Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Nálgun stjórnvalda á efnahagsleg viðbrögð við Covid-faraldrinum hafa meðal annars einkennst af þremur leiðarljósum: Að bregðast hratt við, að hafa viðbrögðin eins umfangsmikil og réttlætanlegt er hverju sinni og að hafa þau til sífelldrar endurskoðunar í samræmi við hvernig hinn ófyrirsjáanlegi faraldur þróast.
Í mars vonuðumst við öll eftir því að faraldurinn yrði orðinn viðráðanlegur eftir fáeina mánuði. Raunin er því miður allt önnur.
Eftir því sem Covid dregst á langinn eykst hættan á því að fyrirtæki sem faraldurinn bitnar harðast á neyðist til að kasta inn handklæðinu og leggi upp laupana. Sú stund er sem betur fer ekki enn runnin upp að það sé farið að gerast í stórum stíl en hún nálgast með hverjum mánuðinum sem líður í skugga takmarkana til að hemja faraldurinn.
Hagsmunirnir
Það felast í því almannahagsmunir að freista þess að koma í veg fyrir að sú sviðsmynd verði að veruleika.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru réttlætanlegar vegna þess að í þeim aðstæðum sem nú eru uppi er markaðshagkerfi gert ókleift að virka sem skyldi. Gjaldþrot fyrirtækja felur ekki aðeins í sér tap hluthafa, starfsmanna og lánardrottna heldur geta þar eyðilagst verðmæti sem samfélagið allt hagnast á að verja. Dýrmæt viðskiptasambönd geta slitnað; þekking og reynsla getur horfið með stjórnendum og öðru starfsfólki; framleiðslutæki geta farið forgörðum. Það kostar að byggja slíkan rekstur upp aftur. Það er ekki ókeypis að byrja á núlli. Og það tekur tíma, og sá tími kostar líka. Hluti kostnaðarins fellur á samfélagið.
Þetta á að einhverju leyti við um allar atvinnugreinar en alveg sérstaklega ferðaþjónustu, þar sem aðalsölutímabilið fyrir komandi háannatíma næsta árs er að hefjast. Einhverjir þurfa að vera til staðar til að sækja á þau mið núna á söluvertíðinni. Ísland á mjög mikið undir kröftugri viðspyrnu ferðaþjónustunnar, eins og ég fór ítarlega yfir í grein minni á þessum vettvangi fyrir hálfum mánuði.
Stuðningur ríkisins við atvinnulífið hefur fram til þessa verið blanda af frestandi úrræðum (t.d. stuðningslán og greiðslufrestir) og beinum styrkjum (t.d. hlutabótaleið, laun á uppsagnarfresti og lokunarstyrkir). Þá má ekki gleyma aðkomu ríkisins að hlutafjárútboði Icelandair, sem er kannski mikilvægasta fyrirtæki íslenskrar ferðaþjónustu.
Aukinn stuðningur
Nýlega kynnti fjármála- og efnahagsráðherra svo aukna beina styrki í formi tekjufallsstyrkja. Áætlað var að umfang þeirra gæti orðið að hámarki rúmir 14 milljarðar króna.
Ríkisstjórnin samþykkti í gær, föstudag, að efla stuðningsaðgerðir við atvinnulífið enn frekar. Í því felst að lokunarstyrkir verði framlengdir, nýkynntir tekjufallsstyrkir útvíkkaðir umtalsvert og nýtt úrræði, viðspyrnustyrkir, innleitt en unnið er að útfærslu þess. Þá ræddi ríkisstjórnin um mögulega framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem rennur út nú um áramót. Hefur félags- og barnamálaráðherra þegar hafið undirbúning að framlengingu úrræðisins.
Við höfum átt gott samtal við þær greinar sem eru í viðkvæmastri stöðu og þekkjum vel áskoranir þeirra.
Enginn þarf að efast um að við viljum koma til móts við þær eftir fremsta megni og skiljum verðmætin sem í því felast. Eins og fram kom á góðum fundi um stöðu ferðaþjónustunnar í vikunni, sem um 500 manns fylgdust með í streymi og um þúsund hafa horft á síðan þá, er mikilvægt að allir leggist á eitt, þ.m.t. fjármálakerfið.
Nýsköpun á fleygiferð
Þó að mjög kreppi að í ákveðnum atvinnugreinum er það sem betur fer ekki einhlítt. Þannig er t.d.
veruleg nýfjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum, ekki síst erlendis frá. Nýleg dæmi eru 15 milljóna dollara (um tveir milljarðar) erlend fjármögnun Controlant, 20 milljóna dollara (tæplega þrír milljarðar) erlend fjármögnun Sidekick Health og kaup þýska stórfyrirtækisins Baader á meirihluta í Skaganum 3X.
Líftæknifyrirtækið Kerecis hefur margfaldað sölu sína á milli ára og svona mætti lengi telja.
Eins og allir vita er nýsköpun langtímaverkefni en hún byrjaði ekki í gær þannig að góðum fréttum er þegar farið að fjölga og við trúum að sú þróun haldi áfram.
Í gær var síðan tilkynnt um fyrirhugað lofthreinsiver Carbon Iceland í samstarfi við kanadíska fyrirtækið Carbon Engineering, þar sem stefnt er að þríþættri framkvæmd: hreinsun á um einni milljón tonna af CO 2 úr andrúmsloftinu og framleiðslu á annars vegar CO 2 til matvælaframleiðslu og hins vegar eldsneyti fyrir skip og önnur samgöngutæki.
Ein af aðgerðunum sem ríkisstjórnin kynnti í lok september til að styðja við áframhald lífskjarasamninganna var að útfæra skattalegar aðgerðir til að styðja fyrirtæki til fjárfestinga, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið. Tilkynningin í gær er dæmi um tækifærin sem felast í slíkum verkefnum og ljóst er að þau eru fleiri.
Ég hef óbilandi trú á tækifærum Íslands til að vera áfram í fremstu röð samfélaga í heiminum og rísa hratt á fætur þegar þokunni léttir. Öflugt atvinnulíf er forsenda öflugra lífsgæða. Án þess getum við einfaldlega ekki staðið undir þeim lífsgæðum sem við viljum öll tryggja. Þess vegna skiptir öllu máli að við styðjum bæði fólk og fyrirtæki í gegnum áskoranir dagsins. Því um leið og aðstæður leyfa mun sköpunarkraftur og framtakssemi einstaklinga keyra Ísland aftur í gang.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1. nóvember 2020.