Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Nú hafa verið kynnt drög að borgarlínu þar sem útfærslan kemur loks fyrir sjónir almennings. Það er gott. Þetta eru reyndar ekki bara drög, heldur frumdrög. Það sem vekur athygli margra er að nú stendur til að taka akreinar úr almennri umferð undir borgarlínu. Þetta samræmist ekki því sem samþykkt var af samgöngunefnd Alþingis þar sem sérstaklega var tekið fram að ekki mætti draga úr afkastagetu vegakerfisins með tilkomu borgarlínu. Samkvæmt frumdrögunum á að taka helminginn af akreinum á Suðurlandsbraut úr almennri umferð. Jafnframt að taka Hverfisgötuna að mestu leyti undir borgarlínu. Rétt er að benda á að 95% farþega sem fara með vélknúnum farartækjum fara með einkabíl. Flest erum við sammála um að bæta þurfi samgöngur í Reykjavík. Ekki síst almenningssamgöngur. Sú leið að þrengja að umferð leysir ekki samgönguvandann.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2021.