Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Hagfræðingar eru líklega sú stétt sem hefur mesta unun af deilum og loðnum svörum. Í þrasgirni sinni eru þeir sammála um fátt annað en gildi fræðigreinarinnar. En um eitt eru flestir þeirra (a.m.k. þeir sem teljast sæmilega frjálslyndir) þó sammála:
Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin. Með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Almenn velmegun og hagsæld getur aukist eftir því sem „refsingin“ fyrir velgengni er mildari.
Ýmsir frjálslyndir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa á stundum haldið því fram að skattsvik séu nauðvörn einstaklingsins gegn skattaáþján hins opinbera. Auðvitað taka þeir of djúpt í árinni en í staðhæfingunni leynist örlítið sannleikskorn. Kannski væri betra að halda því fram að nauðvörnin sé fremur fólgin í því að halda að sér höndum eða taka til fótanna – að minnsta kosti fyrir hæfileikaríkt fólk sem vegna þekkingar eða menntunar er óháð landamærum.
Samkeppni milli landa hefur aukist á flestum sviðum ekki síst um fjármagn (fjárfestingar) og hæfileikaríka starfsmenn. Hreyfanleiki fjármagns og vinnuafls hefur gert það að verkum að ekkert land er eyland þegar kemur að regluverki, starfskjörum eða skattheimtu.
Þegar tekin er ákvörðun um skattheimtu verður því alltaf að huga að samkeppnisstöðu landsins, jafnt þegar kemur að fyrirtækjum og launafólki. Við þurfum einnig að velta því fyrir okkur hvort skattkerfið takmarki fremur en hámarki skatttekjur ríkis og sveitarfélaga og dragi þar með úr möguleikum samfélagsins til að standa undir því velferðarkerfi sem við viljum að sé öflugt. En fleira skiptir máli líkt og John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, benti á í ræðu 1962. Hann varaði við þeirri hættu sem fylgir skattheimtuvaldi stjórnmálamanna. Gangi þeir of langt leggist lamandi hönd yfir efnahagslífið; jafnvægi náist ekki í ríkisfjármálum, hagvöxtur verði ekki nægilegur og ný störf verði ekki til. Við þurfum ekki að fara langt aftur í hagsögu okkar Íslendinga til að fá staðfestingu á varnaðarorðum Kennedys.
Sem sagt: Við eigum að sníða skattheimtuna með þeim hætti að hún hafi ekki letjandi áhrif á einstaklinga og fyrirtæki til efnahagslegra athafna – hvetji fremur. Hið sama á við um regluverkið allt.
Ranglátt skattkerfi
Ég hef lengi verið sannfærður um að tekjuskattskerfi einstaklinga sé ranglátt og vinni gegn þeim markmiðum sem stjórnmálamenn segjast vilja ná; að vera tekjujöfnunartæki á sama tíma og tekjur ríkisins séu tryggðar, jafnvel hámarkaðar.
Þrepaskipt tekjuskattskerfi með tekjutengingum og háum jaðarsköttum er með innbyggðan galla sem vinnur gegn launafólki ekki síst því sem er með lægstu tekjurnar. Halda má því fram að eftir því sem staða fólks á vinnumarkaði er lakari því óréttlátara er tekjuskattskerfið. Gallarnir verða augljósir þegar gerðar eru breytingar á skattleysismörkum – persónuafslætti. Eftir því sem laun eru lægri því meira vægi hefur persónuafslátturinn. Hækkun skattleysismarka (persónuafsláttar) ganga upp allan tekjustigann. Þegar launafólki tekst að afla hærri launa og bæta sinn hag er líkt og það sé barið niður með sleggju; það lendir í hærra skattþrepi og tekjutengdum skerðingum. Háir jaðarskattar eru meira íþyngjandi fyrir þá sem hafa lægstu launin og hafa að baki litla formlega menntun. Hið sama á raunar við um þá sem eru í starfi þar sem lítil eða engin samkeppni ríkir, s.s. stóran hluta opinberra starfsmanna.
Ýtir undir launamun
Sterk rök eru fyrir þeirri fullyrðingu að jaðarskattar auki launamuninn í þjóðfélaginu fremur en að jafna kjörin. Fyrir launamanninn skiptir mestu hversu mikið er eftir í launaumslaginu eftir að skattar hafa verið greiddir – ráðstöfunartekjur og kaupmáttur þeirra.
