Lækkun skatta og skýrir valkostir
'}}

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Sjálfsagt munu stjórn­mála­menn, með dyggri aðstoð hag­fræðinga, aldrei hætta að deila um hvernig skyn­sam­leg­ast sé að bregðast við efna­hags­leg­um sam­drætti. Jafn frá­leitt og það hljóm­ar eru marg­ir þeirr­ar skoðunar að best sé að minnka súr­efnið til at­vinnu­lífs­ins og heim­il­anna, með hækk­un skatta og gjalda. Ekki eru mörg ár síðan rík­is­stjórn brást við efna­hags­legu áfalli með þeim hætti. En jafn­vel ein­fald­ur lær­dóm­ur vefst fyr­ir mörg­um, ekki síst þeim sem telja ríkið upp­haf og endi alls – hina eig­in­legu upp­sprettu verðmæta.

Í ág­úst síðastliðnum ít­rekaði ég, í grein á síðum Morg­un­blaðsins, að það vit­laus­asta sem hægt væri að gera í efna­hags­leg­um þreng­ing­um vegna far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar væri að „freista þess að auka tekj­ur rík­is­ins með þyngri álög­um á fyr­ir­tæki og/​eða heim­ili“. Í þeim leik tæki ég ekki þátt: „En að opna fyr­ir súr­efniskr­ana skatta og gjalda er ekki aðeins skyn­sam­leg leið held­ur arðbær fjár­fest­ing til framtíðar fyr­ir rík­is­sjóð og al­menn­ing. Tekju­grunn­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga verður styrk­ari til lengri tíma og ráðstöf­un­ar­tekj­ur launa­fólks meiri. Þetta er ekki flókn­ara.“

Allt frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók sæti í rík­is­stjórn 2013 hef­ur verið unnið að því að lag­færa skatt­kerfið, – gera það sam­keppn­is­hæf­ara við önn­ur lönd hvort held­ur þegar kem­ur að fyr­ir­tækj­um eða ein­stak­ling­um. Á stund­um hef­ur gengið hægt að koma um­bót­um í gegn enda engu lík­ara en öskr­andi ljón standi í veg­in­um. En það hef­ur miðað í rétta átt.

Þegar kem­ur að um­bót­um í skatta- og gjalda­kerfi rík­is­ins reynd­ist árið 2020 gott – eig­in­lega sér­lega gott þegar erfiðar aðstæður eru hafðar í huga. Sam­hliða um­fangs­mikl­um aðgerðum til að styðja beint við at­vinnu­lífið og heim­il­in, hafa mik­il­væg skref verið tek­in til að auka sam­keppn­is­hæfni lands­ins til fram­búðar.

Hér verða nokk­ur dæmi nefnd.

Tekju­skatt­ur ein­stak­linga lækk­ar

Vegna breyt­inga á lög­um um tekju­skatt sem Bjarni Bene­dikts­son beitti sér fyr­ir sem fjár­málaráðherra lækkaði tekju­skatt­ur ein­stak­linga á ár­un­um 2014 til 2018 um 25 millj­arða á árs­grund­velli með til­heyr­andi hækk­un ráðstöf­un­ar­tekna heim­il­anna.

Enn rót­tæk­ari kerf­is­breyt­ing­ar í tíð sitj­andi rík­is­stjórn­ar hafa tryggt frek­ari lækk­un með inn­leiðingu nýs lægra skattþreps. Fyrra skrefið var tekið í byrj­un þessa árs og það síðara verður stigið í byrj­un nýs árs. Með breyt­ing­un­um verður tekju­skatt­ur ein­stak­linga um 21 millj­arði króna lægri á ári en að óbreytt­um regl­um. Þessi lækk­un kem­ur fyrst og síðast þeim til hags­bóta sem eru í lægstu tekju­hóp­un­um en fólk með meðal­tekj­ur nýt­ur einnig góðs af.

