Stiglækkandi persónuafsláttur og réttlátara skattkerfi
'}}

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hag­fræðing­ar eru lík­lega sú stétt sem hef­ur mesta unun af deil­um og loðnum svör­um. Í þrasgirni sinni eru þeir sam­mála um fátt annað en gildi fræðigrein­ar­inn­ar. En um eitt eru flest­ir þeirra (a.m.k. þeir sem telj­ast sæmi­lega frjáls­lynd­ir) þó sam­mála:

Því meira sem eitt­hvað er skatt­lagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem vel­gengni er skatt­lögð því minni verður vel­gengn­in. Með því að skatt­leggja minna er hægt að fá meira. Al­menn vel­meg­un og hag­sæld get­ur auk­ist eft­ir því sem „refs­ing­in“ fyr­ir vel­gengni er mild­ari.

Ýmsir frjáls­lynd­ir hag­fræðing­ar og stjórn­mála­menn hafa á stund­um haldið því fram að skattsvik séu nauðvörn ein­stak­lings­ins gegn skattaáþján hins op­in­bera. Auðvitað taka þeir of djúpt í ár­inni en í staðhæf­ing­unni leyn­ist ör­lítið sann­leikskorn. Kannski væri betra að halda því fram að nauðvörn­in sé frem­ur fólg­in í því að halda að sér hönd­um eða taka til fót­anna – að minnsta kosti fyr­ir hæfi­leika­ríkt fólk sem vegna þekk­ing­ar eða mennt­un­ar er óháð landa­mær­um.

Sam­keppni milli landa hef­ur auk­ist á flest­um sviðum ekki síst um fjár­magn (fjár­fest­ing­ar) og hæfi­leika­ríka starfs­menn. Hreyf­an­leiki fjár­magns og vinnu­afls hef­ur gert það að verk­um að ekk­ert land er ey­land þegar kem­ur að reglu­verki, starfs­kjör­um eða skatt­heimtu.

Þegar tek­in er ákvörðun um skatt­heimtu verður því alltaf að huga að sam­keppn­is­stöðu lands­ins, jafnt þegar kem­ur að fyr­ir­tækj­um og launa­fólki. Við þurf­um einnig að velta því fyr­ir okk­ur hvort skatt­kerfið tak­marki frem­ur en há­marki skatt­tekj­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga og dragi þar með úr mögu­leik­um sam­fé­lags­ins til að standa und­ir því vel­ferðar­kerfi sem við vilj­um að sé öfl­ugt. En fleira skipt­ir máli líkt og John F. Kenn­e­dy, for­seti Banda­ríkj­anna, benti á í ræðu 1962. Hann varaði við þeirri hættu sem fylg­ir skatt­heimtu­valdi stjórn­mála­manna. Gangi þeir of langt legg­ist lam­andi hönd yfir efna­hags­lífið; jafn­vægi ná­ist ekki í rík­is­fjár­mál­um, hag­vöxt­ur verði ekki nægi­leg­ur og ný störf verði ekki til. Við þurf­um ekki að fara langt aft­ur í hag­sögu okk­ar Íslend­inga til að fá staðfest­ingu á varnaðarorðum Kenn­e­dys.

Sem sagt: Við eig­um að sníða skatt­heimt­una með þeim hætti að hún hafi ekki letj­andi áhrif á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki til efna­hags­legra at­hafna – hvetji frem­ur. Hið sama á við um reglu­verkið allt.

Rang­látt skatt­kerfi

Ég hef lengi verið sann­færður um að tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga sé rang­látt og vinni gegn þeim mark­miðum sem stjórn­mála­menn segj­ast vilja ná; að vera tekju­jöfn­un­ar­tæki á sama tíma og tekj­ur rík­is­ins séu tryggðar, jafn­vel há­markaðar.

Þrepa­skipt tekju­skatt­s­kerfi með tekju­teng­ing­um og háum jaðarskött­um er með inn­byggðan galla sem vinn­ur gegn launa­fólki ekki síst því sem er með lægstu tekj­urn­ar. Halda má því fram að eft­ir því sem staða fólks á vinnu­markaði er lak­ari því órétt­lát­ara er tekju­skatt­s­kerfið. Gall­arn­ir verða aug­ljós­ir þegar gerðar eru breyt­ing­ar á skatt­leys­is­mörk­um – per­sónu­afslætti. Eft­ir því sem laun eru lægri því meira vægi hef­ur per­sónu­afslátt­ur­inn. Hækk­un skatt­leys­is­marka (per­sónu­afslátt­ar) ganga upp all­an tekju­stig­ann. Þegar launa­fólki tekst að afla hærri launa og bæta sinn hag er líkt og það sé barið niður með sleggju; það lend­ir í hærra skattþrepi og tekju­tengd­um skerðing­um. Háir jaðarskatt­ar eru meira íþyngj­andi fyr­ir þá sem hafa lægstu laun­in og hafa að baki litla form­lega mennt­un. Hið sama á raun­ar við um þá sem eru í starfi þar sem lít­il eða eng­in sam­keppni rík­ir, s.s. stór­an hluta op­in­berra starfs­manna.

