Þjóðaröryggishagsmunir vega þyngst
'}}

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:

Við höf­um ræki­lega verið á það minnt síðustu ár og mánuði að við búum í lif­andi landi. Landi sem er í sí­felldri mót­un og get­ur verið harðbýlt. Óveður hafa sett raf­orku­kerfi úr skorðum, snjóflóð fallið fyr­ir vest­an og aur­skriður fyr­ir aust­an. Heims­far­ald­ur­inn Covid-19 hef­ur ekki aðeins sett dag­legt líf á Íslandi úr skorðum held­ur um víða ver­öld. Far­ald­ur­inn hef­ur tor­veldað sam­göng­ur og vöru­flutn­inga milli landa, svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dag­ana skelf­ur svo suðvest­ur­horn lands­ins vegna jarðhrær­inga á Reykja­nesskaga og þegar þetta er skrifað mikl­ar lík­ur á að þar verði eld­gos.

All­ir þess­ir at­b­urðir vekja áleitn­ar spurn­ing­ar um þjóðarör­yggi og innviði þjóðar­inn­ar, s.s. orku­ör­yggi, fæðuör­yggi, netör­yggi og hvernig við tryggj­um al­mennt að fólk geti verið ör­uggt í heima­byggð. Það er brýnt að greina ít­ar­lega grunn­innviði sam­fé­lags­ins og þá sam­fé­lags­legu innviði sem telj­ast mik­il­væg­ir að teknu til­liti til þjóðarör­ygg­is­hags­muna. Þannig má tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar og sam­eig­in­leg­an skiln­ing á hvað felst í þjóðarör­ygg­is­hug­tak­inu. Sá sam­eig­in­legi skiln­ing­ur er lyk­il­for­senda þess að þjóðarsátt ríki um hvernig ör­yggi lands og þjóðar er best tryggt.

Innviðir og þjóðarör­yggi

Í vik­unni fór fram á Alþingi sér­stök umræða um innviði og þjóðarör­yggi þar sem ég var máls­hefj­andi og for­sæt­is­ráðherra til andsvara. Við þing­menn rædd­um um ný­út­komna skýrslu for­sæt­is­ráðherra um efnið og í umræðunum komu fram mý­mörg sjón­ar­mið sem staðfesta hversu um­fangs­mikið verk­efnið að tryggja þjóðarör­yggi er.

Í skýrslu for­sæt­is­ráðherra um innviði og þjóðarör­yggi, sem við þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins óskuðum eft­ir fyr­ir réttu ári, er vísað í niður­stöður átaks­hóps um úr­bæt­ur á innviðum þar sem seg­ir að ein­falda þurfi ferlið vegna und­ir­bún­ings fram­kvæmda við flutn­ings­kerfi raf­orku þar sem ein­staka þjóðhags­lega mik­il­væg­ar fram­kvæmd­ir hafi tekið lang­an tíma í stjórn­sýslumeðferð. Það mál rat­ar brátt inn í sali Alþing­is. Að sjálf­sögðu verður áfram viður­kennt að höfuðábyrgð á fram­kvæmd skipu­lags­mála liggi hjá sveit­ar­fé­lög­un­um en um leið er áréttað að rík­is­vald geti farið með al­menna stefnu­mót­un í skipu­lags­mál­um og ábyrgð eft­ir at­vik­um. For­dæmi eru fyr­ir þessu í ná­granna­lönd­um okk­ar, s.s. Dan­mörku og Nor­egi. Ekk­ert land tek­ur upp slík vinnu­brögð að ástæðulausu. Öll lönd þurfa að tryggja ör­yggi sitt með marg­vís­leg­um hætti. Ísland er eng­in und­an­tekn­ing og við vit­um að hér þarf að taka til hend­inni.

Þings­álykt­un um þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland, sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2 016, er að mati okk­ar þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins sem óskuðum eft­ir skýrsl­unni ekki nógu ít­ar­leg varðandi þessa þætti. Það er mik­il­vægi sam­göngu­innviða, raf­orku- og fjar­skipta­kerf­is­ins, netör­ygg­is og fæðuör­ygg­is með til­liti til ör­ygg­is borg­ar­anna og sam­fé­lags­ins alls. Við telj­um því nauðsyn­legt að ör­yggi sam­fé­lags­legra innviða verði metið með til­liti til þjóðarör­ygg­is lands­ins og grunn­ur lagður að heil­steyptri lög­gjöf varðandi ör­ygg­is­mál þjóðar­inn­ar.

Ég tel að gott sam­starf allra sem koma að grunn­innviðum sem varða þjóðarör­yggi sé lyk­ill­inn að far­sælli stefnu og þarna þurf­um við að leggja minni hags­muni til hliðar fyr­ir meiri. Við meg­um ekki fest­ast í hugs­un­ar­hætti stjórn­mála liðinn­ar tíðar og festa tenn­urn­ar í gömlu þrætu­epli. Þjóðarör­ygg­is­hagsm unir eru hags­mun­ir þjóðar­inn­ar allr­ar. Hags­mun­ir ein­stakra aðila geta aldrei vegið þyngra. Í loka­orðum skýrslu for­sæt­is­ráðherra seg­ir til dæm­is að grunn­innviðir lands og þjóðar séu ým­ist á for­ræði einkaaðila, rík­is eða sveit­ar­fé­laga. Þau sjón­ar­mið hafa komið fram að ríkið fari með skipu­lags­vald vegna grunn­innviða sem varða þjóðarör­yggi og landið í heild.

Ný heims­mynd

Við lif­um á nýrri öld í nýrri heims­mynd þar sem nú­tím­inn krefst þess að við séum alltaf skref­inu á und­an. Heim­ur­inn fer sím­innk­andi vegna tækninýj­unga og lofts­lags­breyt­ing­ar vofa yfir. Lýðræði og stjórn­skipu­lagi Vest­ur­landa staf­ar hætta af netárás­um og af­skipt­um annarra landa. Norður­slóðir geta sett Ísland í nýtt alþjóðlegt sam­hengi á þess­ari öld þar sem stór­veld­in eiga ríka hags­muni og ekki hægt að ganga að því sem vísu að þró­un­in á norður­slóðum verði friðsam­leg til langr­ar framtíðar. Hver verður staða Íslands ef í harðbakk­ann slær?

Ég er hér að draga upp dökk­ar mynd­ir og sem bet­ur fer ræt­ast svört­ustu sviðsmynd­ir sjaldn­ast. Ísland er auðvitað friðsælt land og ég trúi að allt gott v aki yfir því. Það breyt­ir hins veg­ar ekki því að Alþingi og rík­is­stjórn bera höfuðábyrgð á ör­yggi þjóðar­inn­ar. Það er for­takslaus skylda stjórn­valda að tryggja sem best ör­yggi lands og þjóðar. Þá þurf­um við að hugsa til þess sem und­ir öðrum kring­um­stæðum væri óhugs­andi. Sú ábyrgð hvíl­ir þungt á herðum okk­ar þing­manna og und­an þeirri skyldu meg­um við aldrei skor­ast.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2021.