Guðlaugur Þór Þórðarson utanríksráðherra:
Lengi vel var rekstur verslana á Íslandi framandi þáttur í íslensku efnahagslífi. Erlend fyrirtæki ráku verslanir sem tengdust íslensku hagkerfi í litlum mæli. Viðskiptin fólust í því að innfluttar vörur fengust í staðinn fyrir vörur til útflutnings. Fyrir 150 árum voru til dæmis aðeins um sjötíu starfandi verslanir hér á landi, eða ein á hverja eitt þúsund Íslendinga.
Þessi veruleiki er okkur fjarlægur í dag, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fyrirtækin eru margfalt fleiri og markaðurinn fyrir íslenskan útflutning umtalsvert stærri. Fríverslunarsamningar Íslands ná í dag til 74 ríkja og landsvæða og tæplega 3,2 milljarða manna, eða rúmlega þriðjungs mannkyns. Þrír samningar EFTA bíða gildistöku, við Indónesíu, Ekvador og Gvatemala, og þá er fríverslunarsamningur EFTA og Mercosur, tollabandalags Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, handan við hornið. Þegar framangreindir samningar taka gildi og ef núverandi samningaviðræður EFTA skila árangri mun Ísland eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem búa tæplega fimm milljarðar manna eða tveir af hverjum þremur jarðarbúum. Þá er ótalin sú vinna sem við höfum lagt í til að tryggja sem best viðskiptakjör við Bretland til framtíðar og gæta um leið hagsmuna okkar á kjölfestumarkaðinum á EES-svæðinu.
Samskiptin við Bandaríkin efld
Við upphaf ráðherratíðar minnar var liðinn hátt í áratugur frá því bandarískur ráðherra heimsótti Ísland. Í dag eru samskiptin mun meiri. Á fundi okkar Mike Pompeo, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Reykjavík fyrir tveimur árum var efnahagssamráði ríkjanna komið á fót í því augnamiði að auka frekar tvíhliða viðskipti og fjárfestingar. Það var mjög mikilvægur áfangi og í samræmi við stefnu okkar að opna á frekari viðskipatengsl við Bandaríkin. Snemma árs 2020 var annað mikilvægt skref stigið í þessa átt með framlagningu Íslandsfrumvarpsins á Bandaríkjaþingi. Verði það að lögum gjörbreytist aðgangur íslenskra fjárfesta og viðskiptaaðila að bandaríska markaðnum þannig að íslensk fyrirtæki geta sent stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu.
Tækifærin í austri
Gera má ráð fyrir því að þungamiðja alþjóðlegrar fríverslunar og viðskipta haldi áfram að færast til austurs þar sem fyrir er ört vaxandi og efnuð millistétt. Mikilvægt er að fylgjast með þessari þróun og þess vegna hef ég lagt áherslu á að tryggja að net viðskiptasamninga Íslands nái til þeirra svæða þar sem mestum vexti er spáð á næstu árum. Ljóst er að mikil og ný tækifæri bíða þar íslenskra útflutningsfyrirtækja. Það hefur verið afar ánægjulegt að fara með íslenskar viðskiptasendinefndir á fjarlægar slóðir, til dæmis Japans og Rússlands, og styðja þannig við sókn þeirra erlendis. Í Japansferðinni fögnuðum við meðal annars undirritun tvísköttunarsamnings ríkjanna, en viðræður um fleiri slíka samninga, m.a. við Singapúr, standa nú yfir. Ári síðar hófst þýðingarmikið efnahagssamráð við Japan og jafnframt tókst samkomulag við japönsk stjórnvöld sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum við Ísland. Í því sambandi má svo minna á að á undanförnum þremur árum höfum við undirritað sjö loftferðasamninga. Ber þar hæst samningurinn við Bretland. Einnig voru þrír samningar áritaðir við Úkraínu, Marokkó og Mósambík sem heimilar að þeim sé beitt. Þetta skiptir eyþjóð sem reiðir sig á greiðar samgöngur og útflutning miklu máli.
Við höfum einnig fest fríverslunarsamninginn í Kína í sessi með undirritun bókana við hann sem veita íslenskum útflutningsfyrirtækjum ný og spennandi tækifæri. Þær varða meðal annars viðurkenningu á heilbrigðisstöðlum fyrir fiskafurðir, fiskimjöl og lýsi og ull og gærur, til viðbótar við fyrri bókun um heilbrigðisvottun á íslensku lambakjöti. Í sendinefndinni sem fylgdi mér til Rússlands 2019 voru fulltrúar sjávartæknifyrirtækja sem hafa haslað sér völl þar ytra. Þrátt fyrir innflutningsbann sem rússnesk stjórnvöld settu á íslensk matvæli finna íslensk fyrirtæki sér samt nýjar leiðir á Rússlandsmarkað.
Íslensk fyrirtæki í forgangi
Allt frá fyrsta degi mínum í utanríkisráðuneytinu var ljóst að lögð yrði höfuðáhersla á utanríkisviðskipti. Að undirbúa jarðveginn á erlendum mörkuðum fyrir stórhuga fyrirtæki og frumkvöðla hefur alltaf verið forgangsmál í minni ráðherratíð og þau hafa verið sett enn frekar á oddinn í heimsfaraldrinum. Þegar baráttunni við kórónuveiruna er lokið er ég þess fullviss að sú vinna sem við höfum innt af hendi muni auðvelda íslenskum fyrirtækjum að grípa tækifærið þegar það gefst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. janúar 2021.