Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu á Alþingi í dag fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi.
Fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar er Njáll Trausti Friðbertsson en aðrir eru Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Páll Magnússon og Brynjar Níelsson.
Þess er óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu grunninnviða samfélagsins og mikilvægra samfélagslegra innviða sem varða þjóðaröryggi og hvernig þeir hagsmunir eru tryggðir innan íslenskrar stjórnsýslu út frá ábyrgð og málefnasviði ráðuneyta og í íslenskri löggjöf.
Í skýrslunni er óskað eftir umfjöllun um:
a. skilgreiningu á hugtakinu „þjóðaröryggi“ út frá samfélagslegum innviðum,
b. hvaða grunninnviðir íslensks samfélags hafa verið skilgreindir sem mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna,
c. helstu hluta samgöngukerfisins, svo sem vegi, brýr, ferjur, flugvelli, og hvort þeir hlutar eigi að vera skilgreindir með tilliti til þjóðaröryggis,
d. helstu þætti raforkukerfisins, svo sem virkjanir, flutnings- og dreifikerfið, afhendingaröryggi raforku, varaafl og stýringu, og hvort þeir hafi verið skilgreindir út frá þjóðaröryggishagsmunum,
e. hvort helstu fjarskiptakerfi Íslands hafi verið skilgreind með tilliti til þjóðaröryggis, svo sem jarðsímakerfið (AXE), ljósleiðarakerfið, Tetra-kerfið, farsímakerfið, gagnastrengir til útlanda, langbylgjan RÚV, FM-útvarpsútsendingar,
f. hverjir fari með ábyrgð á samfélagslegum innviðum, svo sem flug- og vegasamgöngum, afhendingaröryggi raforku og virkni fjarskiptakerfa á landsvísu,
g. stöðu helstu grunninnviða íslensks samfélags sem varða þjóðaröryggismál gagnvart skipulagsmálum og hvernig þeir eru tryggðir í löggjöf,
h. hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis.
Skýrslubeiðnina ásamt greinargerð má finna á vef Alþingis hér.