Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Því er haldið fram að á tímum neyðarástands sé stjórnvöldum heimilt að grípa til þeirra aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar. Ekki aðeins að þeim sé heimilt heldur beri þeim skylda til að grípa inn í daglegt líf almennings til að verja líf og heilsu. Í varnarbaráttu gegn hættulegum vágesti sé stjórnvöldum frjálst að leggja ákvæði stjórnskipunarlaga til hliðar og sniðganga hefðbundið ferli löggjafar sem er sögð of hægvirk og óskilvirk.
Ég get ekki annað en hafnað þessum sjónarmiðum. Þar er ég ekki einn. Um hitt verður ekki deilt að stjórnvöld bera skyldur til að bregðast við þegar samfélaginu er ógnað. Til lengri tíma litið skiptir meira máli að farið sé að meginreglum réttarríkisins og stjórnarskrár en hvernig glímt er við aðsteðjandi hættu. Á þetta benti Sumption lávarður (Jonathan Philip Chadwick Sumption), fyrrverandi dómari við hæstarétt Bretlands, í fyrirlestri við Cambridge-háskóla í síðustu viku. Í frjálsu landi sé sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma virði grunnréttindi borgaranna og starfi innan þeirra valdmarka sem þeim eru mörkuð.
Fordæmi fyrir framtíðina
Sóttvarnalög veita íslenskum stjórnvöldum ákveðna heimild til að grípa til aðgerða. Í upphafi covid-faraldursins var þeim heimildum beitt. Almennur og víðtækur stuðningur var við sóttvarnaaðgerðir í upphafi enda stóðu vonir til að þær væru tímabundnar. Þróun faraldursins hefur hins vegar orðið með öðrum og verri hætti. Vonir sem vöknuðu í sumar rættust ekki. Á síðustu vikum hafa heilbrigðisyfirvöld talið sig knúin til að herða aðgerðir og skerða athafna- og félagafrelsi borgaranna. Tíu mánuðir eru frá því að óvissustigi var lýst yfir vegna kórónuveirunnar hér á landi. Fyrir tæpum átta mánuðum voru fyrst settar takmarkanir á samkomur, framhalds- og háskólum var lokað og rekstur leik- og grunnskóla takmarkaður.
Um það er deilt hversu víðtækar heimildir sóttvarnalög veiti heilbrigðisyfirvöldum til að skerða borgaraleg réttindi þegar barist er við vágest sem ógnar lífi og heilsu. Og jafnvel þótt þær heimildir séu taldar rúmar geta þær ekki gefið stjórnvöldum fullkomið vald til að gera það sem þau vilja – hefta frelsi fólks. Eftir því sem tíminn líður og þekking á eðli hættulegrar veiru eykst verða möguleikar stjórnvalda til að ganga á borgaraleg réttindi einstaklinga með tilvísun í sóttvarnalög enn þrengri. Og ekki má gleyma hvaða fordæmi verið er að setja fyrir framtíðina.
Frelsi fólks og stjórnarskrárvarin mannréttindi má ekki skerða nema ýtrustu nauðsyn beri til. Endurmat á sóttvarnalögum er því brýnt. En það blasir einnig við að nauðsynlegt er að fram fari yfirvegað og nákvæmt áhættumat, ásamt kostnaðar- og ábatagreiningu vegna aðgerða og ákvarðana stjórnvalda á hverjum tíma. Upplýsingar um áhrif sóttvarnaaðgerða á aðra starfsemi heilbrigðiskerfisins, og þar með á líf og heilsu landsmanna, verða að liggja fyrir. Innra samræmi í reglum verður að tryggja. Heilbrigðisyfirvöldum ber skylda til að fara fram í öllum sínum aðgerðum þannig að meðalhófs sé gætt.
Í grein hér í Morgunblaðinu 2. september síðastliðinn skrifaði ég meðal annars:
„Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu okkar hægrimanna er mannhelgi einstaklingsins. Við lítum svo á að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Virðing fyrir frumréttinum tryggir betur en nokkuð annað velsæld samfélaga. Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga á þennan frumrétt, þó ekki sé nema í takmarkaðan tíma í nafni almannaheilla, er nauðsynlegt að byggt sé á skýrum lagalegum grunni. Almenningur verður að skilja rökin sem liggja þar að baki og fá skýrar upplýsingar um hvenær og undir hvaða skilyrðum hömlum verður aflétt. Annars missa stjórnvöld trúverðugleika, samstaða samfélagsins brestur og aðgerðir til varnar almenningi snúast upp í andhverfu sína.“
Öryggi óttans
Öll þráum við öryggi. Flest setjum við traust okkar á stjórnvöld. Við lítum svo á að grunnskylda ríkisvaldsins sé að vernda borgarana gegn utanaðkomandi ógnunum, jafnt og ógnunum innanlands, tryggja eignarréttinn og frelsi til orðs og æðis. Í umboði okkar og í krafti þingræðis setur ríkisvaldið almennar leikreglur og ber ábyrgð á að þeim sé framfylgt.
Hættan er hins vegar sú að óttinn geri okkur sljó í varðstöðunni fyrir borgaralegum réttindum – að við afhendum frelsið af fúsum og frjálsum vilja – sættum okkur við að mikilvæg borgaraleg réttindi séu lögð til hliðar.
Í fyrrnefndum fyrirlestri bendir Sumption lávarður á að óttinn sé og hafi verið öflugasta verkfæri þeirra sem virða frelsi borgaranna lítils. Forræðishyggjan nærist á ótta. Í skugga óttans sé þess krafist að stjórnvöld grípi til aðgerða, sem sumar geta verið gagnlegar en aðrar skaðlegar í viðleitni allra að verja líf og heilsu. Í þessum efnum sé ekki aðeins við stjórnvöld að sakast heldur ekki síður okkur sjálf. Frelsið verður fórnarlamb óttans og umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum hverfur.
Ég hef haft efasemdir um að heilbrigðisyfirvöld geti sótt rökstuðning í sóttvarnalög fyrir öllum sínum aðgerðum – óháð því hversu skynsamlegar þær kunna að vera. Í besta falli eru yfirvöld komin á bjargbrún hins lögmæta. Borgaraleg réttindi, sem eru varin í stjórnarskrá, verða ekki afnumin tímabundið (og enginn veit hvað sá tími er langur) með reglugerðum og án nokkurs atbeina löggjafans eða undir ströngu eftirliti hans. En jafnvel Alþingi hefur verið lamað með sóttvarnaaðgerðum, sem dregur úr möguleikum þess að veita stjórnvöldum aðhald, spyrja spurninga og, ef þörf er á; setja heilbrigðisyfirvöldum stólinn fyrir dyrnar. Og þannig molnar undan þingræðinu og ríkisstjórn reglugerða og tilskipana verður til. Slíkt getur aldrei orðið með samþykki Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2020.