Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:
Ein af frumskyldum stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja sjálfstæði landsins, fullveldi og friðhelgi landamæra, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Þjóðaröryggisstefnan sem Alþingi samþykkti árið 2016 mótatkvæðalaust rekur þær áherslur sem hafðar skulu að leiðarljósi við að ná þessu markmiði með vísan til varnarsamningsins við Bandaríkin, aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu og norrænnar samvinnu. Stefnan markaði tímamót þar sem breið nálgun á öryggishugtakið endurspeglar margslungnari heimsmynd en við höfum áður átt að venjast.
Öryggisumhverfið hefur að sönnu breyst á undanförnum árum, fjölþáttaógnir á borð við netárásir og upplýsingaóreiðu eru nýr veruleiki sem við þurfum að laga okkur að. Þetta er helsti útgangspunkturinn í nýlegri skýrslu Björns Bjarnasonar um aukið samstarf Norðurlanda á sviði utanríkis- og öryggismála. Í skýrslunni, sem ég beitti mér fyrir á vettvangi norrænnar samvinnu, er undirstrikað að ekkert ríki getur eitt og sér varist þessum nýju ógnum heldur verðum við að eiga um það náið samstarf þar sem allir leggja sitt af mörkum.
Tvær lykilstoðir þjóðaröryggis
Aðild okkar Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningur okkar við Bandaríkin eru lykilstoðir og þungamiðjan í þjóðaröryggisstefnunni. Engin þjóð getur verið varnarlaus, flest ríki tryggja sínar varnir með eigin her, oftast með gífurlegum tilkostnaði. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gera okkur Íslendingum kleift að horfa til öruggrar framtíðar sem herlaus þjóð.
Þessi sérstaða Íslands felur ekki í sér að við sitjum með hendur í skauti heldur tökum við virkan þátt í störfum bandalagsins og leggjum okkar af mörkum – ávallt á borgaralegum forsendum. Á tveggja daga fundi varnarmálaráðherra NATO sem fram fór í vikunni ræddum við meðal annars hvernig við getum eflt pólitíska samvinnu bandalagsríkjanna. Þar er byggt á tillögum sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hefur haft forgöngu um og verða lagðar fyrir leiðtogafund þess síðar á árinu.
Traustir innviðir
Hér á landi eru til staðar innviðir sem hafa í senn mikilvægt hlutverk í sameiginlegum vörnum bandalagsins og borgaralega þýðingu. Á síðustu misserum hefur verið ráðist í verulegar endurbætur og viðhald á mannvirkjum og búnaði, ekki síst til að mæta þeim kröfum sem fylgja breyttu öryggisástandi. Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir hleypur á milljörðum króna. Íslensk stjórnvöld leggja að sjálfsögðu af mörkum vegna þessara framkvæmda en kostnaður greiðist þó að mestu af Atlantshafsbandalaginu og bandarískum stjórnvöldum. Hundruð starfa skapast í tengslum við þær – og veitir ekki af í því árferði sem nú ríkir vegna heimsfaraldursins.
Við þurfum að halda áfram þeim endurbótum sem staðið hafa yfir enda er skýrt kveðið á um það í þjóðaröryggisstefnunni að tryggt sé að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
Margháttuð samvinna
Varnaræfingar í okkar heimshluta sýna svo glöggt hve aðkallandi er talið að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi. Þær eru jafnframt birtingarform þess að íslensk stjórnvöld framfylgja ákvæðum þjóðaröryggisstefnunnar um að standa vörð um fullveldi og öryggi íslensku þjóðarinnar. Það gerum við í samstarfi við bandalagsríki okkar með æfingum og þjálfun. Liður í þessu er reglubundin loftrýmisgæsla hér á landi en fram undan er gæsluvakt norska flughersins í mars og síðar á árinu munu bandalagsríki okkar, Pólland og Bandaríkin, standa vaktina.
Nýjar áherslur
Þróun öryggismála endurspeglast svo í viðfangsefnum ráðuneytisins. Á fyrsta ári mínu sem utanríkisráðherra gengumst við fyrir endurreisn varnarmálaskrifstofu en hún fer með framkvæmd varnarmála á Íslandi. Innan hennar hefur verið sett á fót sérstök deild fjölþátta ógna í samræmi við breyttar áherslur og nýjar ógnir. Angi af sama meiði er síðan starfshópur sem ég skipaði í fyrra um ljósleiðaramálefni, útboð ljósleiðaraþráða Atlantshafsbandalagsins og tengd málefni. Úttekt og mat starfshópsins á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands verða brátt gerðar opinber. Stofnljósleiðarar teljast til lykilinnviða þegar kemur að öruggum fjarskiptum og öryggi ríkja og vörnum og því um afar mikilvægt málefni að ræða.
Síkvikur heimur og fjölbreyttar ógnir krefjast þannig sveigjanleika, aðlögunarhæfni og ekki síst samvinnu við önnur ríki og á vettvangi alþjóðastofnana. Þannig tryggjum við öryggi og varnir lands og þjóðar best.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2021.