Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Ég er nokkuð viss um að margir mótmæla þeirri fullyrðingu að ekkert ríkisfyrirtæki búi við minna aðhald og njóti meiri verndar en Ríkisútvarpið ohf. Vörnin sem umlykur ríkisfjölmiðilinn er sterk og gagnrýni er ekki vel séð. Jafnvel þegar bent er á augljós lögbrot fyrirtækisins situr opinber eftirlitsstofnun með hendur í skauti og reistur er pólitískur þagnarmúr aðdáenda ríkisrekstrar á fjölmiðlamarkaði. Það þurfti Ríkisendurskoðanda til að rjúfa múrinn.
Í umræðum um störf þingsins, í september 2018, vakti ég athygli á lögbroti Ríkisútvarpsins og sagði meðal annars:
„Stundum er leikurinn ójafn að óþörfu. Við höfum séð ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir hasla sér völl á nýjum sviðum í samkeppni við einkaaðila. Við verðum vitni að því að ríkisfyrirtæki fara ekki að lögum eins og ljóst er með Ríkisútvarpið sem fer ekki að lögum um Ríkisútvarpið, 4. gr., þar sem kemur skýrlega fram að Ríkisútvarpinu beri að stofna dótturfélög til þess að halda utan um samkeppnisreksturinn og skilja alfarið á milli almannaþjónustunnar og samkeppnisrekstrar. Í sumar þurftu sjálfstæðir fjölmiðlar að lifa við það að Ríkisútvarpið þurrkaði upp auglýsingamarkaðinn. Við getum ekki metið það tjón sem einkareknir fjölmiðlar urðu fyrir. Og við sjáum að Ríkisútvarpið núna er komið í samkeppni við einkaaðila við að leigja tækjabúnað og aðstöðu til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar.“
Lögbrot ríkisfyrirtækisins hafði þá verið látið óátalið í rúma níu mánuði. Ekkert einkafyrirtæki og líklega ekkert ríkisfyrirtæki hefði komist upp með að víkja sér undan skýrum lagafyrirmælum með sama hætti og Ríkisútvarpið. Slík háttsemi hefði ekki aðeins kallað á umræður (og það líklega fjörugar) í þingsal, heldur hefði fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallað ítarlega um meint lögbrot, krafist skýringa, úrbóta og að viðurlögum væri beitt.
Ekki valkvætt
Rúmlega ári síðar, eða í nóvember 2019, gaf Ríkisendurskoðandi út skýrslu um rekstur og aðgreiningu rekstrarþátta Ríkisútvarpsins. Niðurstaðan í stuttu máli:
„Ríkisendurskoðandi bendir á að ekki sé valkvætt að fara að lögum. Það er skylda RÚV ohf. að fara eftir þeim.“
Í árlegu mati á því hvort Ríkisútvarpið hefði uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt árið 2018 komst fjölmiðlanefnd loks ekki hjá því að benda á lögbrotið (birt í október sl.). Vitnað er í skýrslu Ríkisendurskoðanda en tekið fram að lögbrotið sé utan verksviðs við matið. (Ég fæ stundum á tilfinninguna að fjölmiðlanefnd hafi meiri áhuga á því hvernig Hringbraut hagar sínu dagskrárefni en hvernig Ríkisútvarpið umgengst lög og reglur).
Það er umhugsunarvert að það tók fjölmiðlanefnd tæp tvö ár að leggja mat á hvernig Ríkisútvarpið uppfyllti lagalegar kröfur um almannaþjónustu. Fyrir utan að taka undir með Ríkisendurskoðanda gerir nefndin athugasemdir við hvernig ríkismiðillinn skilgreinir kaup sín af sjálfstæðum framleiðendum. Þar er með óbeinum hætti tekið undir gagnrýni Samtaka iðnaðarins sem í nokkur ár hafa gagnrýnt framgöngu ríkisfyrirtækisins. Einhver fréttamaðurinn hefði líklega bent á „lagasniðgöngu“ ef annar en ríkismiðill hefði átt hlut að máli.
