Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Mörgum finnst það merki um ómerkilegan hugsanagang smáborgarans að láta sig dreyma um að launafólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að eignast í fyrirtækjum, litlum og stórum. Fátt virðist verra í huga fjandmanna einkaframtaksins en að almenningur nái að byggja enn eina stoðina undir eignamyndun með sparnaði í formi hlutabréfa. Tilraunir til að ryðja braut launafólks inn í atvinnulífið m.a. með skattalegum hvötum eru eitur í beinum þeirra.
Ég hef áður vakið athygli á því hvernig skipulega er alið á fjandskap í garð atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins. Jafnvel stjórnmálamenn, sem á hátíðarstundum segjast talsmenn öflugs atvinnulífs, falla í pólitískan forarpytt – popúlisma – og taka þátt í að kynda undir tortryggni og andúð í garð einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina. Þeir fá sínar tvær mínútur í sjónvarpsfréttum og fyrirsagnir í blöðum og vefmiðlum. Á þingi eru stjórnmálamenn sem telja ekkert athugavert við að einstaklingar í atvinnulífinu sitji undir dylgjum um lögbrot; saklausir menn eigi að fagna ef þeir eru teknir til rannsóknar, því þá fái þeir tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Reglum réttarríkisins er þannig snúið á haus þegar kemur að athafnamönnum.
Í skotlínu
Þeir sem ná árangri í rekstri eiga það á hættu að komast í skotlínu áhrifamikilla fjölmiðla, ekki síst þess ríkisrekna. Byggt er undir neikvæðar hugrenningar, hagnaður er talinn óeðlilegur og arðgreiðslur fyrirtækja ekki annað en birtingarmynd græðgivæðingar. Engu skiptir þótt hagnaður sé drifkraftur framfara og forsenda nýsköpunar og fjárfestinga. Arður er ekkert annað en leiga eða vextir fyrir fjármuni sem hluthafar leggja fyrirtæki til í formi hlutafjár í stað þess að veita því lán. Arðurinn sætir afgangi og fæst ekki nema vel gangi. Lánveitandi fær sína vexti greidda og lánið á endanum. Sigli fyrirtæki í þrot fá forgangskröfuhafar, starfsfólk og veðhafar fyrst greitt og þá almennir kröfuhafar. Hluthafarnir tapa alltaf sínu. Og um það tala fáir.
Í þessu andrúmslofti er merkilegt að verða vitni að því hvernig íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur hægt og bítandi verið að styrkjast samhliða auknum áhuga einstaklinga. Á liðnu ári tvöfaldaðist fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga hlutabréf í skráðum félögum og voru rúmlega 16 þúsund í lok árs. Þar spilar inn í vel heppnað útboð Icelandair. Dagleg viðskipti jukust um nær 60% á milli ára. Fjöldi viðskipta undir 500 þúsund krónum þrefaldaðist á síðasta ári, sem er til marks um aukna þátttöku almennings í markaðinum.
Í viðtali við Markaðinn – fylgirit Fréttablaðsins – í desember benti Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, á að aukin þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði yki líkur á því að vaxtarfyrirtæki sæktu frekara fé á hlutabréfamarkað: „Það skiptir miklu máli fyrir atvinnusköpun. Hér er ég að tala um fyrirtæki sem eru ekki að stíga sín fyrstu skref heldur komin á stökkpallinn en vantar rakettur til að komast almennilega á loft. Í þessu felast mikil tækifæri í að bæta í viðspyrnuna þegar birtir til eftir Covid.“
Gleðiefni
Fyrirhuguð sala og skráning á allt að 35% hlutafjár Íslandsbanka síðar á þessu ári mun ekki aðeins losa um eignarhald ríkisins á fjármálamarkaði heldur einnig styrkja innlendan hlutabréfamarkað. Og það mun skipta máli fyrir íslenskt atvinnulíf og þar með almenning. Virkur og öflugur hlutabréfamarkaður er mikilvæg stoð undir öflugt efnahagslíf og hagvöxt og þar með bætt lífskjör. Fyrir utan að vera mikilvæg uppspretta fjármagns veitir formlegur hlutabréfamarkaður fyrirtækjum aðhald og leiðir til aukins aga og skilvirkni í rekstri.
Ákvörðun stjórnar Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í byrjun þessa mánaðar, að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland, er sérstakt gleðiefni og enn eitt merki um aukinn styrk hlutabréfamarkaðarins. Stefnt er að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.
Aðeins eitt sjávarútvegsfyrirtæki er skráð á opinberan markað – Brim. Vonandi fylgja fleiri sjávarútvegsfyrirtæki fordæmi Brims og Síldarvinnslunnar, sem eru meðal öflugustu fyrirtækja landsins. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, hefur sagt að markmið með skráningu sé að efla fyrirtækið og opna fyrir fjárfestum: „Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar.“
Eyðir tortryggni og eykur traust
Almenn skráning helstu sjávarútvegsfyrirtækja á opinn hlutabréfamarkað, með þeim skyldum sem þar þarf að uppfylla, vinnur gegn þeim undirróðri sem stundaður hefur verið gagnvart sjávarútvegi í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna. Möguleiki á beinni þátttöku í rekstri glæsilegra fyrirtækja samþættir hagsmuni launafólks og sjávarútvegs í dreifbýli og þéttbýli. Reglubundin og skýr upplýsingagjöf samhliða greiningum óháðra sérfræðinga eykur ekki aðeins traust heldur einnig skilning á eðli sjávarútvegsfyrirtækja, gefur innsýn í hvernig verðmætin verða í raun til.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist fyrir þátttöku almennings í atvinnulífinu. Ungir sjálfstæðismenn lögðu grunninn að þeirri baráttu þegar á fjórða áratug síðustu aldar. Markmiðið hefur verið skýrt; að gera launafólk að eignafólki, tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þess og skjóta styrkari stoðum undir fyrirtækin – einkaframtakið. Eykon [Eyjólfur Konráð Jónsson] nefndi þennan draum „auðræði almennings“. Hann var sannfærður um að trygging fyrir heilbrigðu samfélagi og lýðræði væri að sem allra „flestir einstaklingar séu fjárhagslega sjálfstæðir; þeir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum, en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins“. Pólitískir lukkuriddarar og óvildarmenn einkaframtaksins skilja ekki drauma af þessu tagi og kaldur hrollur hríslast um þá alla við þá tilhugsun að almenningur og atvinnulífið eigi með sér nána og opna samvinnu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2021.