„Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt af því að leiðtogar okkar, með Bjarna Benediktsson, þá utanríkisráðherra í fararbroddi, höfðu þá framtíðarsýn og þann kjark að standa fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ákvarðanataka bandalagsins er í hendi þrjátíu aðildarríkja þess á grundvelli sameiginlegra öryggishagsmuna. Þar á Ísland sitt sæti við borðið“, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Umræðan fór fram að beiðni Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns VG.
Í ræðu sinni fór Guðlaugur Þór yfir það að það væri frumskylda stjórnvalda að tryggja þjóðaröryggi og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu væri lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja. Þetta öflugasta varnarbandalag sögunnar hefði enda tryggt frið milli aðildarríkjanna í 72 ár og komið í veg fyrir utanaðkomandi hernaðarárás.
Atlantshafsbandalagið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar í þeim tilgangi að tryggja frið, styrkja samstarf meðal ríkja bandalagsins og verja frelsi þeirra. Bandalagið er varnarbandalag og er markmið með starfi þess að stuðla að friði og öryggi í Evrópu. Ísland var meðal stofnþjóða þess, en Bjarni Benediktsson þáverandi utanríkisráðherra undirritaði stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í Washington hinn 4. apríl árið 1949. Með því tók Ísland sér formlega stöðu með þeim vestrænu lýðræðisríkjum sem standa vörð um einstaklingsfrelsi, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.