Söguleg innrás
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Ronald Reag­an sór embættiseið sem for­seti Banda­ríkj­anna fyr­ir slétt­um 40 árum, hinn 20. janú­ar 1981. Í inn­setn­ing­ar­ræðu sinni nefndi Reag­an að Banda­ríkja­mönn­um þætti sjálfsagt að á nokk­urra ára fresti færu fram friðsam­leg valda­skipti í land­inu. Hann benti á að fáir veltu fyr­ir sér hve ein­stakt þetta væri, en að frá sjón­ar­hóli margra annarra þjóða væri slíkt fyr­ir­komu­lag hreint krafta­verk.

Þessi orð Reag­ans fengu aukna merk­ingu í vik­unni þegar stjórn­laus hóp­ur hélt beint af stuðnings­manna­fundi Trumps for­seta, gekk þaðan að þing­húsi Banda­ríkj­anna og réðst þar til inn­göngu í því skyni að stöðva þingið í því verk­efni að staðfesta kjör Bidens.

Von­brigði

Þó að fá­ein dæmi séu um byssu- og sprengju­til­ræði í þing­hús­inu hef­ur ekki verið ráðist þar til inn­göngu í næst­um tvö hundruð ár eða síðan 1814, þegar bresk­ir her­menn gerðu þar at­lögu og lögðu eld að bygg­ing­unni. Þá áttu Banda­ríkja­menn og Bret­ar í stríði. Nú hef­ur það gerst í fyrsta sinn að banda­rísk­ir borg­ar­ar gera inn­rás í eigið þing­hús.

Þetta var sögu­leg­ur og ótrú­leg­ur at­b­urður sem sýn­ir að þrátt fyr­ir tveggja alda hefð eru friðsam­leg valda­skipti ekki eins sjálf­sögð og okk­ur hætt­ir til að halda, held­ur þvert á móti krafta­verk sem geng­ur þvert gegn því sem lengi var álitið innsta eðli valds – nefni­lega, að eng­inn léti það ótil­neydd­ur af hendi.

Það eru öll­um unn­end­um frels­is og lýðræðis sár von­brigði að slík­ur at­b­urður skuli eiga sér stað í landi sem hef­ur á sín­um bestu stund­um verið helsti kyndil­beri þeirra gilda í heim­in­um.

Ekki síður tengsl sjálfs for­set­ans við slík­an at­b­urð, en erfitt er að færa rök fyr­ir að hann beri ekki á hon­um neina ábyrgð með her­skáu orðfæri sínu.

For­dæm­ing­ar­laust

Fyrstu viðbrögð for­set­ans voru raun­ar næst­um því jafn sögu­leg og at­b­urður­inn sjálf­ur. Eft­ir inn­rás­ina, sem hafði þá þegar kostað fólk lífið, birti hann mynd­band þar sem hann lét al­ger­lega hjá líða að for­dæma at­b­urðinn held­ur talaði þvert á móti hlý­lega til mót­mæl­enda („We love you“) og hafði ekki fyr­ir því að und­an­skilja þá sem harðast gengu fram. Það er auðvitað með ólík­ind­um. For­dæm­ing­in kom loks í öðru mynd­bandi, rúm­um sól­ar­hring eft­ir árás­ina. En fyrstu viðbrögðin sitja eft­ir og gleym­ast ábyggi­lega seint.

Þess­ir sögu­legu at­b­urðir vekja marg­ar spurn­ing­ar í stóru sem smáu sam­hengi. Um sjálfa inn­rás­ina, hvernig hún gat átt sér stað, hvernig það gat gerst að ónóg­ar varn­ir væru fyr­ir hendi, sem verður vafa­laust rann­sakað, og um þá linkind sem mót­mæl­end­um virðist hafa verið sýnd, ekki síst í sam­an­b­urði við önn­ur mót­mæli í land­inu á und­an­förn­um mánuðum. Um framtíð Re­públi­kana­flokks­ins. Um gjána á milli ólíkra hópa í banda­rísku sam­fé­lagi, or­sak­ir henn­ar og hvort hún gliðnar enn á kom­andi árum eða geng­ur sam­an. Um for­ystu­hlut­verk Banda­ríkj­anna í heim­in­um. Um upp­gang po­púlí­skra öfga­hreyf­inga af ýmsu tagi hérna meg­in Atlants­hafs. Um upp­lýs­inga­óreiðu og hvernig bæði fjöl­miðlar og sam­fé­lags­miðlar eiga að bregðast við henni.

Ég heim­sótti Washingt­on-borg í maí 2017, nokkr­um mánuðum eft­ir að Trump sór embættiseið, og hitti þar marga sem lifa og hrær­ast í stjórn­mál­um og hafa það að at­vinnu að greina stöðu og horf­ur. Eft­ir­minni­legt er hve furðu lostn­ir þeir voru yfir kjöri Trumps og sáu ekk­ert nema óvissu fram und­an. Svo virt­ist sem öll hefðbund­in lög­mál hefðu verið num­in úr gildi. Eng­inn spáði því þó upp­hátt að kjör­tíma­bili hans myndi ljúka með þeim hætti sem nú hef­ur orðið raun­in.

Slag­orð sem á vel við

Ronald Reag­an átti sem kunn­ugt er ræt­ur í „show bus­iness“, sem var stund­um haft til marks um að ekki þyrfti að taka hann al­var­lega sem stjórn­mála­mann. Sú gagn­rýni hef­ur elst illa. Reag­an er sá for­seti sem notið hef­ur hvað mestra vin­sælda allra Banda­ríkja­for­seta við lok valda­tíma síns. Í seinni tíma skoðana­könn­un­um hef­ur hann líka iðulega verið hátt skrifaður, sér­stak­lega meðal al­menn­ings en líka hjá sér­fræðing­um í sögu og stjórn­mál­um.

Hvað sem segja má um Trump hef­ur bak­grunn­ur hans í „show bus­iness“ ekki dregið úr nauðsyn þess að taka hann al­var­lega sem stjórn­mála­mann, þó að það sé ekki af þeim ástæðum sem flest­ir telja eft­ir­sókn­ar­vert.

For­set­ar Banda­ríkj­anna eiga það flest­ir sam­eig­in­legt að hafa lagt metnað í að stíga af sviðinu með sæmd þegar hlut­verki þeirra er lokið. Öld­unga­deild­arþingmaður­inn Cor­ey Booker sagði ein­mitt í umræðum eft­ir óeirðirn­ar að þær væru af­leiðing þess þegar per­sónu­dýrk­un keyr­ir úr hófi fram. En í lýðræðis­ríki er eng­inn stærri en það hlut­verk sem hann gegn­ir. Um Trump munu eft­ir­mæl­in lík­lega verða þau að hann hafi ekki verið nógu stór í hlut­verkið.

Fjög­urra ára valdatíð hans er nú senn á enda. Það er kald­hæðnis­legt að slag­orð hans um nauðsyn þess að gera Banda­rík­in aft­ur stór­kost­leg hef­ur sjald­an átt eins vel við.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10. janúar 2021.