Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:
Stundum er sagt að svo megi illu venjast að gott þyki. Það er nokkuð lýsandi fyrir undanfarið ár. Allan þann tíma sem faraldurinn hefur geisað höfum við þurft að vega og meta stöðu ólíkra hópa í samfélaginu. Allar ákvarðanir í slíku ástandi eru þess eðlis að hagsmunir og heill einhverra hafa beðið hnekki. Hjá því varð ekki komist.
Við megum þó ekki festast í gildru þess ástands sem skapast hefur vegna viðbragða okkar við heimsfaraldrinum. Þess vegna er mikilvægt að létta af þeim takmörkunum sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til eins fljótt og hægt er. Það eru einmitt þau skref sem við stígum nú. Viðurkenning bóluefnavottorða frá löndum utan Schengen-svæðisins og tilslakanir á banni við ónauðsynlegum ferðum eru mikilvægt skref í rétta átt og til þess fallið að hefja efnahagslega viðspyrnu.
Öll höfum við þurft að færa fórnir vegna aðgerða sem grípa varð til í því skyni að verja þá veikustu í samfélagi okkar. Fórnirnar eru þó mismiklar eftir aðstæðum hvers og eins. Þeir sem eiga lífsafkomu sína undir ferðamennsku hafa fært einna mestar fórnir. Við vitum að endurreisn efnahagslífsins hvílir á því hversu langan tíma það tekur ferðaþjónustuna að ná viðspyrnu.
Bólusetningar breyta myndinni talsvert til hins betra. Á þessari stundu er búið að bólusetja þá hópa sem eru í mestri hættu gagnvart alvarlegum afleiðingum veirunnar. Í vor verðum við vonandi komin á þann stað að smit á óhægara með að breiðast út og þá í hópum sem eru ólíklegri til að veikjast alvarlega.
Hér vegast á efnahagslegir og heilsufarslegir hagsmunir af völdum veirunnar. En hafa ber einnig í huga að efnahagsþátturinn getur skapað bæði andleg og líkamleg heilsufarsvandamál. Við verðum því að velta því fyrir okkur hvert og eitt, sem ekki verðum bólusett þegar landið opnast, hver ábyrgð okkar sjálfra er við að draga úr áhættu með eigin hegðun.
Inngrip stjórnvalda í frelsi og réttindi borgara með þeim hætti sem við höfum upplifað er neyðarúrræði. Slík afskipti af lífi fólks krefjast skýrra raka um að almannaheill verði ekki tryggð með öðrum hætti. Heimurinn í sínu venjulega formi býður upp á ýmsar ógnir og þar verðum við sem einstaklingar að bera ábyrgð á eigin hegðun og getum ekki krafið stjórnvöld um að girða fyrir allar mögulegar hættur. Eftir því sem hættan minnkar með bólusetningum þeirra sem eldri eru getum við stigið varfærin en ákveðin skref í þá átt að færa lífið aftur til fyrra horfs.
Umfram allt megum við ekki festast í hugsunarhætti faraldursins heldur verðum við að horfa með opnum huga til bjartari og betri framtíðar. Þær breytingar á landamærum sem ég lagði til í ríkisstjórn í gær hvíla á því að við stígum varfærin en örugg skref inn í það þjóðfélag frelsis og framfara sem við viljum búa okkur til frambúðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2021.