Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:
Utanríkisþjónustan sýndi hvað í henni býr þegar kórónuveiran steypti sér yfir heimsbyggðina án þess að gera boð á undan sér fyrir tæpu ári. Samgöngur milli landa hafa á síðari tímum ekki verið markaðar annarri eins óvissu. Þúsundir Íslendinga þurftu að komast heim meðan ringulreið ríkti hvert sem litið var. Verkefnið var að tryggja öllum sem á þurftu að halda heimferð eða aðra úrlausn.
Norræn samvinna á farsóttartímum
Viðbrögðin við heimsfaraldrinum eru án efa eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann nú þegar um fjögur ár eru liðin frá því ég tók við embætti utanríkisráðherra. Aðstæðurnar voru að sönnu einstakar og aldrei hefur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins staðið frammi fyrir stærra verkefni. Við þurftum að stilla saman strengi – ráðuneytið, sendiráðin, fastanefndir, ræðismenn, almannavarnir, sóttvarnalæknir, flugfélög og fjöldi annarra. Þarna kom í ljós að í reynslubanka ráðuneytisins er ómetanleg þekking á réttum viðbrögðum í framandi umhverfi sem virkilega reynir á við aðstæður sem þessar.
Líklega hefur gildi norræns samstarfs sjaldan komið betur í ljós en í heimsfaraldrinum. Náið samstarf var á milli Norðurlandanna þar sem þau opnuðu borgaraþjónustu sína fyrir þegnum hvert annars. Daglegir fundir voru haldnir um stöðu, viðbrögð og úrræði til að tryggja að allir kæmust til síns heima. Á fyrstu þremur mánuðum faraldursins áttum við utanríkisráðherrar Norðurlanda nánast vikulega fjarfundi og þar voru farsóttin og viðbrögð við henni auðvitað efst á baugi. Samráðið við þessar nánustu vinaþjóðir okkar hefur aldrei verið jafn náið.
Íslendingar aðstoðaðir heim
Í upphafi faraldursins var brýnast að láta fólkið sem þurfti á þjónustu okkar að halda vita af okkur – að við værum reiðubúin að rétta því hjálparhönd. Á fáum dögum náðum við beint eða óbeint til flestra Íslendinga í útlöndum – næstum allra, held ég að sé óhætt að segja. Þar gegndi lykilhlutverki skráningargrunnurinn sem var settur upp með hraði. Íslendingar erlendis gátu notað hann til að láta okkur vita af ferðum sínum og við í staðinn komið til þeirra boðum án nokkurra tafa og fengið ómetanlega yfirsýn.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Nær tólf þúsund manns skráðu sig í grunninn. Frá lokum mars og fram í miðjan apríl var haft beint samband við tæplega sex þúsund Íslendinga erlendis, fyrst utan Evrópu en svo einnig í Evrópuríkjum. Hringt var í á þriðja þúsund manns en aðrir fengu sérsniðin skilaboð í tölvupósti, á samfélagsmiðlum og með smáskilaboðum. Frá 10. mars og til dagsins í dag hafa yfir þrettán þúsund erindi verið skráð hjá borgaraþjónustunni, tvö af hverjum þremur tengjast Covid-19. Dagana 14.-19. mars svaraði borgaraþjónustan 400 erindum á dag. Til samanburðar má nefna að allt árið 2018 bárust alls 550 erindi til borgaraþjónustunnar, að frátöldum fjölmörgum erindum sem sendiskrifstofur og ræðismenn afgreiddu það árið.
Samstillt átak við útvegun búnaðar
Þegar farsóttin skall á með fullum þunga reið á að eiga nægar birgðir af hlífðarbúnaði fyrir starfsfólk sjúkrahúsa. Þá kom í hlut sendiráðsins í Kína að semja um kaup á slíkum vörum og tryggja leyfi fyrir útflutningi þeirra. Með samstilltu átaki stjórnvalda, sendiráða, fyrirtækja og einstaklinga tókst að útvega búnaðinn og Icelandair flutti hann svo hingað heim. Þá hafði utanríkisþjónustan sömuleiðis milligöngu um að koma gjörgæsluöndunarvélum til landsins frá Kína sem Landspítalinn fékk að gjöf frá íslenskum fyrirtækjum.
Nú þegar vonandi sér fyrir endann á þessum fordæmalausa faraldri er nauðsynlegt að draga af honum lærdóm. Ég er ekki í minnsta vafa um að utanríkisþjónustan stóðst prófið og stendur sterkari eftir en áður. Starfsfólkið fékk þjálfun í að vinna saman í gríðarstóru verkefni þar sem mikilvæg reynsla hvers og eins kom að góðum notum. Ég hef aldrei verið jafn stoltur af samstarfsfólki mínu og þessar örlagaríku vikur sem sýndi hvað það er mikilvægt að hafa öfluga utanríkisþjónustu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2021.