Skrípaleikur með tillögur
'}}

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Mér hefur oft fundist lítið ganga í mörgu sem við erum að fást við í borgarstjórn, eða fagráðum innan hennar.  Að það sé meiri áhersla lögð á að tala, eiga samtal, skipa vinnuhópa og stýrihópa, en minni áhersla á að láta hlutina gerast. Mér finnst oft lítill árangur nást með störfum okkar í borgarstjórn.

Það finnst mér sérstaklega furðulegt af því að meirihlutinn hefur völd til að láta hlutina gerast.  Það þekki ég eftir að hafa sjálfur starfað í meirihluta í sveitarfélagi.  En hér í borginni finnst mér meira snúast um að tala um vandamálin, heldur en að leysa þau.

Lítill árangur, mikið mas

Síðast þegar ég gagnrýndi þetta verkleysi í fagráði þá fékk ég þau svör að það þyrfti alltaf að byrja á því að ræða hlutina. Já, en það er ekki búið að gera neitt annað en að tala þessi sex ár sem ég hef verið viðloðandi stjórnun borgarinnar.  Man til dæmis einhver eftir þeim árangri sem hin svokölluðu „pírataráð“ hafa náð í borginni? Hverju vinnan í þeim ráðum hefur skilað? En ég ætlaði ekki að ræða það núna, heldur annað mál þessu tengt.

Þegar ég gagnrýndi að þetta endalausa samtal skilaði litlu, þá fékk ég svarið; „komdu þá með tillögu“.  Ég var augnablik orðlaus, en svo rifjaðist það upp fyrir mér að daginn áður hafði tillaga frá okkur í minnihlutanum fengið meðhöndlun í öðru fagráði.  Tillaga sem allir gátu tekið undir.  Engu að síður var tillagan felld.  Meirihlutinn lagði fram aðra tillögu hálfu ári síðar. Hún var samþykkt.

Tillögurnar tvær

Tillaga okkar í minnihlutanum, lögð fram í skóla- og frístundaráði 25. febrúar síðastliðinn:

„Víða er aðstaða í frístundamiðstöðvum og frístundaheimilum slæm sem kemur niður á faglegu starfi þannig að erfitt getur reynst að starfa í samræmi við stefnu í frístundamálum sem gerir auknar kröfur um aukið hlutverk þessara starfsstaða. Að auki er viðhaldi víða ábótavant. Lagt er til að gerð verði sérstök úttekt á aðstöðu frístundamiðstöðva og frístundaheimila og viðhaldsþörf þessara starfsstaða. Í framhaldinu er lagt til að gerð verði áætlun um úrbætur.“

Breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögð fram 22. september síðastliðinn:

„Lagt er til að gerð verði heildarúttekt á húsnæði og aðstöðu frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila þar sem mat verði lagt á viðhaldsþörf umræddra starfsstaða. Niðurstöður úttektarinnar verði nýttar til að vinna áætlun með forgangsröðun um úrbætur.“

Það hefði verið gott að samþykkja tillögu okkar í minnihlutanum strax í febrúar í stað þess að fresta afgreiðslu hennar um hálft ár, þá hefði verið hægt að fara strax í verkið og ráðast í úrbætur í kjölfarið.

Flestar tillögur sem við í minnihlutanum flytjum í ráðum og nefndum snúast ekkert um pólitík, heldur eru yfirleitt ábendingar um hvað við teljum að betur fara.  Örlög okkar tillagna eru yfirleitt á þessa sömu leið og hér að ofan.  Afgreiðslu þeirra frestað og að nokkrum tíma liðnum kemur meirihlutinn með sína útgáfu og okkar tillögu.  Þetta er ekkert annað en skrípaleikur.  Það geta allir séð sem skoða tillögurnar tvær.

Við í minnihlutanum höfum oft gagnrýnt meirihlutann fyrir að í verkum þeirra fari ekki saman hljóð og mynd.  Það að kalla eftir fleiri tillögum frá okkur í minnihlutanum á sama tíma og þær eru meðhöndlaðar með þessum hætti sem hér sést, er skrípaleikur.  Þar fer ekki saman hljóð og mynd. Þessi vinnubrögð eru engum til sóma.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. október 2020.