Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra:
Við komum bjartsýn inn í árið 2020. Við vorum í sókn til betri lífskjara og höfðum sýnt fyrirhyggju með því að nýta góð ár til að styrkja samfélagslega innviði.
Ekki leið á löngu þar til örlögin höfðu tekið málin í sínar hendur og verkefni landsmanna breyttust í samræmi við það. Segja má að árið hafi hafist með óveðri og hörmungum fyrir vestan og endað með hörmungum fyrir austan. Snjóflóðin við Flateyri og Suðureyri voru óþægileg áminning um hve grátt náttúran hefur leikið íbúa á svæðinu í gegnum tíðina. Aurskriðurnar á Seyðisfirði breyttu ekki bara ásýnd þessa gullfallega bæjar heldur skildu eftir ónot og óöryggi hjá bæjarbúum.
Það var ekkert minna en kraftaverk að mannskaði skyldi hvorugu sinni hljótast af. Þá er ekki síður kraftaverki líkast að sjá hverju samtakamátturinn í þessum samfélögum fær áorkað, með öflugum stuðningi frá björgunarfólki, sjálfboðaliðum og öðru framlínufólkinu eftir slíka atburði. Það eru verðmæti sem engar vísitölur ná yfir.
Þessi samtakamáttur hefur verið einkennandi í viðbrögðum okkar við heimsfaraldri kórónuveirunnar. Og nú við lok árs er það einmitt þetta sem stendur upp úr. Æðruleysið og krafturinn í samfélaginu öllu þegar náttúruhamfarir og heimsfaraldur reyna á styrk okkar og þolgæði.
Á traustum grunni
Við sem byggjum þessa eyju höfum reynslu margra kynslóða af því að náttúruöflin og óviðráðanlegar ytri aðstæður geta ráðið miklu um lífsafkomuna. Sú bjarta framtíð sem við horfðum til í upphafi árs var ekki byggð á vissu um að allt myndi ganga að óskum. Við gátum horft bjartsýnum augun fram á veginn vitandi að ef aðstæður breyttust og þær reyndu á styrk okkar höfðum við gert ráðstafanir og búið í haginn. Greitt niður skuldir og sýnt fyrirhyggju, safnað forða og styrkt efnahagslega og félagslega innviði.
Á þessum grunni gátum við sagt strax í upphafi faraldursins að við ætluðum að bregðast við af krafti og viðbrögð okkar myndu einkennast af því að við vildum heldur gera meira en minna. Markmið okkar hafa verið skýr: að verja heilsu landsmanna og lágmarka á sama tíma efnahagslegt tjón af útbreiðslu veirunnar. Það er best gert með því að standa með fólki sem tapað hefur starfinu og fyrirtækjum sem upplifa tekjuhrun.
Leiðin út úr efnahagslægðinni liggur í gegnum atvinnulífið. Öllu skiptir að fyrirtæki geti fundið viðspyrnu og sótt fram á nýju ári eftir því sem allar ytri aðstæður verða hagfelldari. Með því fjölgar störfum og hjólin fara að snúast á ný.
Í því skyni höfum við undanfarna mánuði teflt fram fjölmörgum úrræðum. Má þar nefna ráðningarstyrki, hlutabætur, laun í sóttkví, tekjutengdar atvinnuleysisbætur, ferðagjöf, tekjufallsstyrki, lokunarstyrki, viðspyrnustyrki og þannig mætti áfram telja. Við höfum sömuleiðis innleitt frestanir og endurgreiðslur skatta og gjalda og haldið áfram skattalækkunum. Á sama tíma höfum við varið velferðarkerfin, stóraukið stuðning við nýsköpun og umbylt þjónustu ríkisins með stafrænum lausnum. Ekki má gleyma sérstöku fjárfestingaátaki í samgöngum sem við höfum þegar hrint af stað.
Um áramótin lækka skattar á laun annað árið í röð, tryggingagjaldið lækkar tímabundið og fjármagnstekjuskattur verður sanngjarnari. Á næsta ári ætlum við að hvetja til aukinna fjárfestinga í grænum lausnum með skattalegum ívilnunum og ég hef lagt fyrir þingið tillögur til breytinga á skattareglum í þágu almannaheillastarfsemi í landinu. Skattkerfið þarf betur að bera með sér að við kunnum virkilega að meta allt það mikilvæga starf.
Í þessum anda viljum við halda áfram.
