Erro, Kjarval og Kirkjubæjarklaustur
'}}

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður skrifar:

Þegar pest lýkur og padda er frá, er alveg öruggt mál að ferðaþjónusta spyrnir við fótum. Erlendir ferðamenn munu vilja halda áfram að koma til landsins. Ísland er og verður áfangastaður ferðamanna frá Ameríku, Evrópu og Asíu.

Því er rétt að huga að því hvað ferðamenn hafa að gera hingað til lands

Í grófum dráttum má skipta ferðamönnum í tvennt.

Ein tegund eru ferðamenn í viðskiptaerindum. Þau erindi geta ýmist verið vegna einstakra viðskipta eða að sækja ráðstefnur og fundi.

Önnur tegund ferðamanna eru þeir sem ferðast í frístundum sínum, einstaklingar, fjölskyldur og hópar í skipulegum ferðum.

Að þessu sögðu, þá er vert að minna á að ferðaþjónusta er útflutningsatvinnugrein. Það er fyrst og fremst sala á þjónustu en að hluta til vöru, í öllu falli því hráefni sem fer í mat.

Það skal einnig minnt á að aðrar útflutningsatvinnugreinar greiða engan virðisaukaskatt af vöru sem framleidd er til útflutnings. Það á við sjávarútveg og málmframleiðslu.

Sennilega eru jaðaráhrif virðisaukaskatts af ferðaþjónustu sem næst 35 milljörðum á ári í eðlilegu árferði. Þess er ekki langt að bíða að ferðaþjónustan geti selt sína gestrisni.

Söfn og áfangastaðir

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Söfn á landsbyggðinni eru dálítið hvert öðru lík. Áhersla er lögð á söfnun muna úr atvinnuháttum fortíðar. Erlendir ferðamenn eiga erfitt með að ná þeirri tengingu, sem Íslendingar ná við fortíðina á þessum söfnum.

Það hlýtur að verða verkefni í uppbyggingu ferðamannastaða að auka fjölbreytni í áfangastöðum ferðamanna hringinn um landið. Göngustígar og náðhús eru ágæt til sinna þarfa, jafnvel nauðsynleg.

Uppbygging á aðstöðu vegna ferðaþjónustu þarf að komast út úr þessum þrönga farvegi göngustíga og náðhúsa. Veitingahús við þjóðveginn hafa varla náð út fyrir bensínstöð og vegasjoppu.

Ísland hefur þrátt fyrir allt nokkra möguleika á að menningartengja ferðaþjónustu.

Myndlist og ferðaþjónusta

Myndlist getur haft einstaka tengingu við ferðaþjónustu. Íslensk myndlist hefur margar tilvísanir.

Ein tilvísun er upphafið landslag frumherja íslenskrar myndlistar. Í upphafi síðustu aldar komust örfáir Íslendingar í nám í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn og héldu síðar til Ítalíu, Frakklands, Þýskalands og Noregs. Vissulega gengu þeir inn í hefðir síns tíma en frumherjarnir sköpuðu sinn persónulega stíl.

Þrátt fyrir að standa jafnfætis málurum í Evrópu á sinni tíð, náðu þessir frumherjar íslenskrar myndlistar ekki inn á heimskortið. Ef til vill hefði gengið betur ef »Fjallamjólk« Kjarvals hefði selst til Museum of Modern Art í New York fyrir hluta af auði Rockefellers. Eða að myndin hefði endaði í kjallaranum og horfið!

Önnur tilvísun eru málarar formbyltingarinnar sem komu fram um og eftir síðari heimsstyrjöld. Þeir sóttu sína menntun til Frakklands og Bandaríkjanna.

Í því sambandi kemur mér í hug upplifun mín í safni í Washington. Sem ég horfi á mynd eftir Wassily Kandinsky, þá heyri ég sagt: »Þessa mynd sá ég á sýningu í Chicago 1946.« Mikið þótti mér Bandaríkjamaðurinn góður í íslensku! Þegar ég sný mér við sé ég einn íslenska formbyltingarmanninn með konu sinni!

Svo kemur það sem við getum kallað samtímamyndlist. Myndlistarmenn samtímans hafa sótt sína menntun víða.

Erro á Kirkjubæjarklaustri

Einn samtímamanna okkar, Erro, Guðmundur Guðmundsson, er í senn heimsmaður og heimamaður. Fæddur í Ólafsvík, alinn upp á Kirkjubæjarklaustri og býr í París. Ef til vill hefur Erro aldrei komist úr því að vera Klausturbúi og íslenskur sveitamaður. Verk Erro hafa alþjóðlega tengingu. Ferðamenn eiga betur með að skilja meiningu Erro en íslensk amboð.

Í Reykjavík er stórt Erro-safn. Það er ekki ofraun að tengja Erro við Kirkjubæjarklaustur.

Það er vel til fundið að það skuli verða Erro-sýning á þeim góða áfangastað sem Kirkjubæjarklaustur er.

Verk listamanna skulu vera til sýnis, heimamönnum og ferðamönnum til heilla.

Kjarval á Klaustri

Kjarval fæddist í Efri-Ey í Meðallandi. Þrátt fyrir að uppeldið og mótunarárin hafi verið í Borgarfirði eystra, þá var hann alltaf úr Meðallandinu og á Kirkjubæjarklaustri var Kjarval heimamaður. Það kann að vera að Kjarval verði heimslistamaður á heimaslóð sinni.

Vissulega er stórt og veglegt listasafn Kjarvals í Reykjavík. En Kjarval er þjóðareign. Þess vegna á hann einnig að vera á Kirkjubæjarklaustri.

Verkefni fyrir söfnin

Ekkert gerist af sjálfu sér. Íslenskt safnafólk vinnur mjög merkilegt starf við varðveislu þjóðararfsins. Sögu Kirkjubæjarklausturs eru gerð skil og kapella Jóns Steingrímssonar er listaverk. Ekki má gleyma sköpunarverki almættisins í sexköntuðu kirkjugólfi.

Varðveisla er eitt en kynning er annað. Íslenskt safnafólk hefur haldið mjög fróðlegar kynningar á íslenskri myndlist í tengslum við einstakar sýningar. Svo markaðsfræðin verði tengd við söfn, þá hafa söfn tvo markhópa. Þeir eru Íslendingar og tengsl landans við menningararfinn. Og hinn markhópurinn eru þeir 30.000 gestir sem eru á landinu hverju sinni. Erlendir ferðamenn eru dálítið landlausir þegar þeir koma í íslensk söfn. Íslenskir leiðsögumenn hafa skyldur við sína viðskiptavini að kynna menningararfinn.

Það er verkefni að horfa á íslensk söfn frá sjónarhorni markaðsfræðinnar, ekki aðeins varðveisla og kynning gagnvart Íslendingum.

Tengsl listamanna við einstaka staði er verkefni víða um land. Að minna á tengsl er verkefni. Verkefnið er fjárfesting, sem mun skila sér.

Hvað sagði dómkirkjuprestur?

„Ein er mynd mynda og það er lífsmynd vor, sú er vér gerum. Aðrar myndir eru góðar ef þær sýna hvar oss sé áfátt og hvernig vér getum bætt vorn lifnað.“

Sr. Sigurður Stefánsson

Og „maður verður listamaður á því einu að vanda smáatriðin - allt hitt gerir sig sjálft“.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu föstudaginn 20. nóvember 2020.