Eftirlitið finnur sér ís-verkefni
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Eins og lík­leg­ast flest­um Íslend­ing­um finnst mér ís góður. Þess vegna geri ég mér gjarn­an ferð út í ísbúð. Og aldrei hef­ur úr­valið verið meira. Það er eig­in­lega allt til. Bragðteg­und­irn­ar eru næst­um ótelj­andi. Fyr­ir þann sem al­inn var upp við vanilluís (rjóma) er erfitt að ná utan um fjöl­breytn­ina eða skilja þá miklu hug­mynda­auðgi sem fram­taks­fólk sýn­ir í fram­leiðslu.

En lif­andi sam­keppni þar sem neyt­end­ur hafa fengið að njóta fjöl­breyti­leik­ans hef­ur vakið at­hygli op­in­berra eft­ir­litsaðila. Þess vegna var talið nauðsyn­legt að rann­saka starf­semi ísbúða – það hlyti að vera pott­ur brot­inn í starf­semi þeirra og því aðkallandi að grípa til ráðstaf­ana og sekta til að verja sak­lausa neyt­end­ur.

Í júní síðastliðnum lét Neyt­enda­stofa til skar­ar skríða. Gerð var könn­un á sölu­stöðum og vefsíðum ísversl­ana. Op­in­ber­ir eft­ir­lits­menn mættu á staðinn til að rann­saka hvort „verðskrá yfir þjón­ustuliði væri sýni­leg á sölustað, sbr. ákvæði laga nr. 57/​2005, um eft­ir­lit með viðskipta­hátt­um og markaðssetn­ingu, og hvort veitt­ar væru upp­lýs­ing­ar um þjón­ustu­veit­anda, sbr. ákvæði laga nr. 30/​2002, um ra­f­ræn viðskipti og aðra ra­f­ræna þjón­ustu, á vefsíðu“.

20 þúsund króna dag­sekt

Sam­kvæmt vefsíðu Neyt­enda­stofu var niðurstaðan:

Verðmerk­ing­ar og ein­inga­verð við sölu á vör­um var í öll­um til­fell­um í sam­ræmi við lög og regl­ur. Skoðun á vefsíðum – fés­bók­arsíðum – „sýndi að á vefsíðunni vantaði upp­lýs­ing­ar um kenni­tölu, virðis­auka­skatts­núm­er, op­in­bera skrá og leyfi þjón­ustu­veit­anda“. Þar sem eng­in ísbúðanna hafði sýnt viðbrögð ákvað Neyt­enda­stofa að leggja 20 þúsund króna dag­sekt­ir á hvern og einn ef hlut­un­um verður ekki kippt í liðinn inn­an tveggja vikna.

Óform­leg „rann­sókn“ þess sem hér held­ur um penna, leiddi í ljós að ísbúðirn­ar hefðu orðið við til­mæl­um Neyt­enda, enda upp­lýs­ing­ar op­in­ber­ar og aðgengi­leg­ar öll­um t.d. á upp­lýs­ingasíðum ja.is. Fæst­ar búðanna stunda ra­f­ræn viðskipti a.m.k. ekki í gegn­um fés­bók­arsíður sem eru fyrst og síðast til að koma á fram­færi upp­lýs­ing­um um verð, girni­lega mat­seðla og af­greiðslu­tíma. Ra­f­ræn viðskipti með ís eru eðli máls sam­kvæmt ýms­um ann­mörk­um háð.

En Neyt­enda­stofa er á vakt­inni eins og góðri barn­fóstru sæm­ir. Það er auka­atriði hvort ísbúðir bjóða góða vöru og þjón­ustu í virkri sam­keppni sem neyt­end­ur njóta. Mestu skipti að þegar vafrað er um fés­bók­arsíður ísbúðanna komi skýrt fram virðis­auka­skatts­núm­er og kennitala.

End­ur­skoðun á til­vist

Auðvitað eiga fyr­ir­tæki að fara eft­ir sett­um lög­um, jafn­vel þeim sem gera lítið annað en íþyngja rekstr­in­um og verja ekki hag neyt­enda með nein­um hætti. En eft­ir­litsaðili verður ekki aðeins að búa yfir góðri dómgreind og ganga fram af hóf­semd, held­ur vera þess full­viss að þegar þving­un­um er beitt á grund­velli laga þá falli viðkom­andi fyr­ir­tæki án vafa und­ir þau lög.

