Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður:
Nú í aðdraganda alþingiskosninga er kunnuglegt stef farið að hljóma úr ranni vinstriflokkanna gegn íslenskum sjávarútvegi. Aðförin að greininni, og þar með lífsviðurværi mörg þúsund Íslendinga landið um kring, byggir á því að þjóðin fái ekki nægjanlega mikið í sinn hlut af arði fiskveiðiauðlindarinnar. Á þeim nótum var grein Guðjóns S Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem hann birti í héraðsmiðlum Norðvesturkjördæmis í síðustu viku.
Guðjón féll í þá gryfju að bera saman hvað Grænlendingar fá í sinn hlut samkvæmt samningi við ESB um veiðar ríkja ESB innan grænlensku fiskveiðilögsögunnar á um 32 þúsund tonnum annars vegar og hvað íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiða beint í skatta og veiðigjöld hins vegar. Samkvæmt fréttum af samningi Grænlands og ESB fá Grænlendingar 119 kr/kg í sinn hlut frá ESB en hermt er að íslenska ríkið fái 27 kr/kg frá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum í formi skatta og gjalda, umreiknað í þorskígildi eftir kúnstarinnar reglum og stuðlum. Út frá þessum tölum lætur Guðjón í það skína að óhætt sé þá að fjórfalda álögur á íslenskan sjávarútveg.
Þessi röksemdafærsla er ótæk og lýsir annað hvort vanþekkingu á grunnatvinnugrein þjóðarinnar eða einkar skaðlegri atvinnu- og efnahagsstefnu Samfylkingarinnar nema hvort tveggja sé.
Ísland og Grænland
Guðjón skautar létt framhjá þeirri staðreynd að þróunaraðstoð til handa Grænlendingum er innifalin í fiskveiðisamningi ESB og Grænlands, magnið sem samið er um er lítið borið saman við heildarveiði íslensks sjávarútvegs og samningstíminn er stuttur. Þá þegar af þessum ástæðum er allur samanburður á arðsemi fiskveiðiauðlindar Íslands og Grænlands marklaus.
Þá kýs Guðjón að horfa alfarið framhjá aðalatriðinu í fiskveiðisamningi Grænlands og ESB. Sem er að með samningnum hafa Grænlendingar selt frá sér veiðiréttinn í eigin lögsögu til erlendra ríkja. Það þýðir að það eru ekki grænlensk fyrirtæki sem veiða fiskinn, grænlenskir sjómenn afla sér engra tekna með veiðunum og aflanum er ekki landað í Grænlandi. Þar af leiðandi verða engin störf til í Grænlandi í frumvinnslu eða frekari vinnslu á aflanum, enginn þjónustuiðnaður fyrir veiðar og vinnslu fær tekjur og enginn ávinningur af markaðs- og sölustarfi kemur í hlut Grænlendinga.
Með öðrum orðum þá verða engin margfeldisáhrif í Grænlandi af veiðum, vinnslu og markaðssetningu aflans og engin þekking og reynsla byggist samfara upp í Grænlandi til að auka virði fiskveiðiauðlindarinnar enn frekar. Sem betur fer er málum þveröfugt farið í íslenskum sjávarútvegi. Það er spurning hvað Guðjón vill ganga langt við að bera saman sjávarútveg Grænlands og Íslands.
Taka þarf fórnarkostnaðinn með í jöfnuna
Ef Guðjóni er alvara með röksemdafærslu sinni um að íslenska ríkið geti stóraukið beinar tekjur sínar af íslenskum sjávarútvegi, jafnvel með sölu á veiðirétti til erlendra ríkja, þá verður hann að reikna dæmið til enda og gera grein fyrir fórnarkostnaðinum á móti. Sá kostnaður er ekki lítill.
Hækkun á veiðigjöldum, og á öðrum sköttum sem íslenskur sjávarútvegur greiðir, bitnar fyrst á litlum og meðalstórum útgerðum, sem eru til að mynda uppistaðan í sjávarútvegi í Norðvesturkjördæmi, og samþjöppun verður með tilheyrandi skaða fyrir minni byggðarlög hringinn í kringum landið. Geta sjávarútvegsins til að greiða hærri laun minnkar og störfum fækkar. Fjárfestingar í tækjabúnaði, nýsköpun og markaðsstarfi verða líka minni og íslenskur sjávarútvegur dregst aftur úr í samkeppni við önnur lönd. Á endanum verður samfélagið allt af margvíslegum tekjum og ávinningi og hlutur ríkisins verður minni þegar uppi er staðið og allt er tekið með í reikninginn.
Hér skal því haldið til haga að greiðsla arðs frá sjávarútvegsfyrirtækjum til hluthafa er lægri en almennt gerist í öðrum geirum atvinnulífsins og þær arðgreiðslur eru skattskyldar. Sjávarútvegur greiðir sérstakt auðlindagjald sem aðrar greinar sem nýta auðlindir landsins gera ekki. Íslenskur sjávarútvegur greiðir tekjuskatt sem þekkist varla í öðrum samkeppnislöndum og margfeldisáhrif af samþættingu veiða, vinnslu og markaðsstarfi eru gríðarleg á Íslandi enda sjávarútvegur ein mikilvægasta grunnstoð íslensks efnahagslífs. En skattlagningarárátta vinstrimanna verður víst seint seðjuð.
Hversu langt ætlar Samfylkingin að ganga gegn byggðum landsins?
Af grein Guðjóns að dæma er ekki hægt að útiloka að það sé ætlun Samfylkingarinnar að fara grænlensku leiðina og selja ESB veiðirétt í íslenskri fiskveiðilögsögu og láti sig engu varða um þau geigvænleg áhrif sem það hefði í för með sér fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Það er víst ennþá á stefnuskrá Samfylkingarinnar að Ísland gangi inn í ESB og innleiði þar með sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins.
Nærtækara er þó að ætla að þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hafi einfaldlega kosið að slá ryki í augu lesenda greinar sinnar, flækja umræðuna, sá efasemdarfræjum og tína einungis það til frá Grænlandi sem hentar málflutningnum. Það breytir því ekki að það er stefna Samfylkingarinnar að stórhækka álögur á íslenskan sjávarútveg óháð þeim alvarlegu afleiðingunum sem það mun hafa á byggðir landsins og atvinnu fólks.
Eitt tek ég þó undir með Guðjóni - Það er gott að fara hugsa til haustsins.
Greinin birtist á Feykir.is 15. mars 2021.