Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði:
Mikil og góð umræða hefur verið um íslenskt skólakerfi að undanförnu og þá sér í lagi hvað varðar stöðu íslenskra drengja. Umræðan hefur þó verið frekar á neikvæðum nótum, þar sem bent er á vandamálið en lítið sem ekkert rætt um aðgerðaáætlun eða viðbrögð við vandanum. Grein eftir grein, skýrsla eftir skýrslu og niðurstaðan er sú sama ár eftir ár og umræðan um slæma útkomu í PISA-könnuninni kemur á hverju ári eins og lúsin að hausti. Tíminn vinnur ekki með okkur og á hverju ári útskrifast börn sem ekki hafa náð viðunandi viðmiðum. Lesa má fréttir af slökum árangri drengja í PISA-könnuninni nokkur ár aftur í tímann og þrátt fyrir vilja menntamálaráðherra og stjórnvalda til að gera breytingar hefur lítil gerst. Hvað það er sem veldur aðgerðarleysinu veit ég ekki en til að ná fram breytingum þarf að breyta aðalnámskrá grunnskóla sem reyndar hefur verið óbreytt í um 10 ár.
Fjölgun tíma í íslensku á kostnað valfaga
Menntamálaráðherra lagði fram frumvarp á haustmánuðum 2020 þar sem lagt er til að fjölgað verði kennslustundum í íslensku á öllum skólastigum. Þessi breyting er reyndar hugsuð þannig að tími fyrir valfög verður minni og því möguleikar grunnskólanema til að velja sér nám eftir áhugasviði þeirra litlir. Það liggur hvorki fyrir greining né vissa fyrir því að fleiri tímar í íslensku á viku og færri tímar í valfögum séu að gera það að verkum að áhugi nemenda og þá sér í lagi drengja á íslensku aukist og vandamálið sé þar með úr sögunni. Ef vandamálið er tímaleysi innan viðmiðunarstundaskrár grunnskóla þá eru aðrar leiðir færar en sú að taka af valfögin og gera skóladaginn enn erfiðari fyrir þá sem ekki passa beint í það form sem skólinn vill að nemandinn sé í. Til eru aðrar leiðir eins og að lengja örlítið skóladag yngsta stigsins og stytta þá viðveru þeirra í frístund. Á miðstigi og unglingastigi væri til að mynda hægt að gera dönskukennslu að valfagi og fjölga tímum í íslensku á móti. Danskan er hluti af menningararfleifð okkar og því ef til vill viðkvæmt að hugsa til þess að tími sé kominn til að afnema hana sem skyldufag en það er efni í aðra grein.
Magn er ekki sama og gæði
Magn kennslustunda er ekki endilega ávísun á gæði og eins og ég kom inn á hér að ofan þá er ekkert sem bendir til þess að fleiri tímar í íslensku muni gefa okkur betri niðurstöðu. Kennsluefni hefur lítið breyst undanfarin ár og því knýjandi þörf á að skoða hvort námsefnið í íslensku sé að höfða til barna og þá jafnt til drengja og stúlkna, skoða þarf hvort það standist nútímann og hvort það fjallar um mál og málefni sem börnin okkar þekkja. Til að greina betur vandann og geta brugðist við er mikilvægt að mæla árangur, ekki aðeins í grunnskólum heldur einnig í leikskólum þar sem mikilvægt er að mæla orðaforða ungra barna og greina þar mögulegan vanda. Í dag erum við í mestum vandræðum með að leggja próf fyrir eins og samræmd próf sem ár eftir ár eru að mistakast í grunnskólum landsins og virðast ekki mæla annað en kvíða og álag. Við getum ekki lengur látið börnin gjalda fyrir þær aðferðir sem menntamálastofnun vinnur með til að mæla getu barna okkar og þarf því að endurskoða þær alveg frá grunni. Í dag er ofuráhersla lögð á að mæla leshraða en sú mæling skoðar ekki hvað nemandinn skilur af því sem hann las og er því aðferð sem vert er að láta af að mínu mati.
Á grunnskólinn að varðveita fortíðina eða horfa til framtíðar?
Í aðalnámskrá grunnskóla er hvorki að finna námsgreinar eins og fjármálalæsi, nýsköpun, heilbrigðisfræðslu né kennslu í forvörnum, forritun, samskiptum eða sjálfstrausti. Sannarlega eru einstaka kennarar sem taka það upp á sitt einsdæmi að koma þessu inn í kennslu barnanna en öll börn verða að sitja við sama borð. Hetjusögum kappa okkar í Íslendingasögunum eru gerð góð skil á meðan sum grunnskólabörn hafa ekki hugmynd um hvernig þau eiga að fóta sig í hetjulegum heimi atvinnulífsins eftir lok grunnskólagöngunnar. Ég er ekki svo viss um að danskan sem annars er ágæt út af fyrir sig eða Gunnar á Hlíðarenda, sem kennt hefur okkur Íslendingum þrautseigju, sé að hjálpa ungmennum okkar að takast á við áskoranir í nútíma samfélagi.
Metnaðarfull vinna við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 er í vinnslu en hún boðar því miður engar breytingar á aðalnámskrá né viðmiðunarstundarskrá. Börnin sitja enn sem fyrr föst í aðalnámskrá sem hjakkar í fortíðinni með takmarkaða sýn á framtíðina.
Vandamálið liggur ekki hjá kennurum landsins sem hafa við krefjandi aðstæður unnið gott starf, vandamálið er heldur ekki það að íslenskir drengir geti ekki lært. Vandamálið liggur í því að við höfum ekki brugðist við nútímanum og þeim tækniframförum sem hafa orðið og á meðan sjá börnin heiminn þjóta framhjá og við höldum áfram að skrifa greinar og klóra okkur í hausnum yfir lélegri útkomu í könnunum. Menntakerfið verður að vera sveigjanlegt og það verður að aðlagast betur hröðu samfélagi!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2021.