Ýtir und­ir launamun

Sterk rök eru fyr­ir þeirri full­yrðingu að jaðarskatt­ar auki launamun­inn í þjóðfé­lag­inu frem­ur en að jafna kjör­in. Fyr­ir launa­mann­inn skipt­ir mestu hversu mikið er eft­ir í launaum­slag­inu eft­ir að skatt­ar hafa verið greidd­ir – ráðstöf­un­ar­tekj­ur og kaup­mátt­ur þeirra.

Starfsmaður sem er eft­ir­sótt­ur, er hreyf­an­leg­ur, með góða mennt­un, nýt­ur þess í formi hærri launa og betri starfs­kjara en aðrir. Slík­ur starfsmaður er lík­leg­ur til að fá bætt­an „skaðann“ sem hann verður fyr­ir vegna tekju­teng­inga, hárra jaðarskatta og/​eða hækk­un­ar tekju­skatts. At­vinnu­rek­and­inn verður að koma til móts við skert­ar ráðstöf­un­ar­tekj­ur. Að öðrum kosti leit­ar starfsmaður­inn annað. Ég hef oft áður bent á að slík­ur starfsmaður á a.m.k. tvo mögu­leika; fá „skaðann“ bætt­an í formi hærri launa hjá öðrum vinnu­veit­anda (oft í öðru landi) eða þiggja lægra launað starf, þar sem álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnu­tím­inn styttri.

Á síðustu árum hef­ur tek­ist að lækka tekju­skatt ein­stak­linga tölu­vert. Skatt­byrði hef­ur lækkað, ekki síst þeirra sem hafa lægstu laun­in. Þver­sögn skatt­kerf­is­breyt­ing­anna, sem sá er hér skrif­ar tók þátt í að gera, er sú að inn­byggðir gall­ar hafa ekki verið sniðnir af held­ur þvert á móti, en með nýju lægra skattþrepi tókst að tryggja létt­ari skatt­byrði.

Rang­læti skatt­kerf­is­ins hef­ur því ekki verið leiðrétt og verður illa gert með þrepa­skipt­ingu og tekju­teng­ing­um. Ef all­ir gall­ar og refs­ing­ar tekju­skatt­s­kerf­is­ins eru hafðir í huga er illa hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að stokka verði allt kerfið upp. Mark­miðið er ein­falt kerfi, þar sem dregið er úr jaðarskött­um, byggt er und­ir hvata og um­fram allt hætt að refsa fólki þegar því tekst að bæta eig­in hag.

Flatur og ein­fald­ur skatt­ur

Ég hef sem sagt aldrei verið hrif­inn af þrepa­skiptu skatt­kerfi en bar­ist fyr­ir flöt­um tekju­skatti. Í janú­ar 2018 setti ég fram til­lögu, hér á síðum Morg­un­blaðsins, um flat­an tekju­skatt – eina skatt­pró­sentu óháð tekj­um – en um leið taka upp nýj­an per­sónu­afslátt sem lækki eft­ir því sem tekj­ur hækka. Í slíku kerfi er rétt­læt­an­legt að ónýtt­ur per­sónu­afslátt­ur sé greidd­ur út – þ.e. tekju­skatt­ur þeirra sem lak­ast standa verður nei­kvæður.

Meðfylgj­andi skýr­ing­ar­mynd sýn­ir með ein­föld­um hætti hvernig skatt­byrðin verður misþung eft­ir tekj­um. Launamaður með laun und­ir skatt­leys­is­mörk­um greiðir ekk­ert og fær hugs­an­lega greidd­an út ónýtt­an per­sónu­afslátt séu tekj­ur und­ir ákveðnu viðmiði. Raunskatt­pró­sent­an (skatt­byrðin í hlut­falli af laun­um) verður því hærri sem tekj­ur eru hærri enda lækk­ar per­sónu­afslátt­ur­inn með hækk­andi tekj­um. Þegar þeim laun­um er náð, þar sem per­sónu­afslátt­ur­inn er núll, verður skatt­pró­sent­an flöt – sú sama.

Ég hef ekki talið skyn­sam­legt að leggja til ákveðna tölu um flata skatt­pró­sentu eða skatt­leys­is­mörk (per­sónu­afslátt). Það er hins veg­ar aug­ljóst að kerf­is­breyt­ing­in krefst þess að skatt­leys­is­mörk­in verði hækkuð veru­lega. Skatt­pró­sent­an verður tölu­vert lægri en hæsta þrep gild­andi tekju­skatts. Stíg­and­inn í skatt­byrðinni er póli­tísk ákvörðun (og einnig efna­hags­leg) á hverj­um tíma.

Hér skal það full­yrt að upp­stokk­un af þessu tagi styrk­ir stöðu lang­flestra launa­manna, fyrst og síðast þeirra sem eru með lægstu laun­in og meðal­tekj­ur. Inn­byggðar refs­ing­ar og letj­andi hvat­ar eru sniðnir að mestu af. Að minnsta kosti verður sleggj­an sem ber launa­fólk í haus­inn þegar því tekst að bæta kjör­in, fjar­lægð og eyðilögð.

Í aðdrag­anda kosn­inga er það a.m.k. einn­ar messu virði fyr­ir launa­fólk að krefja þá, sem leita eft­ir stuðningi til að setj­ast á Alþingi, svara við því hvort þeir eru til­bún­ir til að taka þátt í að eyðileggja sleggj­una.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2021.