Líkt og ég þreyt­ist ekki á að taka fram hef ég aldrei verið hrif­inn af margþrepa tekju­skatt­s­kerfi. Miklu fýsi­legra er að hafa eitt skattþrep með breyti­leg­um per­sónu­afslætti sem lækk­ar eft­ir því sem tekj­ur hækka. En í ljósi þess að kerf­is­breyt­ing­arn­ar tryggðu lækk­un tekju­skatts studdi ég þær heils­hug­ar.

Trygg­inga­gjald lækk­ar enn

Þriðja árið í röð lækk­ar trygg­inga­gjaldið og verður 6,10% á kom­andi ári. Þar með hef­ur gjaldið lækkað um 0,75%-stig á kjör­tíma­bil­inu og um 1,59%-stig frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók sæti í rík­is­stjórn og Bjarni Bene­dikts­son sett­ist í stól fjár­málaráðherra árið 2013. Þetta er liðlega 20% lækk­un á gjaldi sem leggst á launa­greiðslur fyr­ir­tækja og er sér­stak­lega íþyngj­andi fyr­ir lít­il fyr­ir­tæki og fyr­ir­tæki í vexti.

Lækk­un trygg­inga­gjalds á nýju ári nem­ur um fjór­um millj­örðum króna.

End­ur­greiðsla virðis­auka­skatts

End­ur­greiðslu­hlut­fall virðis­auka­skatts vegna vinnu á bygg­ing­arstað við ný­bygg­ingu, viðhald og end­ur­bæt­ur íbúðar­hús­næðis var hækkað úr 60% í 100% á liðnu vori. Heim­ild til end­ur­greiðslu var jafn­framt víkkuð út og tek­ur m.a. til frí­stunda­hús­næðis, mann­virkja í eigu til­tek­inna fé­laga­sam­taka og bílaviðgerða.

Það þarf ekki mikl­ar rann­sókn­ir til að kom­ast að því að hækk­un á end­ur­greiðslu heppnaðist sér­lega vel. Létti und­ir með ein­stak­ling­um og fé­laga­sam­tök­um og studdi vel við at­vinnu iðnaðarmanna.

End­ur­greiðslan hef­ur verið fram­lengd út kom­andi ár og er reiknað með að alls verði um níu millj­arðar króna end­ur­greidd­ir vegna þessa. Í huga þess er hér skrif­ar eru rök til þess að fast­setja fulla end­ur­greiðslu til ein­stak­linga til fram­búðar, enda skatta­leg íviln­un sem all­ir hagn­ast á.

Byggt und­ir framtíðina

Í fjár­lög­um fyr­ir yf­ir­stand­andi ár var gert ráð fyr­ir að end­ur­greiðslur til fyr­ir­tækja vegna rann­sókna- og þró­un­ar­kostnaðar yrðu liðlega 3,9 millj­arðar. Auk­inn kraft­ur í ný­sköp­un og laga­breyt­ing­ar hafa hins veg­ar leitt til þess að end­ur­greiðslurn­ar verða mun um­fangs­meiri eða tæp­ir 5,2 millj­arðar. Á kom­andi ári er reiknað með að end­ur­greiðslur nemi um 10,2 millj­örðum.

Í raun er end­ur­greiðsla vegna rann­sókna og þró­un­ar fjár­fest­ing í framtíðinni – fjár­fest­ing í nýj­um tæki­fær­um og störf­um, þar sem lagður er grunn­ur að fjöl­breytt­ara at­vinnu­lífi. Stefna stjórn­valda und­ir for­ystu Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur ný­sköp­un­ar­ráðherra er að styðja við ný­sköp­un á markaðsleg­um for­send­um, ekki aðeins með end­ur­greiðslum held­ur einnig hækk­un á fram­lög­um til Tækniþró­un­ar­sjóðs og með stofn­un Kríu. Fyrr á þessu ári var skatta­afslátt­ur til ein­stak­linga vegna fjár­fest­inga í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um hækkaður tíma­bundið úr 50% í 75% af fjár­hæð fjár­fest­ing­ar. Sam­hliða voru fjár­hæðarmörk hækkuð úr tíu millj­ón­um í 15 millj­ón­ir.

