Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Engin mannanna verk eru fullkomin en sum eru betri en önnur, jafnvel miklu betri. Mörg eru svo gölluð að þau eru illa nothæf en engu að síður er hausnum barið við steininn og „kerfið“ neitar að henda þeim á haugana.
Ég hef lengi verið sannfærður um að fyrirkomulag við skipan dómara eigi að vera opið og mynda jarðveg fyrir rökræður um dómstóla, dómaframkvæmd og ekki síst um bakgrunn og fræðilega þekkingu þeirra sem sækjast eftir dómarastöðum. Engin frjáls þjóð getur afhent örfáum einstaklingum vald til að skipa dómara – allra síst ef þeir þurfa aldrei að standa skil gjörða sinna gagnvart almenningi. Andlitslausir valdamenn án ábyrgðar og utan aga opinberrar umræðu, mega því aldrei fá skipunarvaldið. Með því verður til „sjálfsval vitringanna“.
Nýr dómari tilnefndur
Fyrir nokkrum dögum tilnefndi Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, konu til Hæstaréttar landsins í stað Ruth Bader Ginsburg sem lést 18. september síðastliðinn. Ginsburg hafði setið í Hæstarétti frá 1993 en Bill Clinton, fyrrverandi forseti, tilnefndi hana til starfa. Hún var önnur konan til að taka sæti í réttinum og varð áhrifamikill dómari sem naut virðingar innan sem utan réttarins.
Hér verða deilur um tilnefninguna látnar liggja á milli hluta. Forsetinn og félagar hans í Repúblikanaflokknum hafa verið gagnrýndir af andstæðingum fyrir að knýja skipan dómara við Hæstarétt í gegn nokkrum vikum fyrir kosningar. Þær deilur endurspegla pólitísk átök í aðdraganda forsetakosninga, sem eru ef til vill djúpstæðari en áður vegna aukinnar „pólaríseringar“ bandarísks samfélags.
Fyrir leikmann er hins vegar áhugavert að fylgjast með skipan dómara við æðstu dómstóla í Bandaríkjunum. Nokkrum dögum eftir tilnefninguna veit ég líklega meira um Amy Coney Barrett en flesta (ef ekki alla) íslenska dómara við Hæstarétt og Landsrétt (að ekki sé talað um héraðsdómara).
Úr smiðju Scalia
Amy Coney Barrett er 48 ára gömul, sjö barna móðir. Tvö barna hennar eru ættleidd og eitt er með þroskahömlun. Frá 2017 hefur hún verið dómari við umdæmisdómstólinn í Chicago. Hún var áður prófessor í lögum við Notre Dame-háskólann og er sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Sem kennari var hún vinsæl meðal nemenda og naut virðingar þeirra óháð pólitískum skoðunum þeirra. Eiginmaður hennar er Jesse M. Barrett, sem einnig er lögfræðingur, var saksóknari en er starfandi lögmaður og prófessor við Notre Dame og kennir refsirétt.
Frá 1998 til 1999 var Amy aðstoðarkona Antonin Scalia hæstaréttardómara sem lést árið 2016. Scalia var áhrifamikill dómari og lögspekingur sem hafði mikil áhrif á Amy sem segist sækja í smiðju hans. Scalia var fremstur þeirra sem telja að í lögskýringum eigi að segja það sem lögin þýða og túlka það sem þau segja. Það sé ekki hlutverk dómstóla að setja lög, heldur túlka þau. Persónuleg viðhorf dómara geti þar aldrei leikið hlutverk.
Árið 2008 hélt Antonin Scalia erindi í Háskóla Íslands. Af því tilefni skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, þá dómari við Hæstarétt Íslands, um hugmyndir kollega síns í tímaritið Þjóðmál. Rætur skoðana Jóns Steinars og Scalia liggja í sama jarðvegi lögfræðinnar. Báðir menn textans og orðskýringa. Hafna kenningum þeirra sem halda fram svonefndum „lifandi“ eða „framsæknum“ skýringum á stjórnarskrá. Dómstólum sé ekki heimilt að telja að efni stjórnarskrár breytist frá einum tíma til annars í því skyni að uppfylla kröfur tíðarandans, eins og meirihluti manna skynji á hverjum tíma. Með því væru dómstólar að taka sér vald sem þeir hafa ekki.
