Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Þrátt fyrir rúmlega eins árs glímu við heimsfaraldur og allt sem honum fylgir er staða okkar betri en flestir þorðu að vona. Í nýrri fjármálaáætlun birtist ekki aðeins skýr stefna fyrir komandi ár, heldur einnig góð saga af því nýliðna.
Það er sama hvert sem litið er. Skuldasöfnun og samdráttur í innlendri eftirspurn voru langtum minni en spár gerðu ráð fyrir og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst í fyrra.
Í nýrri könnun Gallup mælist mikil ánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda og meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll. Mun fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks heldur en fækkun.
Sagan er skýr; réttar aðgerðir skiluðu árangri. Með því að bregðast við af krafti strax í upphafi og ráðast í einhverjar umfangsmestu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar tókst að afstýra verulegu tjóni.
Viðbrögðin voru ekki sjálfgefin og aðeins möguleg vegna þess að við stóðum á traustum grunni. Grunni sem byggist á fyrirhyggju síðustu ára, þar sem við nýttum betri tíð til að búa í haginn fyrir óvænt áföll. Það er ekki alltaf vinsæl stefna að sýna ráðdeild þegar vel gengur og oft heyrðust raddir um að verja þyrfti auknu fé í hin ýmsu verkefni á uppgangstímum. Fæstir efast hins vegar um gildi þeirrar stefnu nú þegar á reynir.
Þrátt fyrir þá góðu stöðu sem hér er lýst fer því fjarri að allt sé eins og best verður á kosið. Verulegur halli verður á rekstri ríkissjóðs næstu árin og atvinnuleysistölur eru miklu hærri en við getum sætt okkur við. Við þurfum að leggja allt kapp á að draga úr hallanum, endurheimta störfin og skapa ný.
Leiðin til vaxtar og fleiri starfa getur aldrei verið grundvölluð að því að stækka ríkisreksturinn eða flækja landinu í aðildarviðræður við ESB. Við endurheimtum ekki töpuð störf í einkageiranum með því að auka álögur. Þvert á móti. Það þarf að hvetja og greiða götu þeirra sem vilja láta til sín taka. Við höfum í hendi okkar allt sem þarf til að hefja nýtt blómlegt vaxarskeið og erum þegar á réttri leið.
Leiðin fram á við felst í því að veðja áfram á einstaklinginn.
Að trúa því að tækifærin verði til úti í samfélaginu, en ekki bara í Stjórnarráðinu. Að ýta undir framsækni og nýsköpun, frekar en að aftra henni með íþyngjandi sköttum og reglum. Að hlúa að einkaframtakinu, í stað þess að tortryggja það.
Að trúa á kraftinn í okkur öllum og samtakamáttinn sem ávallt skilar okkur sterkari út úr tímabundnum erfiðleikum. Um þetta snýst okkar stefna og ef við höldum fast við hana eru okkur allir vegir færir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2021.