Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:
Með tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll fær þjóðin enn á ný tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innanlands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.
Hvar er höfuðborgarstefnan?
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er og hefur verið síðan á 19. öld miðstöð verslunar, stjórnsýslu og þjónustu í landinu og vaxið alla 20. og 21. öldina. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll undanfarna áratugi hefur sýnt að nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands þannig að landsmenn, stjórnvöld og borgaryfirvöld geri sér ljósa grein fyrir skyldum og réttindum sem fylgja höfuðborgarhlutverkinu, þar á meðal á sviði samgangna.
Viss tímamót urðu í júní 2018 þegar byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þingmanna á Alþingi en í fyrsta sinn innihélt byggðaáætlunin byggðastefnu sem náði til höfuðborgarsvæðisins. Byggðastefna eins og hún hafði birst í fyrri byggðaáætlunum hafði fram að þessu ekki náð til höfuðborgarinnar eða höfuðborgarsvæðisins. Hefur það fyrirkomulag verið nokkuð ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndunum, þar sem mikilvægt þykir að landsmenn hafi sem mesta aðkomu að byggðamálum og litið er á höfuðborgarsvæðið sem mikilvægan hlekk byggðaþróunar og samkeppnishæfni landsins. Reykjavík, höfuðborg landsins, er mikilvægt markaðs- og efnahagssvæði, sem með nágrannabyggðunum gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun byggða um land allt. Nefnd byggðaáætlun gerir ráð fyrir að mótuð verði höfuðborgarstefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkur fyrir byggðaþróun í landinu og stöðu hennar á landsvísu og gagnvart erlendum borgum. Samkvæmt framkvæmdaáætluninni stóð til að senda höfuðborgarstefnuna til umsagnar fyrir árslok 2018 og fullmótuð tillaga yrði síðan lögð fyrir Alþingi vorið 2019. Í kjölfarið yrðu undirritaðir samningar milli ríkisins og Reykjavíkurborgar þar sem aðilar yrðu á eitt sáttir um ábyrgð og skyldur höfuðborgar Íslands. Þrátt fyrir að duglega sæist til sólar í upphafi hefur lítið sem ekkert heyrst af afdrifum þessarar vinnu og vekur það vissulega ýmsar spurningar.
Þjónustuborgin Reykjavík
Samkvæmt tölum Hagstofunnar á öðrum ársfjórðungi þann 1. júlí 2020 bjuggu 366.700 manns á Íslandi. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 234.910 manns en 131.790 utan þess. Þegar við ræðum um „þjónustuborgina Reykjavík“ líkt og meirihluti borgarstjórnar kýs að skilgreina sig, ábyrgð hennar og skyldur, þá er ekki átt við beinar skyldur sveitarfélagsins gagnvart íbúum sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins. Hér er miklu fremur um að ræða siðferðislegar skyldur Reykjavíkur við landsbyggðina sem höfuðborgar þjóðarinnar. Íbúar höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins njóta ákveðinna þæginda sem felast í nálægðinni við helstu stofnanir samfélagsins og þjónustu. Flugsamgöngur landsbyggðarinnar til Reykjavíkur eru forsenda þess að borgin geti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Ef starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni verður ekki tryggð eru borgaryfirvöld að takmarka aðgengi landsbyggðarfólks að miðstöð stjórnsýslu, þjónustu, viðskipta og ekki síst Landspítala háskólasjúkrahúss með því að lengja ferðatíma til borgarinnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2020.