Óli Björn Kárason, alþingismaður:
Hugmyndafræðin að baki lögum um sjúkratryggingar er skýr; „að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag,“ eins og segir í fyrstu grein laganna. Markmiðið er „að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar“ og um leið „að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna“.
Í einfaldleika sínum á skipulag heilbrigðisþjónustunnar að taka mið af hagsmunum hinna sjúkratryggðu (okkar allra) en ekki kerfisins og gera á allt til að standa vörð um réttindi þeirra.
Þegar Guðlaugur Þór Þórðarson mælti sem heilbrigðisráðherra fyrir frumvarpi sem síðar var samþykkt sem lög um sjúkratryggingar árið 2008 benti hann á að tilgangurinn væri „í fyrsta lagi að mæla fyrir með skýrum hætti um réttindi einstaklinga á Íslandi til að njóta sjúkratrygginga og þar með til heilbrigðisþjónustu sem greiðist úr ríkissjóði. Í öðru lagi er tilgangur frumvarpsins að kveða á um hvernig staðið skuli að samningum, kaupum og greiðslum hins opinbera fyrir heilbrigðisþjónustu.“
Sjúkratryggðir í forgang
Orðrétt sagði ráðherrann:
„Stefnt er að því að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um blandaða fjármögnun, þ.e. að auk fastra greiðslna til stofnana skuli fjármagn fylgja sjúklingum og að greiðslur ríkisins til veitenda heilbrigðisþjónustu séu þannig tengdar við þörf og fjölda verka. Markmið með frumvarpinu er að tryggja sjúkratryggðum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu og aðstoð sem á hverjum tíma eru tök á að veita og að allir sjúkratryggðir njóti umsaminnar þjónustu, óháð efnahag. Þá er það markmið frumvarpsins að tryggja hámarksgæði í heilbrigðisþjónustu eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á, en jafnframt stuðla að rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni þjónustunnar til lengri og skemmri tíma. Gert er ráð fyrir því að þessum markmiðum megi ná með því að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og að það verði gert með því að kostnaðargreina þjónustuna, ásamt því að byggja upp meiri þekkingu og beita faglegum aðferðum sem sérstaklega miðast við samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu og stjórnun slíkra samninga.“
Í umræðum fagnaði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, frumvarpinu og sagði það tryggja að fjármagn fylgi sjúklingnum: „Það hlýtur að vera fagnaðarefni allra sem vilja setja sjúklingana í forgang. Og það er hugsunin á bak við þetta frumvarp, herra forseti. Markmiðið um betra heilbrigðiskerfi fyrir alla ætti því að nást enn betur með því skrefi sem þetta frumvarp getur um.“
Innbyggð tregða kerfisins
Eftir því sem þjóðin eldist munum við þurfa að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að fjármunir séu nýttir með skynsamlegum hætti og þar skiptir skipulagið mestu. Ég hef áður haldið því fram að innan kerfisins sé inngróin tregða til að nýta kosti einkaframtaksins, auka valmöguleika almennings og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna. Vegna þessa hefur aldrei tekist fyllilega að virkja lögin um sjúkratryggingar – ná markmiðum þeirra um öfluga þjónustu við sjúkratryggða, ná rekstrarhagkvæmni og styrkja ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Þessi innbyggða tregða hefur aukist á síðustu árum. Afleiðingin er veikari og verri þjónusta.
Að óbreyttri stefnu festist íslensk heilbrigðisþjónusta í sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta. Með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar með áherslu á ríkisrekstrarvæðingu heilbrigðisþjónustunnar verður til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar.
Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar stærsta hluta heilbrigðisþjónustunnar er tvöfalt kerfi. Í nafni jöfnuðar vilja andstæðingar einkarekstrar fremur lengja biðlista en nýta kosti einkaframtaksins. Afleiðingin er hins vegar aukið misrétti. Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum. Við hin, sem öll erum þó sjúkratryggð, þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og höfum lítið sem ekkert val um hana.
Með þessu er þjónusta við landsmenn takmörkuð – valfrelsið er skert. Gagnsæi kostnaðar hverfur og „kostnaðaraðhaldið“ verður í formi biðlista. Samfélagið allt greiðir reikninginn í formi hærri kostnaðar og minni lífsgæða. Allt gengur þetta gegn skýrum markmiðum laga um sjúkratryggingar.
Ólíkt ríkisrekstrarsinnum hef ég verið sannfærður um að verkefni stjórnmálamanna sé ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að virkja það öllum til hagsbóta. Valfrelsi um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag á að vera markmiðið og með því eykst aðhaldið og stuðlað er að hagkvæmari nýtingu fjármuna. Um leið viðurkennum við sem samfélag hið augljósa; læknisfræðin og heilbrigðisvísindin öll eru þekkingariðnaður og reist á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Þannig vinnum við gegn því að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði til með tilheyrandi ójöfnuði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars 2021.