Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður:
Fáar skáldsögur Nóbelskáldsins hafa fengið viðlíka viðtökur og Sjálfstætt fólk. Skáldsagan kom út í fjórum bindum, en þau voru sameinuð í einni bók, sem ber sama heiti og þessi grein.
Viðtökur þessarar skáldsögu, sem kann að flokkast undir félagslegt raunsæi, voru með ýmsum hætti. Bændur keyptu skáldsöguna til þess að fletta henni, en stungu bókinni í fjóshaug sinn. Á hinn veg voru þess dæmi að erlendir ferðamenn, veðurtepptir á Íslandi, gerðu sér erindi í leigubíl frá Keflavíkurflugvelli til Gljúfrasteins, til þess að tjá skáldinu að það væru óteljandi Guðbjartar starfandi í New York.
Þessi saga skáldsins um ferðamanninn fannst þeim er þetta ritar ótrúleg, allt þar til prófessor í hagfræði í Bandaríkjunum lyftist úr sæti sínu þegar hann skynjaði að nemandi hans væri frá Íslandi; hann hafði aldrei lesið aðra eins skáldsögu og „Independent People“. Prófessorinn dáðist að frásögninni um einyrkjann, það væru óteljandi einyrkjar um öll Bandaríkin, raunar fjölluðu allar kennslubækur í hagfræði og fjármálum um Bjart í Sumarhúsum.
Alþjóðlegir Íslendingar
Kannski hefur Bjartur í Sumarhúsum verið alþjóðlegastur Íslendinga sinnar tíðar. Og Bjartur svífur enn yfir og allt um kring hjá okkur í öllum þeim sem vilja sýna frumkvæði sér og sínum til bjargar.
Annar Íslendingur er ekki síður merkur maður, ekki síður alþjóðlegur. Það er Jón Hreggviðsson. Hann var svo sjálfstæður að hann gat sagt; „það sem maður tekur ekki hjá sjálfum sér tekur maður hvergi“. Honum var einnig sama hvort hann væri sekur eða saklaus, svo fremi að hann hefði bátinn sinn í friði.
Einyrkjar í Sjálfstæðisflokknum
Einyrkjar, allir trillukarlar landsins, hafa löngum átt skjól í Sjálfstæðisflokknum. Nú segja trillukarlarnir mínir við mig, að þeir eigi ekkert skjól, þeir séu aftur orðnir smalar hjá hreppstjóranum. Einyrkinn, sem átti skjól í Sumarhúsum, er aftur farinn að hokra í Veturhúsum. Til þess voru refirnir alls ekki skornir.
Þegar fiskveiðistjórnarkerfið ber á góma, eru svör þingmanna Sjálfstæðisflokksins „hagkvæmni“. Vissulega hefur hagkvæmni og árangur fiskveiða á Íslandi vaxið verulega frá 1984, þegar aflamarki var úthlutað eftir aflareynslu þeirra skipa, sem stunduðu á þeim tíma miðin, og aflamarki var úthlutað.
Dregið úr sókn
Ég er alls ekki viss um það, að þeir sem studdu það að dregið væri úr sókn í takmarkaða fiskistofna árið 1984, hafi gert sér grein fyrir því að þar með væri lokað fyrir þá, sem ekki stunduðu fiskveiðar árið 1984 og ókomnar kynslóðir, að geta stundað fiskveiðar, að eilífu, á grundvelli þessa „manntals“ árið 1984. Eina leiðin væri að kaupa sér aðgang af þeim eru voru á réttum stað í manntalinu árið 1984, erfingjum þeirra, eða af þeim sem þegar hafa keypt sér aðgang að auðlindinni.
Lög um stjórn fiskveiða
Hafa ber í huga að,
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“
Hagkvæmni í fiskveiðum hefur ekki skilað sér í auknu kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera að rétt sé að auka frelsi strandveiðimanna. Þeir eru sjálfs sín herrar og miklir menn á sínu fleyi!
Hví hefur dregið úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum? Hví hafa einyrkjarnir horfið? Kjörfylgið hefur sveiflast nokkuð í liðnum kosningum, með leitni niður á við, úr tæpum 40% í 25%, en nokkru lægra í skoðanakönnunum. Þetta er alls óásættanlegt fyrir sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl, sem hingað til hafa átt skjól hjá Sjálfstæðisflokknum. Trillukarlar og einyrkjar eru ósáttir við hlutskipti sitt.
Kaupmaðurinn á horninu
Einyrkjar, sem kölluðust „kaupmaðurinn á horninu“, eru horfnir. Í þeirra stað eru komnir risar á smásölumarkaði með afkomu sem jafnast helst til tískuvöruverslana í útlöndum, sem hafa einkasölu á sínum vörumerkjum, það sem kallað er einkasölusamkeppni. Er það ásættanlegt að leggja 5% skatt á alla neyslu, til að ná hagnaðarmarkmiðum, þegar samkeppni á að virka? Í virkri samkeppni nálgast hagnaður 0% af veltu, en þar sem veltuhraði vöru er mikill kann að myndast hagnaður af fjármagni, sem bundinn er í rekstrinum. Sjálfstætt fólk vill ekki vera féþúfa fyrir banka eða vildarviðskiptavini þeirra!
Fjármál hjá sjálfstæðu fólki
Sá er þetta ritar hefur helgað líf sitt fjárhagslegu sjálfstæði fólks. Með fjárhagslegu sjálfstæði er átt við réttinn til að eiga og réttinn til að taka lán. Þar í milli er miðlari fjármagns, banki eða lífeyrissjóður einstaklinga til sameiginlegrar fjárfestingar fyrir sjóðfélaga, til að eiga lífeyri á efri árum. Slíkur sparnaður er þóknanlegur. Ætla mætti að frjáls sparnaður einstaklinga væri stjórnvöldum ekki þóknanlegur, því ávöxtur slíks sparnaðar er skattlagður í drep, rétt eins og frestun neyslu sé hættuleg. Í tímaritinu „Fjármál og ávöxtun“ kemur fram að jafnvel verðtryggðir reikningar bera neikvæða ávöxtun, eftir skattlagningu. Slíkt er tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði fólks. Vissulega eru skattleysismörk, en það sem er umfram skattleysismörkin virðist hættulegt fyrir sjálfstætt fólk.
Skjól fyrir sjálfstætt fólk
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið skjól fyrir sjálfstætt fólk, einyrkja, frumkvöðla og trillukarla. Ef skil verða á milli þeirra og flokksins, þá er spurning hvort einhver þörf sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Varla er ætlunin að flokkurinn verði flokkur bænda og embættismanna?
Bjartur hefur ævinlega talað fyrir Sjálfstætt fólk. Í uppgjöri hans við sjálfstæðið sagði Bjartur; „ég segi fyrir mig, maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem er ekki sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk. Maður sem er ekki sjálfra sinna, hann er eins og hundlaus maður.“
Sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl verða að standa saman.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2021.