Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins. Hann ræddi þar um spennandi verkefni á vegum sveitarfélagsins og ný hverfi sem eru að rísa. Hann ræddi líka um góða reynslu Garðabæjar af móttöku flóttamanna frá Úganda, meinta félagslega einsleitni í Garðabæ og bréfið sem hann skrifaði Bill Gates Foundation. Hlusta má þáttinn hér.
Garðabær hefur ekki farið varhluta af Covid19-faraldrinum frekar en aðrir og segir Gunnar mikilvægt að taka sérstaklega utan um unga fólkið í faraldrinum. Hann segir jafnframt mikilvægt að halda vel utan um fjárhaginn á óvissutímum en vill ekki fara af leið og hækka álögur á íbúa. Hann segir þá fjármuni betur komna hjá bæjarbúum nú þegar skóinn kreppir óhjákvæmlega í efnahagslífinu.
Garðabær er sjötta stærsta sveitarfélag landsins með tæplega 16 þúsund íbúa og fer ört fjölgandi. Fyrir fáeinum árum sameinaðist Álftanes Garðabænum og á síðustu árum hafa í bænum risið ný hverfi, nú síðast Urriðaholt og senn rís ný byggð í Vífilsstaðalandinu. Sveitarfélagið hefur verið framsækið á mörgum sviðum, til að mynda í skólamálum og umhverfismálum svo vakið hefur athygli út fyrir landssteinana. Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Garðabæjar en flokkurinn fékk 62% fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum og átta menn kjörna af ellefu.