Nýr þjóðar­leik­vangur í Grafar­vogi?
'}}

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Ríkis­stjórn Ís­lands hefur hafið löngu tíma­bærar við­ræður við Reykja­víkur­borg um byggingu nýs þjóðar­leik­vangs í knatt­spyrnu. Því miður hafa þær við­ræður að­eins horft til þess að reisa nýjan leik­vang í Laugar­dalnum. Hvers vegna eru ekki aðrir kostir skoðaðir?

Þegar á að verja milljörðum af skatt­peningum er mikil­vægt að skoða hvaða kosti við höfum. Gætum við reist þjóðar­leik­vang á öðrum stað á höfuð­borgar­svæðinu sem jafn­vel myndi þjóna stærra hlut­verki og ekki kosta jafn mikið?

Það er öllum ljóst að það verður dýrt og erfitt að byggja á nú­verandi svæði. Laugar­dalurinn er gróinn og ára­langar stór­byggingar­fram­kvæmdir í ná­grenni við úti­vistar­svæði, skóla og sund­laug munu valda miklu raski. Við Egils­höll í Grafar­vogi og upp að Vestur­lands­vegi er mikið af ó­byggðu land­svæði og þar er hægt að fara strax í upp­byggingu á meðan að í Laugar­dalnum þarf að fara í kostnaðar­samt niður­rif áður en hægt er að byrja að byggja upp. Það er ekki of­mælt að byggingar­kostnaður gæti orðið 20% lægri við það að byggja á ó­snertu landi en í Laugar­dalnum. Nýr þjóðar­leik­vangur í knatt­spyrnu í Laugar­dal kallar líka á nýjan frjáls­í­þrótta­völl. Einnig myndi flutningur þjóðar­leik­vangs í knatt­spyrnu búa til aukið rými fyrir Þrótt og Ár­mann til að þróa sína að­stöðu til hags­bóta fyrir fjöl­skyldur í hverfinu.

Þurfum við ekki að spyrja okkur hvort upp­bygging nýs þjóðar­leik­vangs inni í miðri borg sé besti kosturinn, verður ekki að skoða aðrar stað­setningar vel? Hjarta ís­lenskrar knatt­spyrnu hefur slegið í Laugar­dalnum í 63 ár og á meðan hafa orðið ó­trú­legar breytingar á okkar sam­fé­lagi. Breytingar sem verður að taka til­lit til í þeirri upp­byggingu sem er fram undan.

Ný ferða­mála­stefna var sam­þykkt árið 2020 fyrir Reykja­víkur­borg og þar er fjallað um mikil­vægi þess að auka ráð­stefnu­ferða­menn í Reykja­vík. Sam­hliða upp­byggingu við Egils­höll væri hægt að reisa þar ráð­stefnu­hótel, vera með veitinga­staði og ýmsa þjónustu. Slík fjár­festing gæti lækkað fram­lag skatt­greið­enda og styrkt rekstur leik­vangsins heil­mikið eins og hug­myndir voru uppi um fyrir nokkrum árum. Auð­velt er að skapa gott að­gengi að Vestur­lands­vegi og því ekki flókið að tengja nýjan þjóðar­leik­vang við al­mennings­sam­göngur.

Mikil­vægast þegar kemur að þessu þarfa verk­efni er að spurt sé, koma aðrir staðir til greina, myndi önnur stað­setning ef til vill verða til þess að lyfta ís­lenskri knatt­spyrnu hærra, þjóna stærra hlut­verki og kosta okkur skatt­greið­endur minna?

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. janúar 2021.