Stefn­an er að bera ávöxt. Fjár­fest­ar hafa lagt ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um til um 17 millj­arða króna á þessu ári og þar af eru um 12 millj­arðar er­lent áhættu­fé.

Hækk­un frí­tekju­marks fjár­magn­stekna

Frí­tekju­mark fjár­magn­stekna verður tvö­faldað – hækkað úr 150 í 300 þúsund krón­ur á kom­andi ári. Um leið nær frí­tekju­markið til arðs og sölu­hagnaðar skráðra hluta­bréfa auk vaxta­tekna. Hækk­un frí­tekju­marks­ins kem­ur sér hlut­falls­lega best fyr­ir þá ein­stak­linga og hjón sem hafa tak­markaðar fjár­magn­s­tekj­ur en nýt­ist þeim ekki sem njóta fjár­magn­stekna af óskráðum fé­lög­um, s.s. arðgreiðslna einka­hluta­fé­laga. Með þessu er ýtt und­ir sparnað og hvatt til fjár­fest­inga ein­stak­linga í skráðum fé­lög­um. Þetta er í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að auka beina þátt­töku al­menn­ings í at­vinnu­líf­inu, en þess er að vænta að fjár­málaráðherra leggi fram frum­varp á nýju ári um skatta­afslátt ein­stak­linga vegna hluta­bréfa­kaupa. (Þess ber að geta að frum­varp sama efn­is er til meðferðar hjá efna­hags- og viðskipta­nefnd þings­ins, en flutn­ings­menn eru sjö þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins og er sá er þetta skrif­ar fyrsti flutn­ings­maður).

Um það verður ekki deilt að skil­virk­ur hluta­bréfa­markaður er óaðskilj­an­leg­ur frá öfl­ugu efna­hags­lífi og hag­vexti þjóða. Skatta­leg­ir hvat­ar til að styðja við skipu­leg­an hluta­bréfa­markað og tryggja fyr­ir­tækj­um greiðan aðgang að áhættu­fjár­magni, ekki aðeins frá stofnana­fjár­fest­um held­ur ekki síður með beinni þátt­töku al­menn­ings, munu skipta miklu í viðspyrnu efna­hags­lífs­ins á kom­andi árum.

Sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist veru­lega sam­an á þessu ári. Á þriðja árs­fjórðungi nam sam­drátt­ur­inn um 21,8% borið sam­an við sama tíma­bil fyrra árs. Fyrstu níu mánuði árs­ins er áætlað að at­vinnu­vega­fjár­fest­ing hafi dreg­ist sam­an um 9,9% að raun­gildi borið sam­an við fyrstu níu mánuði árs­ins 2019. Í þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar er reiknað með að at­vinnu­vega­fjár­fest­ing drag­ist sam­an um 12,6% á ár­inu, sem kem­ur í kjöl­far mik­ils sam­drátt­ar á síðasta ári eða 18%.

Sam­drátt­ur í fjár­fest­ing­um fyr­ir­tækja er áhyggju­efni enda for­senda framþró­un­ar í at­vinnu­líf­inu og þar með verðmæta­sköp­un­ar sam­fé­lags­ins. Það um­hverfi lágra vaxta sem við búum við í dag ætti að öðru jöfnu að örva fjár­fest­ingu og því er sam­drátt­ur í fjár­fest­ingu meira áhyggju­efni en ann­ars. Auðvitað spil­ar óvissa um þróun efna­hags­mála hér inn í en skatta­leg um­gjörð skipt­ir einnig miklu. Hár fjár­magn­s­tekju­skatt­ur ýtir til dæm­is ekki und­ir fjár­fest­ingu held­ur dreg­ur úr henni.

