Haraldur Benediktsson, alþingismaður:
Það var efnahagslegu sjálfstæði Íslands mikilvægt þegar hafist var handa við byggingu gömlu hafnarinnar í Reykjavík á árunum 1913-1917. Þróun borgarinnar, stærri skip og auknir flutningar leiddu síðar til þess að megingátt flutninga færðist í Sundahöfn þar sem hafnarsvæðið hefur þróast frá því um 1970. Fyrir um 25 árum var rætt um stækkun hafnarsvæðisins upp í Geldinganes og Eiðsvík, en hætt var við þau áform árið 2004 þegar Reykjavíkurborg og sveitarfélög á norðurströnd Hvalfjarðar sameinuðu hafnir á svæðinu í Faxaflóahafnir.
Eitt af leiðarljósunum þá var að nýta kosti Grundartangahafnar til aukinna flutninga. Sterkir innviðir í höfnum eru jafn mikilvægir nú og í upphafi 20. aldar þar sem Ísland er áfram háð inn- og útflutningi á varningi og framleiðslu sjóleiðina. Um margt er staðsetning Sundahafnar hagkvæm, m.a. út frá umhverfislegum sjónarmiðum þar sem meginhluti neysluvarnings sem þangað er fluttur fer stuttar leiðir til neytenda.
Hins vegar er ljóst að með þróun borgar og ákalli um lagningu Sundabrautar er mikilvægt að nýta kosti hafna við Faxaflóa þar sem horft verði til langrar framtíðar varðandi þróun sjóflutninga. Þar verður m.a. að horfa til vegtenginga við hafnarsvæði, mögulegt bakland farmsvæða og hagkvæmni við gerð viðlegubakka. Þessir þættir voru hafðir að leiðarljósi þegar ákveðið var að flytja flutningastarfsemina úr gömlu höfninni í Sundahöfn og eins þegar mikilvægir innviðir nýrrar flutningahafnar verða metnir til framtíðar.
Þegar hafnarkostir á Suðvesturhorninu eru skoðaðir má sjá að Grundartangi býr að öllum þeim kostum sem öflug flutningahöfn þarf að hafa, s.s. nálægð við meginmarkaðssvæði, landrými fyrir farmsvæði, sterka innviði í rafmagni, möguleika á hagkvæmri bakkagerð og góðri vegtengingu við höfuðborgarsvæðið, sem með vegabótum á Kjalarnesi, Sundabraut og nýjum Hvalfjarðargöngum munu styrkja Grundartanga enn frekar sem hafnar- og atvinnusvæði.
Í dag eru yfir 300 skipakomur til Grundartanga á hverju ári og höfnin getur tekið á móti skipum með mikilli djúpristu. Um höfnina fara liðlega tvær milljónir tonna af hráefni og framleiðslu fyrirtækjanna á svæðinu. Hafnarbakkar eru nú þegar um 850 metrar og hagkvæmt að lengja viðleguna um að minnsta kosti 700 metra til viðbótar. Dýpi er nægjanlegt fyrir viðlegu djúpristra skipa. Þessir staðarkostir skipa Grundartanga í fremstu röð þegar rætt er um tilfærslu jafn mikilvægra innviða og flutningahafnar.
Mikilvægt er, þegar ákvörðun um fjárfestingu í hafnarsvæðum er tekin, að horft sé til langrar framtíðar til þess að sú mikla fjárfesting skili sér. Á Grundartanga er unnt að þróa hafnarsvæðið í áföngum og án þess að ráðast í dýrar framkvæmdir við breytingar vegna dýpis, landgerðar og skjólgarða. Það sýnir sig að þróun borgar og byggða krefst þess að skipuleggja þarf mikilvæga innviði til langrar framtíðar.
Fjárfesting í höfnum er einn lykilþátturinn í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi, aðgangi þjóðarinnar að erlendum mörkuðum og snurðulausum flutningum á nauðsynjavöru til landsins.
Þegar skynsamleg staðsetning flutningahafnar er metin verða allir lykilþættir góðrar hafnar að vera til staðar og þar kemur Grundartangi sterkur inn sem traustur valkostur til framtíðar. Lagning Sundabrautar færir hana nær meginmarkaðssvæði Íslands. Aðrir valkostir hafa sína kosti og galla – en ef litið er til þróunar á skipakosti og nálægðar við markaðssvæði – er hún öruggur kostur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021.