Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
Í lok febrúar í fyrra hefði fáa grunað að ári síðar stæðum við í miðri dýpstu kreppu í heila öld.
Heimsfaraldurinn hefur staðið lengur en flesta óraði fyrir í upphafi með tilheyrandi áhrifum á heimili og fyrirtæki. Við aðstæður sem þessar erum við minnt á hve miklu það skiptir að hafa nýtt góð ár til að létta skuldastöðu ríkisins og búa í haginn fyrir framtíðina.
Þegar nóg virðist vera til skiptanna er ekki alltaf vinsælt að fylgja slíkri stefnu, en öllum má nú vera ljóst að geta ríkisins til að bregðast við faraldrinum af krafti er byggð á fyrirhyggju fyrri ára.
Verjum einkaframtakið
Við höfum veitt tugi milljarða í stuðningsaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki. Tugþúsundir einstaklinga og á fjórða þúsund fyrirtæki hafa nýtt úrræðin, langflest þeirra vinnustaðir með færri en tíu starfsmenn.
Þótt halli ríkissjóðs sé gríðarlegur um þessar mundir er ég sannfærður um að þessi viðbrögð hafi verið skynsamleg. Við eigum allt undir því að atvinnulífið nái sér aftur á strik. Hagsæld okkar byggist umfram annað á einkaframtakinu, störfunum sem með því skapast og tilheyrandi framlagi til samneyslunnar.
Með því að létta róðurinn á tímum faraldursins gerum við fyrirtækjum kleift að aðlagast aðstæðum og hreinlega lifa af. Við trúum því að hér sé um tímabundið ástand að ræða og byggjum með þessu efnahagslega brú yfir til betri tíma.
Með þetta fyrir augum höfum við ekki aðeins ráðist í stuðningsaðgerðir heldur einnig lækkað skatta, á sama tíma og tekjur ríkisins skreppa saman. Þó slík stefna muni skila sér margfalt til baka þegar fram líður þarf að hafa áætlun um að stöðva skuldasöfnun ríkisins á komandi árum. Fjármálaáætlun okkar fyrir árin 2021-2025 varðar veginn til jafnvægis, þó skuldaaukningin sé gríðarleg. Gert er ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs á tímabilinu verði um 900 milljarðar króna.
Útlendingar vilja geyma peningana sína á Íslandi
Skömmu fyrir áramót gáfum við út stefnu um lánamál ríkisins næstu árin. Áfram verður lögð áhersla á útgáfu ríkisskuldabréfa á íslenskum markaði, auk þess sem mikilvæg verkefni á borð við sölu hluta í Íslandsbanka við hagstæðar markaðsaðstæður mun koma sér vel.
Það sem vakti þó einkum jákvæð viðbrögð er áhersla á fjölbreytta fjármögnun, sem felst meðal annars í að sækja erlent lánsfé. Þannig minnkum við áhættuna sem í því felst að skulda einungis hér á landi og tryggjum mikilvægt aðgengi Íslands að alþjóðlegum mörkuðum.
Þar njótum við nú þegar mikils trausts. Þetta sást best á því að ríkið gaf nýlega út 750 milljón evra skuldabréf til sjö ára á núll prósent vöxtum. Í einföldu máli treysta erlendir fjárfestar okkur því til að geyma að jafnvirði um 117 milljarða króna fyrir sig hér á landi vaxtalaust í sjö ár. Betri dæmi eru vandfundin um trú alþjóðasamfélagsins á stefnu okkar og getu til að koma enn sterkari út úr faraldrinum.
Stöndum vörð um staðreyndir
Áætlanir stjórnvalda í þessum efnum hafa víðast hvar vakið viðlíka traust. Þrátt fyrir mesta efnahagssamdrátt í heila öld og mikla skuldasöfnun er lánshæfismat ríkissjóðs óbreytt frá því sem var fyrir faraldurinn.
Lítillega hefur þó borið á gagnrýni á þá stefnu sem mörkuð hefur verið. Því hefur verið haldið fram á Alþingi að í sókn ríkisins á erlenda markaði felist áhættuaukning. Í því samhengi fullyrti formaður Viðreisnar að skuldir ríkisins hefðu á síðasta ári aukist um 45 milljarða vegna gengisbreytinga íslensku krónunnar.
Rétt er að rýna stuttlega í þær staðreyndir sem hér skipta máli.
Lántökur í erlendum gjaldmiðlum hafa byggt upp gjaldeyrisstöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum, en bankinn býr þannig yfir 800 milljarða gjaldeyrisvaraforða. Með öðrum orðum hefur ríkið geymt þann gjaldeyri sem tekinn hefur verið að láni og hefur þannig varið sig fyrir gengissveiflum.
Á sama tíma og gengisbreytingar krónunnar hafa haft áhrif á stöðu erlendra lána hafa þær einnig haft áhrif á gjaldeyriseignir. Þetta tvennt hefur sveiflast í takt og í því samhengi þarf að skoða fullyrðingar um meinta 45 milljarða skuldaaukningu.
Í fyrra breyttist staða erlendra lána ríkisins alls um 59 milljarða króna, en gengisáhrif á stöðuna námu um 30 milljörðum yfir árið. Á sama tíma breyttust gjaldeyriseignir ríkissjóðs um 55 milljarða króna og þar af voru gengisáhrif um 26 milljarðar króna.
Raunveruleg gengisáhrif á ríkissjóð í fyrra voru því um einn tíundi af þeim 45 milljörðum sem formaður Viðreisnar heldur á lofti í ræðu og riti.
Kakan þarf að stækka
Næstu mánuði verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um staðreyndir. Það verður þó ekki síður mikilvægt að standa vörð um þau grunngildi sem við viljum byggja á þegar fram líða stundir. Gjalda ber varhug við tali um aukna ríkisvæðingu, skattahækkanir og aðra kæfandi hugmyndafræði sem víða glittir nú í.
Leiðin fram á við felst í því að hlúa að einkaframtakinu og gera heimilum og fyrirtækjum kleift að sækja fram þegar léttir til. Við þurfum fleiri störf, meiri umsvif, aukna framleiðslu og framlegð. Kakan þarf að stækka. Án þess getum við ekki varið þá góðu opinberu þjónustu sem við höfum byggt upp.
Rétta leiðin að þessu markmiði er að treysta á framtakssemi fólksins sem byggir Ísland. Það gerum við með því að hið opinbera skapi hvetjandi umhverfi, styðji við og standi með þeim sem vilja láta til sín taka.
Sýnum í verki trú okkar á að framtíðin sé í reynd í okkar höndum. Það eina sem þarf er að treysta á fólkið sem byggir landið okkar. Veita því möguleika á að grípa tækifærin. Það hefur okkur reynst best í fortíð og þangað skulum við stefna til framtíðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2021.