Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Ísland er ekki lengur á „gráum lista“ FATF (Financial Action Task Force) yfir þau ríki sem sæta auknu eftirliti vegna ófullnægjandi varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það eru ánægjuleg og mikilvæg tíðindi. Með samstilltu átaki fjölmargra aðila hefur okkur tekist á skömmum tíma að bæta úr þeim ágöllum á íslensku laga- og regluverki sem samtökin höfðu tilgreint í úttektum sínum og skýrslum á undanförnum þremur árum.
Forsagan er sú að árið 2017 fór fram úttekt af hálfu FATF á vörnum landsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samtökin komust að þeirri niðurstöðu vorið 2018 að varnir Íslands væru ófullnægjandi og Ísland var því sett í svonefnda eftirfylgni hjá sérstökum vinnuhópi innan FATF um málefni ríkja þar sem vörnum í þessum málaflokki er verulega ábótavant. Íslandi var gefinn eins árs frestur til úrbóta.
Af hálfu íslenskra stjórnvalda var þegar hafist handa um margþættar úrbætur. Eigi að síður komst FATF að þeirri niðurstöðu að Íslandi hefði ekki tekist að leysa vandann innan tilskilins frests. Í október 2019 var Ísland sett á gráa listann og aðgerðaáætlun samþykkt af hálfu FATF sem íslenskum stjórnvöldum var gert að framkvæma.
Á fundi FATF í júní á þessu ári var talið að Ísland hefði lokið öllum aðgerðunum með fullnægjandi hætti. Sérfræðingar ríkjahópsins komu til landsins í september og gengu úr skugga um að íslensk stjórnvöld hefðu staðið við skuldbindingar sínar. Á aðalfundi FATF í gær var loks samþykkt að taka Ísland af gráa listanum.
Vert er að fagna á þessum tímamótum og þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg. Um leið er mikilvægt að draga réttan lærdóm af þessari reynslu. Hún er áminning um að við þurfum að gera betur. Það að lenda á lista sem þessum hefur gífurleg áhrif á íslenskt atvinnulíf, ekki aðeins fjármálafyrirtæki heldur nær öll fyrirtæki sem stunda alþjóðleg viðskipti. Ef Ísland ætlar að vera þátttakandi í alþjóðlegu viðskiptalífi, sem við svo sannarlega erum, þá verða stjórnvöld að tryggja að innlent regluverk uppfylli öll alþjóðleg skilyrði. Sú hagsæld sem við búum við hvílir á alþjóðlegum viðskiptum sem aftur hvíla á trausti milli aðila og skilyrðum um að flutningur á fjármagni, vöru og þjónustu sé með öruggum hætti.
Þetta er líka áminning um að stjórnsýslan er til fyrir fólkið en ekki öfugt. Það að tryggja fyrrnefnd skilyrði á ekki að vera stjórnsýslunni þungbært en það getur hins vegar verið atvinnulífinu þungbært að Ísland sé flokkað með þessum hætti. Það hefur neikvæð áhrif á hagkerfið og þar með neikvæð áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu. Það má ekki gerast aftur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2020.