Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Undanfarið ár hefur reynt á þolrif íslensks samfélags á ýmsan máta. Landbúnaðurinn er þar engin undantekning; hrun í komu ferðamanna með tilheyrandi samdrætti í eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarafurðum, umfangsmiklar sóttvarnarráðstafanir til lengri tíma og svo framvegis. Til að bregðast við þessari stöðu kynnti ég í mars í fyrra 15 aðgerðir með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif faraldursins á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma.
Aukinn kraftur í bólusetningu gefur væntingar um að samfélagið fari að komast aftur í eðlilegar skorður. Við þær aðstæður er rétt að horfa til framtíðar og velta því upp hvernig við sköpum öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðveldum honum að nýta tækifæri framtíðarinnar. Umfangsmikil vinna í þessa veru hefur átt sér stað í ráðuneyti mínu undanfarna mánuði. Afraksturinn var kynntur á fjölmennum kynningarfundi í gær; 12 aðgerðir til eflingar íslenskum landbúnaði. Þremur aðgerðum er þegar lokið og er áformað að alls 10 af 12 aðgerðum verði lokið hinn 15. apríl nk.
Aukinn stuðningur við bændur
Fyrsta aðgerðin lýtur að auknum stuðningi við bændur en við afgreiðslu fjárlaga 2021 var að minni tillögu samþykkt að verja 970 milljónum króna til að koma til móts við skaðleg áhrif Covid-19 á íslenska bændur. Þessum fjármunum verður ráðstafað til þeirra bænda sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af faraldrinum, einkum nauta- og lambakjötsframleiðenda.
Jafnframt hef ég ákveðið að gjaldskrá Matvælastofnunar sem snertir bændur verður ekki hækkuð á þessu ári. Fallið var frá öllum gjaldskrárhækkunum Matvælastofnunar í fyrra vegna áhrifa Covid-19 á íslenska matvælaframleiðendur.
Lambakjöt beint frá bónda
Í næsta mánuði verður kynnt átak til að ýta undir möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli. Þessi aðgerð er í mínum huga stórmál fyrir íslenska bændur og hefur verið lengi í umræðunni. Með þessu er verið að veita bændum tækifæri til að styrkja verðmætasköpun og afkomu sína. Stuðla þannig að frekari fullvinnslu, vöruþróun, varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matvæla.
Tollamál
Þrjár aðgerðanna lúta beint að tollamálum. Í fyrsta lagi ber að nefna að eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta hefur verið endurvakið til 1. ágúst 2022. Í öðru lagi er unnið að úrbótum til að koma til móts við ábendingar um brotalamir í tollafgreiðslu á landbúnaðarvörum. Loks má nefna að óskað hefur verið eftir endurskoðun tollasamnings við ESB og þær viðræður eru hafnar.
Ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland
Í september í fyrra skipaði ég verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Áætlað er að tillaga að stefnunni muni liggja fyrir í vor. Stjórnvöld hafa mikil áhrif á starfsskilyrði landbúnaðarins en stefnumótun þeirra um greinina hefur hingað til verið brotakennd. Hún hefur komið fram í búvörusamningum, reglusetningu og öðrum ákvörðunum sem því tengjast en tilgangur vinnunnar sem nú stendur yfir er að setja fram heildstæða stefnumótun fyrir landbúnaðinn. Stefnan verður lögð fyrir Alþingi sem þingsályktun og hafa stjórnvöld og Bændasamtök Íslands samþykkt að landbúnaðarstefnan verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga 2023.
Betri merkingar matvæla
Starfshópur um betri merkingar matvæla skilaði skýrslu til mín sl. haust. Í niðurstöðum hópsins er meðal annars að finna tillögu um sérstakt búvörumerki að norrænni fyrirmynd. Bændasamtökum Íslands hefur verið tryggt fjármagn úr rammasamningi landbúnaðarins til gerðar og útfærslu þess. Gert verður sérstakt samkomulag um það á næstu vikum. Samhliða verður öðrum tillögum hópsins komið til framkvæmdar.
Aukin hagkvæmni og hagræðing
Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamninginn í september síðastliðnum verður hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu tekin til sérstakrar skoðunar, m.a. til að stuðla að bættri nýtingu verðmæta og aukinni hagræðingu innan landbúnaðarframleiðslunnar, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.
Mælaborð landbúnaðarins
Fyrsta útgáfa nýs mælaborðs fyrir landbúnaðinn mun birtast í næsta mánuði. Í fyrsta áfanga verður áhersla á yfirsýn yfir innlenda framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum. Mælaborðið verður síðan endurbætt áfram í því skyni að það nýtist sem verkfæri til að fylgjast með þróun þeirra markmiða sem sett eru í búvörusamningum og landbúnaðarstefnu auk markmiða um fæðuöryggi.
Sértæk vinna vegna sauðfjárræktarinnar
Erfiðleikar hafa verið í sauðfjárræktinni undanfarin ár vegna mikilla afurðaverðslækkana á árunum 2015-2017. Afurðaverð til sauðfjárbænda er nú það sama í krónum talið og árið 2011. Ráðuneyti mitt og Landssamtök sauðfjárbænda vinna nú sameiginlega aðgerðaáætlun með það markmið að afurðaverð til sauðfjárbænda hækki fyrir næstu sláturtíð. Gert er ráð fyrir að hún liggi fyrir í lok mars.
Fæðuöryggi á Íslandi
Landbúnaðarháskóli Íslands hefur skilað ráðuneyti mínu skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi. Þar er meðal annars bent á nauðsyn mótunar fæðuöryggisstefnu og það er jafnframt aðgerð sem fylgir nýrri matvælastefnu stjórnvalda. Sú vinna mun hefjast á næstu vikum eftir samráð við aðila sem að málinu þurfa að koma. Skýrslan verður einnig tekin til meðferðar í þjóðaröryggisráði enda er fæðuöryggi hluti af þjóðaröryggi landsins.
Loks má nefna að regluverk og stjórnsýsla um viðbrögð við riðuveiki í sauðfé og tengd ákvæði um dýraheilbrigði verða endurskoðuð.
Sterkari stoðir
Framgangur þessara aðgerða hefur verið og verður áfram í forgangi á nýrri landbúnaðarskrifstofu ráðuneytisins. Þannig hefur Sigurður Eyþórsson verið ráðinn verkefnastjóri til að vinna að framgangi og innleiðingu þessara aðgerða og hefur hann hafið störf í ráðuneytinu.
Ég er sannfærður um að þessar aðgerðir munu á næstu vikum og mánuðum styrkja undirstöður íslensks landbúnaðar til skemmri og lengri tíma. Að okkur takist að skapa þessari mikilvægu atvinnugrein enn betri skilyrði þannig að hún nái að vaxa og dafna til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2021.