Ásmundur Friðriksson alþingismaður:
Líklega er leitun að meira taktleysi í tillöguflutningi í þinginu en finna má í þingsályktunartillögu 18 þingmanna um bjóða konum frá Evrópulöndum að ferðast til Íslands í fóstureyðingar. Framsögumaður málsins er þingmaðurinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir en með henni á þingsályktuninni eru allir þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.
Flóttamaður raunveruleikans
Rósa Björk Brynjólfsdóttir gat valið sér eitt forgangsmál til að leggja fram í þinginu sem þingmaður utan flokka og er framlag hennar líklega mesta vindhögg sem þjóðin hefur orðið vitni að á þessum fordæmalausu tímum. Í þeirri ógnarstöðu sem þjóðin, heimilin, atvinnulífið og heilbrigðiskerfið er í mætti ætla að forgangsmál þingmannsins stæði til að leggja heimilum lið og atvinnulausu fólki, en annað kom á daginn. Þingmaðurinn Rósa Björk ákvað að leita út fyrir landsteinana að verkefni til að styðja. Í hópi flutningsmanna tillögunnar eru m.a. formenn tveggja stjórnmálaflokka, Samfylkingar og Viðreisnar sem eru greinilega í hópi flóttamanna frá þeim raunveruleika sem blasir við á Íslandi.
150 þúsund fóstureyðingar
Og hvert var smálið sem þingmaðurinn vildi setja í forgang umfram öll önnur? Nefnilega að íslenska heilbrigðiskerfið kæmi til móts við konur í Póllandi sem fá ekki fóstureyðingu í heimalandinu. Í Póllandi gilda strangar reglur kaþólsks samfélags um fóstureyðingar og vill Rósa beita íslenska heilbrigðiskerfinu í pólitísku ágreiningsmáli í Póllandi og í raun víðar eins og frem kemur í tillögunni. Renada Kim, blaðakona Newsweek í Póllandi, sagði frá því í þættinum Heimskviðum á Ríkisútvarpinu að allt að 150 þúsund ólöglegar fóstureyðingar færu fram í Póllandi á ári hverju og mannréttindasamtök sem ekki voru nafngreind segðu fjöldann vera á bilinu 100-200 þúsund. Það er því hætt við að tillagan hefði í för með sér töluverða breytingu á kvenlækningadeild Landspítalans sem hefur framkvæmt um 1.000 fóstureyðingar á ári fram að þessu. Mér er ekki kunnugt um að þeir 18 þingmenn sem hafa þessa framtíðarsýn fyrir starfsemi Landspítalans hafi rætt hugmyndina við forsvarsmenn spítalans. Ég geri ráð fyrir að með því hefðu tillögumenn fengið sýn á raunveruleikans sem íslenskt heilbrigðiskerfi tekst á við.
Samfylkingunni finnst ekki nóg að gert
„Tillaga til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi“ tekur fyrst og fremst mið af konum í Póllandi og Möltu en í þeim löndum búa samtals um 39 milljónir íbúa. Í greinagerði með frumvarpinu kemur einnig fram að vilji standi til að taka á móti fleirum en íbúum þessara landa. Þar segir: „Þó að það væri óskandi að geta tekið á móti fleiri konum eða einstaklingum sem ekki hafa þessi réttindi í heimalandi sínu.“ Hér vakna hugrenningatengsl við slagorð Samfylkingarinnar í umræðunni um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við Covid, „það er ekki nóg að gert“. Hér hnykkir Samfylkingin á því að það sé ekki nóg að kaffæra heilbrigðiskerfið á Íslandi með 100-200 þúsund konum frá Póllandi og Möltu – þar sé ekki nóg að gert – og því sé það óskandi að geta tekið á móti fleiri konum frá fleiri löndum.
Barnaleg hugsun
Ljóst er að blikur eru á lofti í mannréttindamálum víða um heim og jafnvel í okkar heimshluta. Þannig hefur verið þrengt að mannréttindum og lýðræðislegum gildum m.a. í skjóli sóttvarnaraðgerða. Okkar framlag til baráttu þeirra sem verða fyrir slíkum þrengingum hlýtur að nýtast best þar sem þær eiga sér stað. Það er í besta falli barnaleg hugsun að lausnin sé sú að flytja hingað inn vandamál annarra þjóða, fremur en að leggja þeim lið í heimalöndunum.
Flestir fá kjánahroll
Á síðasta þingvetri voru samþykkt ný lög um fóstureyðingar á Íslandi sem voru umdeild á þinginu eins og í samfélaginu öllu. Þessi þingsályktunartillaga fjallar hins vegar ekki um þá löggjöf og allt tal flutningsmannanna 18 í þá veru er til þess fallið að afvegaleiða umræðuna og kasta ryki í augu fólks annarra en þeirra sem sjá í gegnum þessa óraunhæfu tillögu. Þingmaðurinn Rósa Björk fékk leyfi til að mæla fyrir einni forgangstillögu á Alþingi sem þingmaður utan flokka. Í heimsfaraldri vegna Covid-19, hruni á þjóðartekjum, með þúsundir heimila í óvissu og atvinnuleysi allt að 25% þar sem það er mest og heilbrigðiskerfið á neyðaráætlun leggur þingmaðurinn fram þessa þingsályktun ásamt öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Að ætla sér að sökkva starfsemi Landspítalans í fóstureyðingar fyrir þúsundir kvenna frá Póllandi og Möltu og helst fleiri löndum svo nóg verði að gert að mati Samfylkingarinnar er flótti frá raunveruleikanum og flestir fá kjánahroll af tilhugsuninni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020.