Rang­læti leiðrétt

Það var sér­stak­lega ánægju­legt að taka þátt í því skömmu fyr­ir jól að leiðrétta ára­langt rang­læti vegna skatt­lagn­ing­ar sölu­hagnaðar frí­stunda­húsa með til­heyr­andi skerðing­um á rétt­ind­um al­manna­trygg­inga. Frá og með kom­andi ára­mót­um verður sölu­hagnaður frí­stunda­hús­næðis, sem nýtt hef­ur verið til eig­in nota, verið í eigu viðkom­andi í sjö ár eða leng­ur og fell­ur und­ir stærðarmörk laga, ekki leng­ur skattlagður og viðkom­andi mun ekki sæta skerðing­um á rétt­ind­um al­manna­trygg­inga. Þessi breyt­ing kem­ur ekki síst eldri borg­ur­um til góða.

Annað rétt­læt­is­mál var hækk­un skatt­frels­is­marka erfðafjárskatts úr 1,5 millj­ón­um í fimm millj­ón­ir króna. Hækk­un­in nýt­ist sér­stak­lega ein­stak­ling­um sem fá út­hlutaðan arf úr eignaminnstu dán­ar­bú­un­um en miðað við álagn­ingu 2020 eru um 23% dán­ar­búa und­ir fimm millj­ón­um að heild­ar­verðmæti.

Sá er þetta skrif­ar lagði fram frum­varp um þrepa­skipt­ingu erfðafjárskatts, sem náði ekki fram að ganga. Þar var lagt til að skatt­ur­inn yrði 5% af eign­um dán­ar­bús und­ir 75 millj­ón­um króna og 10% af því sem um­fram er. Með samþykkt frum­varps­ins hefði tvö­föld­un erfðafjárskatts árið 2010 gengið að mestu til baka. Hitt er svo annað að við eig­um að taka frænd­ur okk­ar í Nor­egi og Svíþjóð til fyr­ir­mynd­ar í þess­um efn­um, en þar er erfðafjárskatt­ur ekki lagður á.

Kosn­inga­ár

Hér hef­ur fyrst og síðast verið horft til lækk­un­ar skatta sem náðst hef­ur á ár­inu sem senn er að baki. Hitt er rétt að ýmis gjöld hafa verið hækkuð (ekki síst í takt við þróun verðlags) en sú hækk­un er aðeins brot af þeim lækk­un­um hafa náðst fram. Við stefn­um því í rétta átt. Sú staðreynd stend­ur hins veg­ar óbreytt að Ísland er háskatta­land í alþjóðleg­um sam­an­b­urði.

Eitt stærsta verk­efnið á nýju kjör­tíma­bili verður að tryggja sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins og þar skipt­ir skatt­byrði miklu en ekki síður hvaða og hvernig skatt­ar eru lagðir á. Ein teg­und skatt­heimtu kann að verða skyn­sam­leg á meðan önn­ur drep­ur allt í dróma. Það skal t.d. viður­kennt að ég hef vax­andi efa­semd­ir um álagn­ingu kol­efn­is­gjalds með þeim hætti sem gert hef­ur verið. Vís­bend­ing­ar eru um að kol­efn­is­gjaldið, und­ir hatti grænna skatta, skili ekki þeim ár­angri sem stjórn­völd stefna að.

Kom­andi ár er kosn­inga­ár. Í sept­em­ber leggja kjós­end­ur lín­urn­ar. Í ein­fald­leika sín­um er valið nokkuð skýrt; lægri skatt­ar eða hærri, auk­in sam­keppn­is­hæfni eða minni, meiri verðmæta­sköp­un eða sam­drátt­ur, ný­sköp­un og einka­rekst­ur eða auk­in rík­is­um­svif. Með vali sínu ráða kjós­end­ur því hvort við sem sam­fé­lag höf­um efni á því að halda áfram að byggja upp öfl­ugt vel­ferðar­kerfi og góð lífs­kjör.

Að þessu sögðu óska ég les­end­um og lands­mönn­um öll­um gleðilegs árs. Megi kom­andi ár verða öll­um gæfu­ríkt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2020.