Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:
Við höfum rækilega verið á það minnt síðustu ár og mánuði að við búum í lifandi landi. Landi sem er í sífelldri mótun og getur verið harðbýlt. Óveður hafa sett raforkukerfi úr skorðum, snjóflóð fallið fyrir vestan og aurskriður fyrir austan. Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur ekki aðeins sett daglegt líf á Íslandi úr skorðum heldur um víða veröld. Faraldurinn hefur torveldað samgöngur og vöruflutninga milli landa, svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana skelfur svo suðvesturhorn landsins vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og þegar þetta er skrifað miklar líkur á að þar verði eldgos.
Allir þessir atburðir vekja áleitnar spurningar um þjóðaröryggi og innviði þjóðarinnar, s.s. orkuöryggi, fæðuöryggi, netöryggi og hvernig við tryggjum almennt að fólk geti verið öruggt í heimabyggð. Það er brýnt að greina ítarlega grunninnviði samfélagsins og þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig má tryggja öryggi þjóðarinnar og sameiginlegan skilning á hvað felst í þjóðaröryggishugtakinu. Sá sameiginlegi skilningur er lykilforsenda þess að þjóðarsátt ríki um hvernig öryggi lands og þjóðar er best tryggt.
Innviðir og þjóðaröryggi
Í vikunni fór fram á Alþingi sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi þar sem ég var málshefjandi og forsætisráðherra til andsvara. Við þingmenn ræddum um nýútkomna skýrslu forsætisráðherra um efnið og í umræðunum komu fram mýmörg sjónarmið sem staðfesta hversu umfangsmikið verkefnið að tryggja þjóðaröryggi er.
Í skýrslu forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi, sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðum eftir fyrir réttu ári, er vísað í niðurstöður átakshóps um úrbætur á innviðum þar sem segir að einfalda þurfi ferlið vegna undirbúnings framkvæmda við flutningskerfi raforku þar sem einstaka þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir hafi tekið langan tíma í stjórnsýslumeðferð. Það mál ratar brátt inn í sali Alþingis. Að sjálfsögðu verður áfram viðurkennt að höfuðábyrgð á framkvæmd skipulagsmála liggi hjá sveitarfélögunum en um leið er áréttað að ríkisvald geti farið með almenna stefnumótun í skipulagsmálum og ábyrgð eftir atvikum. Fordæmi eru fyrir þessu í nágrannalöndum okkar, s.s. Danmörku og Noregi. Ekkert land tekur upp slík vinnubrögð að ástæðulausu. Öll lönd þurfa að tryggja öryggi sitt með margvíslegum hætti. Ísland er engin undantekning og við vitum að hér þarf að taka til hendinni.
Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2 016, er að mati okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem óskuðum eftir skýrslunni ekki nógu ítarleg varðandi þessa þætti. Það er mikilvægi samgönguinnviða, raforku- og fjarskiptakerfisins, netöryggis og fæðuöryggis með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins alls. Við teljum því nauðsynlegt að öryggi samfélagslegra innviða verði metið með tilliti til þjóðaröryggis landsins og grunnur lagður að heilsteyptri löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar.
Ég tel að gott samstarf allra sem koma að grunninnviðum sem varða þjóðaröryggi sé lykillinn að farsælli stefnu og þarna þurfum við að leggja minni hagsmuni til hliðar fyrir meiri. Við megum ekki festast í hugsunarhætti stjórnmála liðinnar tíðar og festa tennurnar í gömlu þrætuepli. Þjóðaröryggishagsm unir eru hagsmunir þjóðarinnar allrar. Hagsmunir einstakra aðila geta aldrei vegið þyngra. Í lokaorðum skýrslu forsætisráðherra segir til dæmis að grunninnviðir lands og þjóðar séu ýmist á forræði einkaaðila, ríkis eða sveitarfélaga. Þau sjónarmið hafa komið fram að ríkið fari með skipulagsvald vegna grunninnviða sem varða þjóðaröryggi og landið í heild.
Ný heimsmynd
Við lifum á nýrri öld í nýrri heimsmynd þar sem nútíminn krefst þess að við séum alltaf skrefinu á undan. Heimurinn fer síminnkandi vegna tækninýjunga og loftslagsbreytingar vofa yfir. Lýðræði og stjórnskipulagi Vesturlanda stafar hætta af netárásum og afskiptum annarra landa. Norðurslóðir geta sett Ísland í nýtt alþjóðlegt samhengi á þessari öld þar sem stórveldin eiga ríka hagsmuni og ekki hægt að ganga að því sem vísu að þróunin á norðurslóðum verði friðsamleg til langrar framtíðar. Hver verður staða Íslands ef í harðbakkann slær?
Ég er hér að draga upp dökkar myndir og sem betur fer rætast svörtustu sviðsmyndir sjaldnast. Ísland er auðvitað friðsælt land og ég trúi að allt gott v aki yfir því. Það breytir hins vegar ekki því að Alþingi og ríkisstjórn bera höfuðábyrgð á öryggi þjóðarinnar. Það er fortakslaus skylda stjórnvalda að tryggja sem best öryggi lands og þjóðar. Þá þurfum við að hugsa til þess sem undir öðrum kringumstæðum væri óhugsandi. Sú ábyrgð hvílir þungt á herðum okkar þingmanna og undan þeirri skyldu megum við aldrei skorast.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2021.