Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Á fimm ára afmæli Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta árið 1940 gerði Bjarni Benediktsson (eldri) eiginleika forystumanna í stjórnmálum að umtalsefni. Nú 81 ári síðar eiga ábendingar Bjarna erindi til okkar sem höfum lagt stjórnmál fyrir okkur til lengri eða skemmri tíma.
Til að taka að sér forsjá í málum þjóðar þarf alltaf mikla þekkingu: „Stjórnmálamaðurinn verður m.a. að þekkja land sitt, gæði þess og torfærur, þjóð sína, kosti hennar og galla, viðskipti hennar við aðrar þjóðir og geta gert sér grein fyrir, hver áhrif atburðir með þeim muni hafa á hag hennar,“ var boðskapur Bjarna til stúdenta en bætti við: „Svo verður hann [stjórnmálamaðurinn] að þekkja sjálfan sig, mannlegt eðli, veilur þess og styrkleika.“
Stjórnmálin eru ekki vísindi, heldur listin að sjá hvað er mögulegt á hverjum tíma og framkvæma það. En það er ekki nægjanlegt að koma auga á möguleikana heldur verður stjórnmálamaðurinn að hafa „skyn á að velja þann rétta“. En hann þarf einnig að hafa burði – kjark – „til að standa með því, sem maður telur rétt, og þora að framkvæma það, hvað sem tautar“.
Freistni stjórnmálanna
Bjarni bendir á að þekkinguna á góðum stjórnunarháttum sé hægt að fá með námi en listin að stjórna rétt og þrekið til að fylgja málum eftir lærist ekki og er fáum gefið.
Í huga Bjarna hlýtur starf stjórnmálamannsins ætíð að verða erfitt en erfiðast þar sem lýðræði ríkir: „Annars staðar geta stjórnmálamenn látið sér í léttu rúmi liggja, hverja dægurdóma störf þeirra fá. En í lýðræðislandi verður hver sá, sem halda vill áhrifum sínum, þ.e. sá, er trúir á eigin málstað, að sannfæra almenning um, að ákvarðanir hans og athafnir séu réttar. Þetta leiðir þann, sem til forystu hefur verið settur, eðlilega oft í þá freistni að velja heldur þá leiðina, sem almenningi er geðþekkari, heldur en hina, sem forystumaðurinn telur rétta. En um leið er forystan farin og stjórnmálamaðurinn þar með búinn að bregðast skyldu sinni.“
Áratugum síðar voru skilaboðin þau sömu. Í áramótaávarpi 1969 sagði Bjarni, þá forsætisráðherra: „Engin skömm er að því að falla vegna þess, að maður fylgir sannfæringu sinni. Hitt er lítilmótlegt, að játast undir það, sem sannfæring, byggð á bestu fáanlegri þekkingu, segir að sé rangt.“
Virðing fyrir skoðunum
Í blaðagrein árið 1942 hélt Bjarni því fram að sá gerði lítið gagn í stjórnmálum sem ekki fengist við þau af einhverri innri þörf. Sjálfur hefði hann lagt stjórnmálin fyrir sig vegna þess að hann væri sannfærður um að ef íslensku þjóðinni ætti að vegna vel yrði sjálfstæðisstefnan að ná fram að ganga. Hann hefði hins vegar oft strengt þess heit að hætta afskiptum af stjórnmálum: „En þegar til hefur átt að taka, þá hefur mér fundist ég vera minni maður, ef ég legði eigi fram krafta mína til þess að vinna fyrir það, sem ég álít rétt.“
Bjarni var sannfærður um að andi frelsis, jafnréttis og lýðræðis væri Íslendingum í blóð borinn. Í ávarpi á þjóðarhátíðardeginum 1945 sagði hann meðal annars: „Vísvitandi munum vér og seint feta í fótspor þeirra, sem svipt hafa sjálfa sig réttinum til gagnrýni eða möguleikanum til að láta í ljós skoðanir sínar. Og fáir eru oss síður hneigðir til að sækja nokkurt mál út í ystu æsar, né eru því andvígari, að níðst sé á mönnum eða sá máttarmeiri láti kné fylgja kviði.“
En í daglegu þrasi gleymist oft að „játa öðrum hið sama frelsi og vér heimtum sjálfum oss til handa“. „Þegar við virðum ekki skoðanir hver annars er gengið gegn lýðræðinu, sem fær ekki staðist nema viðurkennt sé, að sjónarmiðin eru mörg og skoðanirnar þar af leiðandi ólíkar.“
Styrkur flokks
Þessi orð Bjarna Benediktssonar eru góð áminning til okkar sem berjumst fyrir frelsi einstaklinganna til orðs og athafna undir merkjum Sjálfstæðisflokksins og stöndum vörð um sjálfstæði þjóðarinnar. Það hefur verið styrkur flokksins að virða ólíkar skoðanir. Við höfum ýtt undir rökræður og tekist á stundum harkalega á. Á landsfundum fær suðupottur hugmynda að sjóða. Og það hefur oft verið magnað að verða vitni að því hvernig samkeppni hugmynda og hörð skoðanaskipti leysa úr læðingi pólitískan kraft sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei skilið né staðist.
Kraftur Sjálfstæðisflokksins felst í dagskrárvaldi almennra flokksmanna sem skilja „að þótt þröngsýni sé að neita, að sjónarmiðin séu mörg og skoðanir hljóti því að vera ólíkar, þá er sú víðsýni mest að kunna að rata hinn gullna meðalveg, svo að sem flestir megi vel við una,“ svo vitnað sé til orða Bjarna 17. júní 1945. Sá er þetta skrifar hefur haldið því fram að í öflugum stjórnmálaflokki skilji flestir mikilvægi þess að stilla að lokum saman strengi – að konur og karlar, ungir og gamlir standi saman í baráttunni um grunnstef sjálfstæðisstefnunnar.
Sjálfstæðismenn hafa því neitað að beygja sig undir vald umræðustjóra samtímans. Aldrei fallið í sömu gryfju og þeir sem helst kenna sig við umburðarlyndi og víðsýni en eiga erfitt með að bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum. Þeir vita að í þeirri gryfju glatar flokkurinn tilgangi sínum og verður hvorki uppspretta nýrra hugmynda eða hreyfiafl framfara.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2021.