Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Ronald Reagan sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna fyrir sléttum 40 árum, hinn 20. janúar 1981. Í innsetningarræðu sinni nefndi Reagan að Bandaríkjamönnum þætti sjálfsagt að á nokkurra ára fresti færu fram friðsamleg valdaskipti í landinu. Hann benti á að fáir veltu fyrir sér hve einstakt þetta væri, en að frá sjónarhóli margra annarra þjóða væri slíkt fyrirkomulag hreint kraftaverk.
Þessi orð Reagans fengu aukna merkingu í vikunni þegar stjórnlaus hópur hélt beint af stuðningsmannafundi Trumps forseta, gekk þaðan að þinghúsi Bandaríkjanna og réðst þar til inngöngu í því skyni að stöðva þingið í því verkefni að staðfesta kjör Bidens.
Vonbrigði
Þó að fáein dæmi séu um byssu- og sprengjutilræði í þinghúsinu hefur ekki verið ráðist þar til inngöngu í næstum tvö hundruð ár eða síðan 1814, þegar breskir hermenn gerðu þar atlögu og lögðu eld að byggingunni. Þá áttu Bandaríkjamenn og Bretar í stríði. Nú hefur það gerst í fyrsta sinn að bandarískir borgarar gera innrás í eigið þinghús.
Þetta var sögulegur og ótrúlegur atburður sem sýnir að þrátt fyrir tveggja alda hefð eru friðsamleg valdaskipti ekki eins sjálfsögð og okkur hættir til að halda, heldur þvert á móti kraftaverk sem gengur þvert gegn því sem lengi var álitið innsta eðli valds – nefnilega, að enginn léti það ótilneyddur af hendi.
Það eru öllum unnendum frelsis og lýðræðis sár vonbrigði að slíkur atburður skuli eiga sér stað í landi sem hefur á sínum bestu stundum verið helsti kyndilberi þeirra gilda í heiminum.
Ekki síður tengsl sjálfs forsetans við slíkan atburð, en erfitt er að færa rök fyrir að hann beri ekki á honum neina ábyrgð með herskáu orðfæri sínu.
Fordæmingarlaust
Fyrstu viðbrögð forsetans voru raunar næstum því jafn söguleg og atburðurinn sjálfur. Eftir innrásina, sem hafði þá þegar kostað fólk lífið, birti hann myndband þar sem hann lét algerlega hjá líða að fordæma atburðinn heldur talaði þvert á móti hlýlega til mótmælenda („We love you“) og hafði ekki fyrir því að undanskilja þá sem harðast gengu fram. Það er auðvitað með ólíkindum. Fordæmingin kom loks í öðru myndbandi, rúmum sólarhring eftir árásina. En fyrstu viðbrögðin sitja eftir og gleymast ábyggilega seint.
Þessir sögulegu atburðir vekja margar spurningar í stóru sem smáu samhengi. Um sjálfa innrásina, hvernig hún gat átt sér stað, hvernig það gat gerst að ónógar varnir væru fyrir hendi, sem verður vafalaust rannsakað, og um þá linkind sem mótmælendum virðist hafa verið sýnd, ekki síst í samanburði við önnur mótmæli í landinu á undanförnum mánuðum. Um framtíð Repúblikanaflokksins. Um gjána á milli ólíkra hópa í bandarísku samfélagi, orsakir hennar og hvort hún gliðnar enn á komandi árum eða gengur saman. Um forystuhlutverk Bandaríkjanna í heiminum. Um uppgang popúlískra öfgahreyfinga af ýmsu tagi hérna megin Atlantshafs. Um upplýsingaóreiðu og hvernig bæði fjölmiðlar og samfélagsmiðlar eiga að bregðast við henni.
Ég heimsótti Washington-borg í maí 2017, nokkrum mánuðum eftir að Trump sór embættiseið, og hitti þar marga sem lifa og hrærast í stjórnmálum og hafa það að atvinnu að greina stöðu og horfur. Eftirminnilegt er hve furðu lostnir þeir voru yfir kjöri Trumps og sáu ekkert nema óvissu fram undan. Svo virtist sem öll hefðbundin lögmál hefðu verið numin úr gildi. Enginn spáði því þó upphátt að kjörtímabili hans myndi ljúka með þeim hætti sem nú hefur orðið raunin.
Slagorð sem á vel við
Ronald Reagan átti sem kunnugt er rætur í „show business“, sem var stundum haft til marks um að ekki þyrfti að taka hann alvarlega sem stjórnmálamann. Sú gagnrýni hefur elst illa. Reagan er sá forseti sem notið hefur hvað mestra vinsælda allra Bandaríkjaforseta við lok valdatíma síns. Í seinni tíma skoðanakönnunum hefur hann líka iðulega verið hátt skrifaður, sérstaklega meðal almennings en líka hjá sérfræðingum í sögu og stjórnmálum.
Hvað sem segja má um Trump hefur bakgrunnur hans í „show business“ ekki dregið úr nauðsyn þess að taka hann alvarlega sem stjórnmálamann, þó að það sé ekki af þeim ástæðum sem flestir telja eftirsóknarvert.
Forsetar Bandaríkjanna eiga það flestir sameiginlegt að hafa lagt metnað í að stíga af sviðinu með sæmd þegar hlutverki þeirra er lokið. Öldungadeildarþingmaðurinn Corey Booker sagði einmitt í umræðum eftir óeirðirnar að þær væru afleiðing þess þegar persónudýrkun keyrir úr hófi fram. En í lýðræðisríki er enginn stærri en það hlutverk sem hann gegnir. Um Trump munu eftirmælin líklega verða þau að hann hafi ekki verið nógu stór í hlutverkið.
Fjögurra ára valdatíð hans er nú senn á enda. Það er kaldhæðnislegt að slagorð hans um nauðsyn þess að gera Bandaríkin aftur stórkostleg hefur sjaldan átt eins vel við.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. janúar 2021.