Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisfloksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Ferðaþjónustan gegndi lykilhlutverki við að reisa efnahagslíf okkar við fyrir tæpum áratug og skapa í kjölfarið eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldissögunnar. Fjöldi ferðamanna fjórfaldaðist á örfáum árum sem styrkti gjaldmiðil okkar, jók kaupmátt, fjölgaði störfum og bætti lífskjör.
Vöxtur útflutnings og kaupmáttar skilaði sér í aukinni neyslu og fjárfestingu. Hagvöxtur var meiri hér á þessu tímabili en í flestum vestrænum ríkjum, sem líklega má einkum rekja til blómlegrar ferðaþjónustu. Hún skapaði einnig þriðja hvert nýtt starf sem varð til á Íslandi á tímabilinu 2015-2019.
Ferðaþjónustan lagði í fyrra um 8% til landsframleiðslu okkar sem er mjög hátt hlutfall í alþjóðlegu samhengi. Engin hinna Norðurlandaþjóðanna reiðir sig jafnmikið á ferðaþjónustu. Norðmenn koma næstir með helmingi lægra hlutfall. Mikilvægið er enn meira þegar horft er á vinnumarkaðinn. Hvergi innan OECD var á liðnum árum hærra hlutfall starfa í ferðaþjónustu en á Íslandi.
Fleiri jákvæð áhrif
Óbein jákvæð áhrif greinarinnar eru líka mikilvæg. Dæmi um þau er hinn mikli fjöldi áfangastaða sem Íslendingum stendur alla jafna til boða í alþjóðaflugi. Góðar flugsamgöngur gegna einnig mikilvægu hlutverki í vöruflutningum og stuðla að auknum viðskiptatengslum. Byggðaáhrif eru annað dæmi. Ferðaþjónustan hefur stuðlað að mikilli grósku víða um land, skapað bæði atvinnutækifæri og fjölbreyttari þjónustu, menningu og afþreyingu, sem eykur ekki bara lífskjör heldur lífsgæði. Ferðaþjónustan hefur því bæði lagt heiminn að fótum Íslendinga og dregið heimsbyggðina út á land, ef svo mætti segja.
80% tapaðra starfa eru í ferðaþjónustu
Óhætt er að fullyrða að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi bitnað meira á ferðaþjónustu en öðrum atvinnugreinum. Tekjur hennar hafa nánast horfið í einni svipan. Fjögur af hverjum fimm störfum sem höfðu tapast á Íslandi um mitt ár (miðað við sama tíma í fyrra) voru í ferðaþjónustu, eða um 10.500 af alls 13.500.
Á sama tíma og réttilega var kallað eftir sértækum aðgerðum fyrir greinina var því ljóst að hún naut öðrum greinum fremur góðs af mótvægisaðgerðum stjórnvalda. Til viðbótar komu sértækar aðgerðir eins og viðamikið markaðsátak bæði innanlands og erlendis, ferðagjöf og aukið fé til framkvæmda á ferðamannastöðum.
Fleiri aðgerðir hafa verið til skoðunar með hliðsjón af þróun mála, ekki síst til að stuðla að því að greinin verði sem best í stakk búin til að taka við sér á ný. Þá er verið að athuga með ýmsa möguleika á móttöku fólks, svo sem að viðurkenna Covid-skimun frá heimalandi, taka upp hraðskimun og mögulegt fyrirkomulag við að taka á móti fólki með öruggum hætti þegar aðstæður leyfa.
Sóknarfæri
Engum dylst að áherslur stjórnvalda beinast nú mjög að nýsköpun. Á sama tíma er ljóst að þegar aðstæður leyfa verður ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem er líklegust til að skapa störf og styðja við eftirspurn í hagkerfinu tiltölulega hratt. Ljóst er að kostir Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn eru að minnsta kosti jafnmiklir og fyrir Covid og sennilega meiri.
Við ætlum að vera tilbúin í nýja sókn þegar þar að kemur. Upphaf markaðsátaks stjórnvalda og Íslandsstofu fyrr á árinu vakti mikla athygli erlendis og skilaði verulegum mælanlegum árangri í auknum áhuga á Íslandi, þó að aðeins einum fimmta af ráðstöfunarfénu hafi verið eytt. Bróðurparturinn er því enn til ráðstöfunar til að sækja kröftuglega fram þegar sá tími kemur. Í millitíðinni verður leitast við að kynna Ísland með þeim leiðum sem henta við núverandi aðstæður, eins og samstarf átaksins við Iceland Airwaves er gott dæmi um.
Hvað gerum við öðruvísi núna?
Ísland er miklu betur í stakk búið til að taka við örum vexti ferðaþjónustunnar en fyrir nokkrum árum. Milljörðum hefur verið varið í að bæta innviði á fjölmörgum stöðum, meðal annars í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Allir sem ferðast um landið hafa orðið varir við framþróun á þessu sviði og við höldum áfram á þeirri vegferð.
Þá hafa sýn og áherslur í ferðaþjónustu verið mótaðar bæði á landsvísu og svæðisbundið.
Markvissari stýring er á dagskrá, eins og nýlegir samningar Vatnajökulsþjóðgarðs við ferðasala eru til marks um, sem og boðað frumvarp fjármálaráðherra um útgáfu sérleyfissamninga vegna afnota af landi í eigu ríkisins. Við höfum innleitt mat á álagi af ferðaþjónustu á margvíslega innviði landsins en þar skiptir bæði máli að skoða landið í heild og einstaka áfangastaði.
Oft er rætt um að laða hingað betur borgandi ferðamenn. Íslandsstofa hefur greint markhópa okkar vel og hagar landkynningu eftir því. Við stýrum þó aldrei fullkomlega hverjir hingað koma. Þar ræður flugframboð miklu. Líka má nefna að verðlag á Íslandi hefur verið hátt í alþjóðlegum samanburði og reynt á þolmörk ferðamanna gagnvart verðlagningu; við höfum því tæplega verið ofarlega á blaði hjá þeim sem leggja mesta áherslu á lágt verðlag.
Líklega hefur engin önnur atvinnugrein skilað Íslandi eins skjótum ávinningi af viðlíka stærðargráðu og ferðaþjónustan gerði á undanförnum áratug eða svo. Ný sókn verður þó að vera sjálfbær, eins og nýleg framtíðarsýn stjórnvalda og greinarinnar kveður á um. Sú sýn er í fullu gildi. Á þeim grunni munum við sækja fram að nýju ásamt þeim þúsundum einstaklinga í greininni sem hafa með þrotlausri vinnu, hugkvæmni og metnaði hagnýtt og auðgað þá stórkostlegu auðlind sem er áfangastaðurinn Ísland.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. október 2020.