Kona textans
Jón Steinar lýsti viðhorfi Scalia og þar með sínum eigin til stjórnarskrár og til valdsviðs dómara:
„Stjórnarskrá sé ætlað að veita borgurunum vernd gegn misbeitingu opinbers valds, þar með af hálfu þeirra sem fara með meirihlutavald á hverjum tíma. Það sé andstætt þessum tilgangi hennar að telja að dómstólar megi breyta merkingu ákvæða stjórnarskrárinnar eftir því hvernig vindar blási. Með því að beita slíkum aðferðum í dómsýslunni séu menn í raun og veru að vinna á þeirri vernd sem í stjórnarskránni felist, því þar séu borgararnir einmitt verndaðir gegn ríkjandi meirihluta hvers tíma. Það sé líka hlutverk lýðræðislega kjörinna fulltrúa en ekki æviskipaðra dómara að breyta gildandi reglum. Til þess hafi þeir ekki umboð. Í reynd sé starfsemi þessara „aktífu“ dómara andlýðræðisleg, því þeir þurfi ekki að standa þjóðinni nein reikningsskil á meðferð sinni á því valdi sem þeir hafi tekið sér með þessum hætti.“
Amy Coney Barrett er kona textans og orðskýringanna með sama hætti og lærifaðir hennar. Fyrir vikið liggur hún undir ásökunum um að vera fulltrúi íhaldssamra viðhorfa. Hvort ætli þjóni frjálsum borgurum betur; að dómsvaldið sveiflist í takt við tíðarandann og vilja meirihlutans eða túlki lögin þannig að þau þýði þar sem þau segja? „Dómari verður að framfylgja texta laganna. Dómarar setja ekki lög og þeir verða að láta persónuleg sjónarmið víkja við úrlausn mála,“ sagði Barrett meðal annars þegar tilkynnt var um tilnefningu hennar.
Óháð deilum um „lifandi lögskýringar“, lagasetningarvald dómstóla, stranga túlkun textans og orðskýringa, þarf Barrett að koma fyrir laganefnd öldungadeildarinnar. Allir geta fylgst með „yfirheyrslu“ þingmanna yfir dómaraefninu. Meirihluti öldungadeildarinnar þarf síðan að staðfesta skipan hennar í Hæstarétt.
Andlitslausir nefndarmenn
Í samanburði við ferlið við skipan hæstaréttardómara í Bandaríkjunum er skipan íslenskra dómara hulin ákveðnum leyndarhjúp. Í raun hefur skipunarvaldið verið falið hópi sérfræðinga sem vega og meta hvern þann sem sækist eftir embætti. Hæfisnefnd andlitslausra einstaklinga, sem sækja ekki umboð sitt til almennings og standa honum því engin reikningsskil, leggur línurnar.
Fáir hafa hagsmuni af því að tortryggja niðurstöður nefndarinnar (nema þá þeir sem ekki hljóta náð fyrir augum nefndarmanna). Fjölmiðlar líta ekki niðurstöður nefndarmanna gagnrýnisaugum, en gefa sér að allt sé byggt á „faglegu áliti“. Fræðasamfélag lögfræðinga heldur sér til hlés. Pólitískt aðhald er ekkert. Agi sem fylgir opinberri umræðu er enginn. Niðurstaðan er sú að fáir utan þröngs hóps lögfræðinga þekkja þá sem að lokum eru skipaðir dómarar. Sjálfsval heldur áfram.
Hvort ætli þjóni réttarríkinu og frelsi borgaranna betur, að skipa dómara bak við luktar dyr eða undir kastljósi almennings, fræðasamfélagsins og fjölmiðla?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. september 2020.