Vilhjálmur Árnason alþingismaður:
Fjölskyldan er mikilvægust hverjum og einum og staða hennar skiptir því mestu hvað varðar gæði þess samfélags sem við búum í. Leyfi ég mér að fullyrða að stærsta stund hverrar fjölskyldu er þegar fjölgar í fjölskyldunni með fæðingu barns. Fjölskylda er fallegt og gott orð sem verður að teljast nokkuð vel skilgreint. Það breytir því ekki að staða og aðstæður hverrar fjölskyldu eru mismunandi og þar af leiðandi fjölmargar nýjar aðstæður sem skapast á hverju heimili við fæðingu barns. Við erum öll sammála um að ávallt skal gera það sem er barninu fyrir bestu og höfum við gengist undir alþjóðaskuldbindingar og innleitt í íslensk lög að það sem er barninu fyrir bestu eigi að ráða för.
Markmiðinu um hvað barninu er fyrir bestu verður að mínu mati náð með því að virða grundvallarrétt hverrar fjölskyldu, sem er sjálfstæði fjölskyldunnar og sjálfsákvörðunarréttur hennar. Það er enginn sem þekkir aðstæður betur til að hægt sé að meta hvað sé barni fyrir bestu og fjölskyldunni allri en einmitt fjölskyldan sjálf. Það er því með ólíkindum að starfshópur og í framhaldi félags- og barnamálaráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé barni fyrir bestu að þrengja tímabil töku fæðingarorlofs niður í 18 mánuði, skipta mánuðum jafnt á milli foreldra, sex og sex mánuði, og hafa aðeins einn mánuð af tólf framseljanlegan á milli foreldra. Frumvarpið er nú til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda.
Með þessum tillögum er búið að skerða frelsi fjölskyldunnar algjörlega og draga úr möguleikum hverrar fjölskyldu til að bregðast við aðstæðum hverju sinni svo hægt sé að mæta þörfum og hag barnsins. Sem dæmi sýnir reynsla frá hinum ríkjum Norðurlandanna okkur að svona þröngt fyrirkomulag kemur sér hvað verst fyrir tekjulægri fjölskyldur, þær sem mega síst við fjárhagslegum áföllum í þessu sambandi. Tillögurnar eins og þær eru fram settar munu ekki auka líkurnar á að barnið fái fyrstu 12 mánuðina með foreldri sínu, þar sem hætt er við að svona margir mánuðir bundnir á hvort foreldri verði til þess að enn hærra hlutfall réttindanna falli niður ónýtt.
Þessar tillögur eru aðför að því góða fæðingarorlofskerfi sem við höfum byggt upp hér á landi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið stoltur af. Fæðingarorlofskerfið er ein fyrsta og um leið öflugasta jafnréttislöggjöf sem fram hefur komið hér á landi. Mikilvægi fæðingarorlofskerfisins í jafnréttismálum verður ekki skert að neinu leyti þótt áfram verði þrír mánuðir fyrir hvort foreldri og hinum sex ráðstafað af fjölskyldunni enda mun atvinnurekandi aldrei vita fyrir fram hvort foreldrið mun vera lengur í fæðingaorlofi.
Stöndum vörð um barnið og fjölskylduna með því að treysta fjölskyldunni fyrir hlutverki sínu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2020.