Allt tekur þetta enda
Þótt líkamleg veikindi, smittölur, sóttkví og efnahagsáföll hafi átt sviðið í almennri umfjöllun ársins má ekki vanmeta áhrifin af þessum áföllum á andlega heilsu landsmanna. Þar getur óvissan um framvinduna orðið sjálfstæð uppspretta vanlíðunar því skiljanlega er þolinmæði þeirra sem óttast um heilsu sína eða hafa tapað lífsviðurværi sínu af skornum skammti. Í upphafi vonuðumst við til að ástandið myndi ekki vara nema í nokkra mánuði, svo mögulega út árið og hér erum við enn, um tíu mánuðum síðar, að skipuleggja okkur fyrir árið 2021.
Heilbrigðisstarfsfólk hefur lyft grettistaki undir stöðugu álagi. Kennarar allt frá leikskólastigi upp í háskóla halda áfram að mennta næstu kynslóðir í krefjandi umhverfi. Viðbragðsaðilar á öllum sviðum sinna útköllum og verkefnum í erfiðum aðstæðum, oftar en ekki útsettir fyrir smitum. Atvinnurekendur og einyrkjar hafa þurft að opna og loka rekstri sínum í samræmi við sveiflur faraldursins og starfsfólk víða þurft að minnka starfshlutfall eða jafnvel leita á ný mið. Áfram mætti lengi telja.
Börnin okkar hafa misst af skóla, íþróttum og dýrmætum stundum með vinum sínum og leikfélögum. Framhalds- og háskólanemar hafa þurft að mynda og rækta vinasambönd gegnum tölvuskjái, en ekki á böllum og skemmtunum. Við foreldrarnir þurfum að útskýra þetta allt saman samhliða auknum byrðum, meiri áhyggjum og færri samverustundum með vinum okkar og vinnufélögum.
Við megum öll vera stolt af því hverju við sem samfélag höfum áorkað á krefjandi og erfiðum tímum. Með sama hugarfari mun staðan halda áfram að batna dag frá degi, því allt tekur þetta enda.
Stóru stundirnar
Afrek Íslendinga hafa síst verið færri á þessu óvenjulega ári en önnur ár. Skemmst er að minnast óskarsverðlauna Hildar Guðnadóttur fyrir tónsmíðar og kvennalandsliðið heldur áfram að feta sigurbrautina á knattspyrnuvellinum með sigurvegara í Meistaradeild Evrópu í fyrirliðastöðu. „Það verður erfitt að toppa þetta ár,“ sagði hún þegar hún tók við titlinum Íþróttamaður ársins. Það voru orð að sönnu.
Vísindamenn okkar, með Íslenska erfðagreiningu fremsta í flokki, hafa unnið stórmerkilegt starf á árinu og lagt heiminum öllum lið við greiningar og þróun lausna í heimsfaraldrinum. Sóttvarnalæknir Íslands vakti fyrstur formlega athygli á því er virtist vera uppruni gríðarlegs smits í Ölpunum og þríeykið hefur miðlað víða því sem lagt hefur grunn að góðum árangri innanlands. Controlant hlaut í nóvember Nýsköpunarverðlaun Íslands 2020 en lausnir fyrirtækisins leika stórt hlutverk við að tryggja örugga dreifingu á bóluefni um allan heim.
Land tækifæranna
Við finnum að það birtir til með hverjum deginum. Daginn tók að lengja á ný fyrir tíu dögum og á næstu mánuðum mun jafnframt birta til í efnahags- og sálarlífi þjóðarinnar. Fyrstu Íslendingarnir voru bólusettir fyrir kórónuveirunni hér á landi í vikunni og fram undan er mikið verk við bólusetningar og endurreisn hagkerfisins. Þessi þjóð hefur áður brotist út úr erfiðum aðstæðum og staðið sterkari á eftir. Sama verður upp á teningnum nú.
Samfélag okkar byggist á því fólki sem hér býr. Fólki sem hefur með dugnaði, sköpunargleði og þrautseigju gert afskekkta eldfjallaeyju í norðri að einu mesta velferðarsamfélagi heims. Samfélagi sem vill að allir fái að nýta krafta sína og hafi hvata til að sækja fram á eigin verðleikum. Það eru þessir styrkleikar sem munu umfram annað koma okkur aftur á réttan kjöl.
Ísland er land tækifæranna. Með þeim dugnaði, framtakssemi og óbilandi trú á framtíð lands og þjóðar sem lagði grunn að þeirri stöðu getum við gert næsta ár að ári tækifæranna. Í lífi hvers og eins og um leið heillar þjóðar.
Gleðilegt nýtt ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2020.