Lítil en mikilvæg skref
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Nú er liðið tæpt 31 ár frá því bjór var leyfður á Íslandi, en hann hafði þá verið bannaður í rúm 70 ár. Sjálfsagt myndu fáir vilja banna hann á ný í dag og þrengja þannig að val­frelsi ein­stak­linga. Það er hins veg­ar rétt að hafa í huga að af­nám bjór­banns­ins varð ekki til af sjálfu sér. Til þess þurfti dug­mikla bar­áttu manna og kvenna sem kusu að treysta því að Íslend­ing­ar gætu sjálf­ir tekið ákvörðun um eigið líf, þar með talið drykkjar­menn­ingu. Þarna var stigið skref í átt að auknu frelsi. Öll slík skref skipta máli.

Á und­an­förn­um ára­tug hef­ur smærri brugg­hús­um, hand­verks­brugg­hús­um, fjölgað mikið um allt land. Þau eiga það sam­merkt að leggja áherslu á minni fram­leiðslu, gæði og sjálf­stæði. Sam­hliða þess­ari þróun hef­ur eft­ir­spurn og áhugi al­menn­ings á inn­lendri bjór­fram­leiðslu auk­ist veru­lega. End­ur­spegl­ast það meðal ann­ars í um­tals­verðri fjölg­un á ís­lensk­um bjór­teg­und­um. Fyr­ir utan aukna fjöl­breytni í vöru­úr­vali hafa hús­in skapað ný störf og nýja veltu í hag­kerf­inu okk­ar.

Í frum­varpi til breyt­inga á áfeng­is­lög­um sem ég hef lagt fram verður minni brugg­hús­um veitt leyfi til sölu áfengs öls á fram­leiðslu­stað. Breyt­ing­in mun styrkja rekst­ur smærri brugg­húsa, sér­stak­lega á lands­byggðinni, sem eiga erfitt með að koma vör­um sín­um að í ÁTVR. Áfram gilda strang­ar regl­ur um leyf­is­veit­ingu og eft­ir­lit og sveit­ar­stjórn­ir munu hafa ákvörðun­ar­vald um hvort smá­sala á fram­leiðslu­stað fari fram inn­an sveit­ar­fé­lags­ins. Ekki hef­ur náðst samstaða um breyt­ing­ar á ís­lenskri net­versl­un.

Frum­varpið tek­ur mið af sjón­ar­miðum þeirra sem vilja aukið frjáls­ræði í versl­un með áfengi sem og þeirra sem kjósa aðhalds­sama áfeng­is­stefnu. Það fel­ur ekki í sér til­lög­ur um breyt­ingu á áfeng­is­stefnu eða breytt­um áhersl­um í lýðheilsu­mál­um. Á síðastliðnum árum og ára­tug­um hef­ur fjöldi sölustaða áfeng­is auk­ist um­tals­vert og á það bæði við um fjölda versl­ana ÁTVR sem og fjölda vín­veit­inga­leyfa. Fjölg­un út­sölustaða hef­ur ekki haft í för með sér sam­svar­andi aukn­ingu á áfeng­isneyslu þjóðar­inn­ar.

Frum­varpið fel­ur ekki bara í sér tækni­leg­ar út­færsl­ur á því hvort og hvernig selji megi áfengi, í þessu til­viki bjór, held­ur er hér um mik­il­vægt frels­is­mál að ræða. Við eig­um að treysta fólki til að taka ákv­arðanir um eigið líf og það þurfa að vera af­skap­lega góð rök fyr­ir því að skerða val­frelsi al­menn­ings í þess­um mál­um sem og öðrum. Rík­is­valdið á ekki að ákveða hvað, hvort og hvernig lands­menn neyta drykkjar­fanga og það er ekk­ert sem kall­ar á að regl­ur hér á landi séu mun strang­ari en ann­ars staðar. Það er nauðsyn­legt að stíga skref sem þessi, þau eru mik­il­væg og mættu vera fleiri, jafn­vel þótt þau séu smá.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2021.