vörðu Íslend­ing­ar á síðasta ári sem nem­ur 0,29 pró­sent­um af verg­um þjóðar­tekj­um til þró­un­ar­sam­vinnu. Með fram­lagi okk­ar sýn­um við enda ábyrgð í sam­fé­lagi þjóðanna og leggj­um okk­ar af mörk­um við að upp­ræta fá­tækt og bæta lífs­kjör.

Um leið ber­um við einnig ábyrgð gagn­vart ís­lensk­um skatt­greiðend­um um ráðdeild og skyn­semi í nýt­ingu op­in­bers fjár. Gagn­sæi og ábyrgð er lögð til grund­vall­ar meðferð slíkra fjár­muna og stend­ur Ísland skil á öll­um tengd­um út­gjöld­um gagn­vart OECD DAC. Sí­fellt er unnið að um­bót­um í starfi en ég vil þó nefna sér­stak­lega tvö viðfangs­efni sem nú er unnið að inn­an ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Staðlað verklag í alþjóðlegri þró­un­ar­sam­vinnu bygg­ist meðal ann­ars á út­tekt­um sem hafa reynst gagn­leg­ar til að ná fram marg­vís­leg­um um­bót­um í starfi. Ég hef ákveðið að gerð verði út­tekt á þeim út­gjöld­um sem falla til vegna þjón­ustu inn­an­lands við um­sækj­end­ur um alþjóðlega vernd og kvóta­flótta­fólk en sá hluti telst til alþjóðlegr­ar þró­un­ar­sam­vinnu. Þessi út­gjöld námu hart­nær 1,5 millj­örðum króna á ár­inu 2020 og rúm­um sjö millj­örðum króna á tíma­bil­inu 2015 til 2019. Fjög­ur önn­ur ráðuneyti veita tengda þjón­ustu og hef ég því leitað eft­ir sam­vinnu við þau vegna út­tekt­ar­inn­ar.

Þá er einnig unnið að því að opna gagna­grunn um stuðning Íslands í alþjóðlegri þró­un­ar­sam­vinnu. Þar mun al­menn­ingi og hag­höf­um gef­ast kost­ur á að kynna sér hvernig stuðningi Íslands er háttað, að hvaða þró­un­ar­sam­vinnu­verk­efn­um er unnið og hvert og hvernig fram­lag ís­lenskra skatt­greiðenda skil­ar sér.

Viðhorfsk­ann­an­ir benda til þess að mik­ill stuðning­ur sé meðal Íslend­inga við alþjóðlega þró­un­ar­sam­vinnu. Þannig leiddi könn­un sem Maskína gerði fyr­ir ut­an­rík­is­ráðuneytið í fyrra í ljós að lang­flest­um þykir mik­il­vægt að ís­lensk stjórn­völd veiti þró­un­ar­ríkj­um og íbú­um þeirra aðstoð (77,8 pró­sent). Sér­stak­lega á það við um mannúðaraðstoð þar sem ríf­lega 90 pró­sent aðspurðra telja hana mjög eða frem­ur mik­il­væga. Um­fangið er hins veg­ar um­tals­vert og því mik­il ábyrgð fal­in í að fara með þau stjórn­ar­mál­efni er varða þró­un­ar­sam­vinnu. Þörf fá­tæk­ustu ríkja ver­ald­ar fyr­ir aðstoð helst í hend­ur við þær margþættu áskor­an­ir sem tengj­ast heims­far­aldri, aukn­ar efna­hagsþreng­ing­ar og lofts­lag­stengd­ar ham­far­ir svo fátt eitt sé nefnt.

Við lif­um á mikl­um um­brota­tím­um og við verðum að gera þá kröfu að sú aðstoð sem við Íslend­ing­ar bjóðum fram sé nýtt á sem allra skil­virk­ast­an máta. Þetta kall­ar jafn­framt á sí­fellda end­ur­skoðun á stuðningi og starfi Íslands inn­an allra mála­flokka, auk þess sem leggja þarf gagn­sæi og ábyrga meðferð fjár­muna til grund­vall­ar öllu starfi í alþjóðlegri þró­un­ar­sam­vinnu Íslands. Mik­il­væg skref verða stig­in í þá átt á kom­andi mánuðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2021.