Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Undanfarnar vikur hefur átt sér stað nokkur umræða um innflutning á grundvelli tollkvóta, í tengslum við nýlegt útboð. Umræðan er á stundum með þeim hætti að það mætti ætla að hér hafi verið reistir miklir tollmúrar eða hindranir við innflutning landbúnaðarvara á undanförnum árum, þegar staðreyndir málsins segja allt aðra sögu eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Á undanförnum fjórum árum hefur magn tollkvóta fyrir innflutning frá ESB-ríkjum til Íslands rúmlega fimmfaldast. Aukningin er tæplega þreföld sé litið til samanlagðra tollkvóta til Íslands á þessu tímabili. Á sama tíma hefur meðalútboðsverð ESB-tollkvóta lækkað um næstum helming.
Tollasamningur við ESB innleiddur
Tollasamningar Íslands og ESB voru undirritaðir árið 2015 og að fullu innleiddir um síðustu áramót. Með þeim voru tollkvótar til Íslands stórauknir. Þannig sjöfölduðust tollkvótar á nautakjöti, úr 100 tonnum í tæp 700 tonn, ríflega fimmfölduðust í alifuglakjöti og jukust um 350% í svínakjöti. Samandregið hefur magn tollkvóta farið úr 750 tonnum árið 2017 í rúmlega 3.800 tonn í ár og þannig rúmlega fimmfaldast á fjórum árum.
Útboðsverð lækkað um helming
Á sama tíma og tollkvótar hafa margfaldast hefur meðalútboðsverð lækkað talsvert eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það fór hæst árið 2018 í 616 kr. pr. kg en lækkaði niður í 260 kr./kg í fyrra, á föstu verðlagi.
Alþingi samþykkti í desember sl. að taka tímabundið upp eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta, það sama og var við lýði þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Meðalútboðsverð í fyrstu úthlutun þessa árs var 308 kr. sem er helmingi lægra en það var árið 2018.
Þróun í átt til meira frjálsræðis
Samandregið ber myndin með sér að það er óumdeilt að á undanförnum árum hefur orðið þróun í átt til meira frjálsræðis í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Þróun sem hefur að mörgu leyti stuðlað að „auknu vöruúrvali og lægra vöruverði á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur“ líkt og segir í tilkynningu um undirritun samningsins frá 2015.
Hin hlið málsins er að á sama tíma hefur dregið úr tollvernd íslensks landbúnaðar líkt og sjá má í nýlegri skýrslu. Verkefni stjórnmálanna er að tryggja að þessi þróun leiði ekki til þess að íslenskur landbúnaður beri skarðan hlut frá borði og að hann geti sem best nýtt þau tækifæri sem blasa við. Samkeppni frá innfluttum matvælum er og verður fyrir hendi en ríki vernda og styðja sinn landbúnað um allan heim. Það skiptir þau máli að öflug og fjölbreytt innlend matvælaframleiðsla sé fyrir hendi og núverandi ríkisstjórn er þar engin undantekning. Að því verður áfram unnið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021.