Samkvæmt þjónustusamningi (2016-19, en nýr samningur hefur ekki verið gerður) átti Ríkisútvarpið að verja að lágmarki 10% af heildartekjum sínum árið 2018 til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Ríkisfyrirtækið var frjálslegt í að skilgreina sjálfstæða framleiðendur. Fjölmiðlanefnd bendir á að sjálfstæðir framleiðendur séu, samkvæmt skilgreiningu laga, lögaðilar óháðir viðkomandi fjölmiðlaveitu. Því geti það vart talist uppfylla lagalega skilgreiningu á sjálfstæðum framleiðanda „ef um er að ræða verktaka sem hafa að aðalstarfi að sinna íþróttafréttum eða dagskrárgerð í sjónvarpsþáttum sem eru framleiddir af RÚV og eru hluti af daglegri eða vikulegri dagskrá RÚV. Þá geti einstaklingar sem fram til 8. júlí 2020 voru skráðir starfsmenn RÚV á vef Ríkisútvarpsins, með eigið netfang á netþjóni RÚV, trauðla talist óháðir fjölmiðlaveitunni Ríkisútvarpinu í skilningi laga um fjölmiðla, þótt viðkomandi einstaklingar séu ekki á launaskrá Ríkisútvarpsins, heldur þiggi verktakagreiðslur.“
Í þessu sambandi vekur nefndin athygli á að upplýsingar um starfsmenn hafi verið sóttar af vef Ríkisútvarpsins 7. júlí 2020. Daginn eftir höfðu sömu upplýsingar verið fjarlægðar af vefnum.
Án agavalds áskrifenda
Ríkisútvarpið er ekki venjulegur fjölmiðill og lýtur ekki agavaldi áskrifenda, lesenda, áhorfenda og hlustenda. Öll þurfum við að standa skil á útvarpsgjaldi – áskrift að ríkismiðli óháð því hvort við nýtum þjónustuna sem er í boði eða ekki. Meginreglan er sú að hið þvingaða viðskiptasamband nær til allra einstaklinga 16 til 70 ára og til allra lögaðila (fyrir utan dánarbú, þrotabú og lögaðila sem sérstaklega eru undanþegnir skattskyldu).
Á liðnu ári fékk ríkismiðillinn rúmlega 4,6 milljarða króna frá skattgreiðendum í formi útvarpsgjalds. Auglýsingar og kostun gáfu 1,8 milljarða í tekjur og aðrar tekjur af samkeppnisrekstri námu 366 milljónum króna. Heildartekjur voru því rúmlega 6,4 milljarðar króna.
Síðustu 12 ár hafa skattgreiðendur látið ríkismiðlinum í té nær 46 milljarða króna á föstu verðlagi. Auglýsingatekjur, kostun og annar samkeppnisrekstur hefur skilað fyrirtækinu tæpum 24 milljörðum króna. Alls hefur Ríkisútvarpið því haft upp undir 70 milljarða úr að moða. Þá er ekki tekið tillit til beinna fjárframlaga úr ríkissjóði til að rétta af fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða sérkennilegrar lóðasölu við Efstaleiti.
Það er merkilegt hve illa og harkalega er brugðist við þegar spurt er hvort önnur og betri leið sé ekki fær til að styðja við íslenska dagskrárgerð, menningu, listir og sögu, en að reka opinbert hlutafélag. Hvernig ætli íslensk kvikmyndaflóra, dagskrárgerð og menning liti út ef þessar greinar hefðu fengið 46 milljarða til sín síðustu 12 ár? Örugglega ekki frábreyttari. Líklega litríkari og öflugri.
Og hvernig ætli staða sjálfstæðra fjölmiðla væri ef þeir hefðu notið þó ekki væri nema hluta 24 milljarða tekna ríkisins af samkeppnisrekstri? Öflugri? Í stað þess að svara þessari spurningu vilja stjórnmálamenn miklu fremur ræða hvort ekki sé skynsamlegt að ríkið hlaupi undir bagga með sjálfstæðum fjölmiðlum. Eða eins og Ronald Reagan sagði; ef það stoppar settu það á ríkisstyrk. Og þar með er spurningunni um hvað fæst fyrir 70 milljarða ekki svarað með öðrum hætti en; ríkismiðill án agavalds.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020.