Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Hvort sem okkur líkar betur eða verr hverfist líf okkar um hin ýmsu kerfi. Skólakerfið förum við öll í gegnum, heilbrigðiskerfið er í eldlínunni þessi dægrin og hin ýmsu bótakerfi grípa þá sem á þurfa að halda.
Að baki þessu öllu saman býr svo skattkerfið. Kerfi sem er mikilvægt en á sama tíma vandmeðfarið. Skattheimtan þarf að standa undir samneyslunni, en má ekki vera svo íþyngjandi að dragi úr framtakssemi. Leikreglurnar mega heldur ekki vera of flóknar eða ósanngjarnar í garð eins hóps umfram aðra.
Um hið síðastnefnda eru nærtæk dæmi. Samkvæmt gildandi reglum þarf einstaklingur sem selur aukaíbúð ekki að greiða skatt af söluhagnaðinum, að því gefnu að hann hafi átt íbúðina í tvö ár og eigi einungis íbúðarhúsnæði sem nemur tilteknu hámarki.
Eigi þessi sami einstaklingur ekki aukaíbúð, heldur sumarhús, er söluhagnaðurinn hins vegar ávallt skattskyldur og getur komið til skerðingar á tekjutengdum bótum. Í þessu felst misræmi og óréttlæti, sem sérstaklega bitnar á eldra fólki.
Til að leiðrétta þetta mælti ég á dögunum fyrir lagabreytingu þar sem söluhagnaður sumarhúss verður skattfrjáls með sama hætti, hafi seljandi átt húsið í minnst fimm ár. Þannig verður skattheimtan bæði einfaldari og sanngjarnari.
Sanngirni er þó ekki eina markmiðið, þótt það eigi alltaf að vera leiðarljós. Skattkerfið má nefnilega einnig nýta sem beinan hvata til góðra verka og þar geta sjáanlega litlar breytingar haft umtalsverð áhrif.
Samhliða sumarhúsabreytingunni mælti ég þannig fyrir tillögu um hækkun frítekjumarks vaxtatekna úr 150 þúsund krónum á ári í 300 þúsund krónur. Enn mikilvægari er þó sú tillaga að frítekjumarkið nái einnig til arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í skráðum félögum. Breytingin næði bæði til félaganna á aðalmarkaði Kauphallarinnar sem og lítilla og meðalstórra vaxtarfélaga á First North-markaðstorginu.
Þannig verður auðveldara að ávaxta sparifé með fjölbreyttari hætti og á sama tíma er stuðlað að mikilvægri viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Með þátttöku almennings á markaði fá íslensk fyrirtæki vind í seglin og geta ráðið og haldið starfsfólki. Ávinningurinn er allra.
Breytingarnar sem hér var lýst eru einungis þrjár af fjölmörgum sem við höfum lagt til og ætlum að leggja til. Verkefnið er alltaf yfirstandandi. Í því verkefni er mikilvægt að réttu sjónarmiðin ráði för. Skattheimta á að vera hófleg, sanngjörn og hvetjandi.
Skattkerfið er eftir allt saman, eins og öll hin kerfin, smíðað af fólki fyrir fólk. Þannig eiga breytingarnar líka að vera, fyrir fólk.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2020.