Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:
Skuldir Reykjavíkurborgar hækkuðu hressilega í góðærinu. Meira en milljarð á mánuði. Engu að síður tilkynnti borgin hagnað. Hvernig gat þetta staðist? Ein helsta „hagnaðarlind“ borgarinnar síðustu árin hefur verið endurmat á félagslegu húsnæði. Endurmatið hefur skilað borginni pappírshagnaði og stendur matshækkun félagslegra íbúða nú í 52 milljörðum króna. Það er stjarnfræðileg tala. Beitt er svonefndum IFRS-aðferðum þar sem íbúðirnar eru metnar á markaðsvirði þótt þær séu ekki til sölu. Einar S. Hálfdánarson hefur sem fulltrúi í endurskoðunarnefnd gagnrýnt þetta og ekki síður það ósamræmi sem er í samstæðureikningi borgarinnar þar sem sumt er gert upp með IFRS-aðferð en annað ekki. Nú hefur reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga úrskurðað um málið. Niðurstaðan er sú að Reykjavíkurborg ber að gera upp samstæðureikning sinn þannig að samræmi sé í uppgjörsaðferðinni. Það kann að vera þægilegt að veifa tugmilljarða hagnaði í fréttatilkynningum, en raunveruleikinn er sá að borgin skuldar gríðarlega fjármuni. Skuldahlutfall samstæðu borgarinnar er langt umfram nágrannasveitarfélögin. Sú aðferð að flytja skuldsett verkefni eins og félagslegt húsnæði í dótturfélag gagnast ekki í reynd. Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir meira en hundrað milljarða skuldum dótturfélaga á borð við Orkuveitu Reykjavíkur, Félagsbústaði og SORPU. Það er því engin leið að horfa eingöngu á borgarsjóð. Skoða þarf heildarmyndina. Á síðasta fundi borgarstjórnar óskuðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir að Einar S. Hálfdánarson tæki sæti á ný í endurskoðunarnefnd, en hann fór úr nefndinni á meðan úrskuðað var í málinu. Þá bar svo við að borgarstjóri beitti sér fyrir því að ekki yrði kosið í nefndina, þvert á hefðir og venjur um slíkt. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að skjóta sendiboðann. Það er komið að því að borgarstjóri standi reikningsskil gjörða sinna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2020.