Starfsmaður sem er eftirsóttur, er hreyfanlegur, með góða menntun, nýtur þess í formi hærri launa og betri starfskjara en aðrir. Slíkur starfsmaður er líklegur til að fá bættan „skaðann“ sem hann verður fyrir vegna tekjutenginga, hárra jaðarskatta og/eða hækkunar tekjuskatts. Atvinnurekandinn verður að koma til móts við skertar ráðstöfunartekjur. Að öðrum kosti leitar starfsmaðurinn annað. Ég hef oft áður bent á að slíkur starfsmaður á a.m.k. tvo möguleika; fá „skaðann“ bættan í formi hærri launa hjá öðrum vinnuveitanda (oft í öðru landi) eða þiggja lægra launað starf, þar sem álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnutíminn styttri.
Á síðustu árum hefur tekist að lækka tekjuskatt einstaklinga töluvert. Skattbyrði hefur lækkað, ekki síst þeirra sem hafa lægstu launin. Þversögn skattkerfisbreytinganna, sem sá er hér skrifar tók þátt í að gera, er sú að innbyggðir gallar hafa ekki verið sniðnir af heldur þvert á móti, en með nýju lægra skattþrepi tókst að tryggja léttari skattbyrði.
Ranglæti skattkerfisins hefur því ekki verið leiðrétt og verður illa gert með þrepaskiptingu og tekjutengingum. Ef allir gallar og refsingar tekjuskattskerfisins eru hafðir í huga er illa hægt að komast að annarri niðurstöðu en að stokka verði allt kerfið upp. Markmiðið er einfalt kerfi, þar sem dregið er úr jaðarsköttum, byggt er undir hvata og umfram allt hætt að refsa fólki þegar því tekst að bæta eigin hag.
Flatur og einfaldur skattur
Ég hef sem sagt aldrei verið hrifinn af þrepaskiptu skattkerfi en barist fyrir flötum tekjuskatti. Í janúar 2018 setti ég fram tillögu, hér á síðum Morgunblaðsins, um flatan tekjuskatt – eina skattprósentu óháð tekjum – en um leið taka upp nýjan persónuafslátt sem lækki eftir því sem tekjur hækka. Í slíku kerfi er réttlætanlegt að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út – þ.e. tekjuskattur þeirra sem lakast standa verður neikvæður.
Meðfylgjandi skýringarmynd sýnir með einföldum hætti hvernig skattbyrðin verður misþung eftir tekjum. Launamaður með laun undir skattleysismörkum greiðir ekkert og fær hugsanlega greiddan út ónýttan persónuafslátt séu tekjur undir ákveðnu viðmiði. Raunskattprósentan (skattbyrðin í hlutfalli af launum) verður því hærri sem tekjur eru hærri enda lækkar persónuafslátturinn með hækkandi tekjum. Þegar þeim launum er náð, þar sem persónuafslátturinn er núll, verður skattprósentan flöt – sú sama.
Ég hef ekki talið skynsamlegt að leggja til ákveðna tölu um flata skattprósentu eða skattleysismörk (persónuafslátt). Það er hins vegar augljóst að kerfisbreytingin krefst þess að skattleysismörkin verði hækkuð verulega. Skattprósentan verður töluvert lægri en hæsta þrep gildandi tekjuskatts. Stígandinn í skattbyrðinni er pólitísk ákvörðun (og einnig efnahagsleg) á hverjum tíma.
Hér skal það fullyrt að uppstokkun af þessu tagi styrkir stöðu langflestra launamanna, fyrst og síðast þeirra sem eru með lægstu launin og meðaltekjur. Innbyggðar refsingar og letjandi hvatar eru sniðnir að mestu af. Að minnsta kosti verður sleggjan sem ber launafólk í hausinn þegar því tekst að bæta kjörin, fjarlægð og eyðilögð.
Í aðdraganda kosninga er það a.m.k. einnar messu virði fyrir launafólk að krefja þá, sem leita eftir stuðningi til að setjast á Alþingi, svara við því hvort þeir eru tilbúnir til að taka þátt í að eyðileggja sleggjuna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2021.