Fæðuöryggi og neytendavernd meðal áherslna í nýrri matvælastefnu
'}}

„Það kom mér töluvert á óvart þegar ég kom inn í þennan málaflokk að það lá ekki fyrir nein stefnumótun fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýja matvælastefnu fyrir Ísland sem var kynnt í síðustu viku, en hann og Vala Pálsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um mótun nýrrar matvælastefnu fyrir Ísland voru gestir í 41. þætti Pólitíkurinnar í þessari viku. Þáttinn má nálgast hér.

„Nýju þættirnir sem við erum að setja fram eru aukið vægi neytenda, að styrkja vægi neytenda á Íslandi. Þeir hafa heilmikil áhrif með ákvarðanatöku þegar þeir eru að versla. Þetta snýst ekki bara um að hann (neytandinn) sé upplýstur heldur um að það sé verið að miðla betur upplýsingum. Það er á ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og söluaðila líka. Þetta verður allt að tala hvort við annað. Hins vegar þátturinn sem snýr að heilsu. Stór hluti dauðsfalla fyrir Covid mátti rekja til lífstílstengdra sjúkdóma. Við vitum svarið við sumum þeirra, að huga betur að heilsu og matarræði. Að tengja þetta saman er góður grunnur þegar við horfum til matvæla,“ segir Vala um nýjar áherslur í stefnunni.

Frumvarp um einföldun eftirlitskerfis á vorþingi

Ný matvælastefna fyrir Ísland var sem fyrr segir kynnt í síðustu viku, en þar er um að ræða mjög metnaðarfullt og yfirgripsmikið skjal sem unnið var þverfaglega með aðkomu helstu hagsmunaaðila. Það var Kristján Þór Júlíusson sem kom verkefninu af stað, en það er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í þættinum ræða þau Vala og Kristján Þór um tilurð stefnunnar, helstu niðurstöður og um innleiðingu á aðgerðaáætlun sem er í rúmlega þrjátíu liðum – en margir þeirra eru nú þegar í vinnslu á vegum ráðuneytisins m.a. frumvarp um einföldun á eftirlitskerfi matvæla. Annað verkefni snýr að betri merkingum matvæla. Eins er ný landbúnaðarstefna í vinnslu á vegum ráðuneytisins undir forystu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra.

Í aðgerðaáætluninni er komið inn á fjölmörg atriði, sjálfbærni, neytendavernd, eftirlitskerfi, nýsköpun, matvælarannsóknir, lífhagkerfið, merkingar á matvælum og fæðuöryggi svo fátt eitt sé nefnt.

Vala segir að stefnan hafi verið unnin í góðri sátt, en við borðið sátu m.a. bæði fulltrúar neytenda og innlendra framleiðenda. Þau hafa bæði fengið mjög jákvæð viðbrögð við stefnunni frá því að hún var kynnt – en stefnuna í heild sinni má finna hér og aðgerðaáætlunina hér.

Vefsíða nýrrar matvælastefnu er: matvælastefna.is