Rann­sókn Neyt­enda­stofu á ísbúðum er vís­bend­ing um að stofn­un­in hafi ágætt svig­rúm til að sinna litl­um og stór­um verk­efn­um – sé ekki of­hlaðin verk­efn­um. Þegar svo er komið er skyn­sam­legt að end­ur­skoða til­vist rík­is­stofn­un­ar. Mörg verk­efna Neyt­enda­stofu eru bet­ur kom­in hjá öðrum, s.s. Neyt­enda­sam­tök­un­um, önn­ur hjá Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu og jafn­vel Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un. Þannig er hægt að fækka barn­fóstr­un­um um eina.

Við erum sam­fé­lag sem bygg­ir á lög­um – setj­um ákveðnar leik­regl­ur. Eft­ir­lit með að leik­regl­un­um sé fylgt er nauðsyn­legt (það er hins veg­ar ekki nátt­úru­lög­mál að allt eft­ir­lit eigi að vera á veg­um op­in­berr­ar stofn­un­ar – ekki frek­ar en bif­reiðaskoðun). Það hef­ur hins veg­ar reynst erfitt fyr­ir góðhjartaða stjórn­mála- og emb­ætt­is­menn að feta hinn gullna meðal­veg – setja ein­fald­ar og skil­virk­ar leik­regl­ur og þvæl­ast ekki fyr­ir eðli­leg­um viðskipt­um. Til­gang­ur­inn er göf­ug­ur; að verja al­menn­ing gagn­vart sjálf­um sér og öðrum. Og til verður land barn­fóstrunn­ar sem er alltumlykj­andi í formi eft­ir­lits­stofn­ana svo tryggt sé að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki fari að fyr­ir­mæl­um og fari sér ekki að voða.

Ógöng­ur eft­ir­lit­s­kerf­is­ins

Rík­is­barns­fóstr­an hef­ur því áhyggj­ur af öllu – ekki aðeins hvort virðis­auka­skatts­núm­er ísbúðar liggi kýr­skýrt fyr­ir. Á stund­um er engu lík­ara en fóstr­an sé sann­færð um að al­menn­ing­ur þjá­ist af al­mennri heimsku, ein­stak­ling­ar geti ekki borið ábyrgð á eig­in lífi og fyr­ir­tækj­um sé ekki treyst­andi til að bjóða góða vöru og þjón­ustu á hag­stæðu verði.

Hug­mynda­fræði barn­fóstrunn­ar og alþjóðleg sam­vinna barn­fóstra hef­ur kraf­ist þess að fram­leiðend­ur smur- og hreinsi­efna taki sér­stak­lega fram að leita þurfi til lækn­is, ef „efnið er drukkið“. Skor­dýra­eit­ur verður að merkja sér­stak­lega; taka fram að ekki megi geyma það hjá mat­væl­um og ekki nota eitrið á fleti þar sem mat­væli eru unn­in, mat­bú­in eða þeirra neytt. Svo verður sér­stak­lega að taka fram að alls ekki megi „nota efnið á fólk og hús­dýr“. Í bæk­lingi með raf­magns­sög er með skýr­inga­mynd varað við því að setja hend­urn­ar fyr­ir sag­ar­blaðið. Í leik­fanga­búðinni er Súperm­an-bún­ing­ur­inn merkt­ur sér­stak­lega og tekið fram að þótt menn klæðist bún­ingn­um geti þeir ekki flogið. En á sama tíma eru merk­ing­ar margra mat­væla annaðhvort illskilj­an­leg­ar og/​eða ólæsi­leg­ar a.m.k. fyr­ir miðaldra karl án gler­augna og þó eru merk­ing­arn­ar í sam­ræmi við fyr­ir­mæli. Ekk­ert af þessu er án kostnaðar.

Ég hef lengi verið sann­færður um að op­in­bert eft­ir­lit­s­kerfi hafi ratað í ógöng­ur, þótt margt sé þar gert sem er til fyr­ir­mynd­ar. Það verður að stokka kerfið allt upp og ekki síst inn­leiða nýja hugs­un. Við þurf­um sterk­ar og öfl­ug­ar eft­ir­lits­stofn­an­ir sem fram­fylgja sett­um regl­um af heil­brigði skyn­semi og sinna leiðbein­andi hlut­verki til að tryggja heil­brigði viðskipta­lífs­ins og hags­muni neyt­enda. Upp­stokk­un­in kall­ar á sam­ein­ingu stofn­ana og út­vist­un verk­efna þar sem við á. En um leið þarf lög­gjaf­inn að taka til hend­inni og ein­falda reglu­verkið. Við þá vinnu er nauðsyn­legt að hafa í huga að leik­regl­urn­ar eru til að verja neyt­end­ur og fyr­ir­tæki, en ekki til að byggja und­ir eft­ir­litsiðnaðinn og þær fjöl­mörgu rík­is­fóstr­ur sem vilja allt faðma. Sá faðmur er ekki alltaf hlýr.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október 2020.