Óli Björn Kárason alþingismaður:
Eins og líklegast flestum Íslendingum finnst mér ís góður. Þess vegna geri ég mér gjarnan ferð út í ísbúð. Og aldrei hefur úrvalið verið meira. Það er eiginlega allt til. Bragðtegundirnar eru næstum óteljandi. Fyrir þann sem alinn var upp við vanilluís (rjóma) er erfitt að ná utan um fjölbreytnina eða skilja þá miklu hugmyndaauðgi sem framtaksfólk sýnir í framleiðslu.
En lifandi samkeppni þar sem neytendur hafa fengið að njóta fjölbreytileikans hefur vakið athygli opinberra eftirlitsaðila. Þess vegna var talið nauðsynlegt að rannsaka starfsemi ísbúða – það hlyti að vera pottur brotinn í starfsemi þeirra og því aðkallandi að grípa til ráðstafana og sekta til að verja saklausa neytendur.
Í júní síðastliðnum lét Neytendastofa til skarar skríða. Gerð var könnun á sölustöðum og vefsíðum ísverslana. Opinberir eftirlitsmenn mættu á staðinn til að rannsaka hvort „verðskrá yfir þjónustuliði væri sýnileg á sölustað, sbr. ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og hvort veittar væru upplýsingar um þjónustuveitanda, sbr. ákvæði laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, á vefsíðu“.
20 þúsund króna dagsekt
Samkvæmt vefsíðu Neytendastofu var niðurstaðan:
Verðmerkingar og einingaverð við sölu á vörum var í öllum tilfellum í samræmi við lög og reglur. Skoðun á vefsíðum – fésbókarsíðum – „sýndi að á vefsíðunni vantaði upplýsingar um kennitölu, virðisaukaskattsnúmer, opinbera skrá og leyfi þjónustuveitanda“. Þar sem engin ísbúðanna hafði sýnt viðbrögð ákvað Neytendastofa að leggja 20 þúsund króna dagsektir á hvern og einn ef hlutunum verður ekki kippt í liðinn innan tveggja vikna.
Óformleg „rannsókn“ þess sem hér heldur um penna, leiddi í ljós að ísbúðirnar hefðu orðið við tilmælum Neytenda, enda upplýsingar opinberar og aðgengilegar öllum t.d. á upplýsingasíðum ja.is. Fæstar búðanna stunda rafræn viðskipti a.m.k. ekki í gegnum fésbókarsíður sem eru fyrst og síðast til að koma á framfæri upplýsingum um verð, girnilega matseðla og afgreiðslutíma. Rafræn viðskipti með ís eru eðli máls samkvæmt ýmsum annmörkum háð.
En Neytendastofa er á vaktinni eins og góðri barnfóstru sæmir. Það er aukaatriði hvort ísbúðir bjóða góða vöru og þjónustu í virkri samkeppni sem neytendur njóta. Mestu skipti að þegar vafrað er um fésbókarsíður ísbúðanna komi skýrt fram virðisaukaskattsnúmer og kennitala.
Endurskoðun á tilvist
Auðvitað eiga fyrirtæki að fara eftir settum lögum, jafnvel þeim sem gera lítið annað en íþyngja rekstrinum og verja ekki hag neytenda með neinum hætti. En eftirlitsaðili verður ekki aðeins að búa yfir góðri dómgreind og ganga fram af hófsemd, heldur vera þess fullviss að þegar þvingunum er beitt á grundvelli laga þá falli viðkomandi fyrirtæki án vafa undir þau lög.
Rannsókn Neytendastofu á ísbúðum er vísbending um að stofnunin hafi ágætt svigrúm til að sinna litlum og stórum verkefnum – sé ekki ofhlaðin verkefnum. Þegar svo er komið er skynsamlegt að endurskoða tilvist ríkisstofnunar. Mörg verkefna Neytendastofu eru betur komin hjá öðrum, s.s. Neytendasamtökunum, önnur hjá Samkeppniseftirlitinu og jafnvel Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þannig er hægt að fækka barnfóstrunum um eina.
Við erum samfélag sem byggir á lögum – setjum ákveðnar leikreglur. Eftirlit með að leikreglunum sé fylgt er nauðsynlegt (það er hins vegar ekki náttúrulögmál að allt eftirlit eigi að vera á vegum opinberrar stofnunar – ekki frekar en bifreiðaskoðun). Það hefur hins vegar reynst erfitt fyrir góðhjartaða stjórnmála- og embættismenn að feta hinn gullna meðalveg – setja einfaldar og skilvirkar leikreglur og þvælast ekki fyrir eðlilegum viðskiptum. Tilgangurinn er göfugur; að verja almenning gagnvart sjálfum sér og öðrum. Og til verður land barnfóstrunnar sem er alltumlykjandi í formi eftirlitsstofnana svo tryggt sé að einstaklingar og fyrirtæki fari að fyrirmælum og fari sér ekki að voða.
Ógöngur eftirlitskerfisins
Ríkisbarnsfóstran hefur því áhyggjur af öllu – ekki aðeins hvort virðisaukaskattsnúmer ísbúðar liggi kýrskýrt fyrir. Á stundum er engu líkara en fóstran sé sannfærð um að almenningur þjáist af almennri heimsku, einstaklingar geti ekki borið ábyrgð á eigin lífi og fyrirtækjum sé ekki treystandi til að bjóða góða vöru og þjónustu á hagstæðu verði.
Hugmyndafræði barnfóstrunnar og alþjóðleg samvinna barnfóstra hefur krafist þess að framleiðendur smur- og hreinsiefna taki sérstaklega fram að leita þurfi til læknis, ef „efnið er drukkið“. Skordýraeitur verður að merkja sérstaklega; taka fram að ekki megi geyma það hjá matvælum og ekki nota eitrið á fleti þar sem matvæli eru unnin, matbúin eða þeirra neytt. Svo verður sérstaklega að taka fram að alls ekki megi „nota efnið á fólk og húsdýr“. Í bæklingi með rafmagnssög er með skýringamynd varað við því að setja hendurnar fyrir sagarblaðið. Í leikfangabúðinni er Súperman-búningurinn merktur sérstaklega og tekið fram að þótt menn klæðist búningnum geti þeir ekki flogið. En á sama tíma eru merkingar margra matvæla annaðhvort illskiljanlegar og/eða ólæsilegar a.m.k. fyrir miðaldra karl án gleraugna og þó eru merkingarnar í samræmi við fyrirmæli. Ekkert af þessu er án kostnaðar.
Ég hef lengi verið sannfærður um að opinbert eftirlitskerfi hafi ratað í ógöngur, þótt margt sé þar gert sem er til fyrirmyndar. Það verður að stokka kerfið allt upp og ekki síst innleiða nýja hugsun. Við þurfum sterkar og öflugar eftirlitsstofnanir sem framfylgja settum reglum af heilbrigði skynsemi og sinna leiðbeinandi hlutverki til að tryggja heilbrigði viðskiptalífsins og hagsmuni neytenda. Uppstokkunin kallar á sameiningu stofnana og útvistun verkefna þar sem við á. En um leið þarf löggjafinn að taka til hendinni og einfalda regluverkið. Við þá vinnu er nauðsynlegt að hafa í huga að leikreglurnar eru til að verja neytendur og fyrirtæki, en ekki til að byggja undir eftirlitsiðnaðinn og þær fjölmörgu ríkisfóstrur sem vilja allt faðma. Sá faðmur er ekki alltaf hlýr.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október 2020.